Hnattvæðing samstöðunnar

Katrín Baldursdóttir Pistill

Alþjóðasambönd verkalýðsfélaga telja nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin hnattvæðist svo hægt verði að draga úr hinum skelfilegu afleiðingum nútíma kapítalisma. ITUC (International Trade Union Confederation) hefur sagt á þingum sínum að þó samstaða verkalýðsfélaga hafi eflst á undanförnum árum þá sé mikið starf ennþá óunnið við að hnattvæða samstöðuna. Það verði að setja bönd á ferla hnattfæðingar kapítalismans. Verkalýðsfélög gegni lykilhlutverki í að móta og hanna nýtt heimslíkan í samstarfi við ríkisstjórnir og félög atvinnurekenda og geti þannig átt þátt í að tryggja að auðnum sé skipt á réttlátari hátt svo dragi úr fátækt og ójöfnuði. Verkalýðshreyfingin eigi einnig að aðstoða verkafólk við að mynda félög, líka það fátækasta og það sem starfar utan félaga í óhefðbundnum störfum. Samkvæmt ITUC hefur samvinna verkalýðsfélaga þvert á landamæri aldrei verið jafn knýjandi og nú. Það þurfi að skipuleggja herferðir í hverju landi fyrir sig, sem væru undirbúnar í samvinnu við alþjóðasambönd verkalýðsfélaga. Þetta sé ekki aðeins spurning um samstöðu heldur skilyrði fyrir árangri í baráttu verkalýðsfélaga. Þá er boðuð aukin harka í baráttunni við brot á mannréttindum og sérstökum réttindum launþega, með því að þau verði tilkynnt og upplýst um leið og þeirra verður vart. Nýta á samstöðuna betur í baráttunni og hafa bein afskipti þegar brot eiga sér stað.

Þó áhrifamáttur verkalýðsfélaga hafi dvínað verulega á undanförnum 20-30 árum þá eru Alþjóðasambönd verkalýðsfélaga (Global unions) almennt þeirrar skoðunar að ekkert geti komið í staðinn fyrir verkalýðsfélög og tekið við þeirra hlutverkum. Engir aðrir hópar geti komið í staðinn, hvorki stuðningshópar, baráttuhópar, atvinnurekendur, opinber samtök eða félagasamtök af öðrum toga. Alþjóðasamböndin eru sammála um að brýnt sé að verkalýðsfélög breyti sínum störfum og starfsháttum til að geta mætt nýjum aðstæðum. Slíkar breytingar séu nauðsynlegar og óhjákvæmilegar. Það þurfi að auka upplýsingastreymi til launþega um hlutverk og störf verkalýðsfélaga með herferðum og fleiru. Einnig þurfi að auka vinsældir verkalýðsfélaga og bæta ímynd þeirra. Þá þurfi að framkvæma ýmis konar greiningar og rannsóknir til þess að styðja einstök félög til þess að takast á við málefni tengd hnattvæðingu.

Fræðimenn hafa bent á að núverandi skipulag og uppbygging verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu hamli alþjóðlegu samstarfi vegna þess að verkalýðsfélögin starfi fyrst og fremst á landsvísu. Þó það séu til alþjóðleg og evrópsk verkalýðssambönd fari starfsemin fyrst og fremst fram í hverju landi fyrir sig. Þetta geri t.d. alþjóðlegar aðgerðir erfiðar.

Evrópusambandið hefur síðan 1994 bent á þörfina fyrir nýtt og sameiginlegt vinnumarkaðskerfi og samræmda vinnulöggjöf, þvert á landamæri, en segir að uppbygging verkalýðshreyfingarinnar sé eitt þeirra atriða sem stendur í vegi fyrir því. Þá skorti samstöðu meðal verkafólks í Evrópu um að starfa alþjóðlega.

Þó að þing ITUC hafi að undaförnu komið fram með áherslur sem mega teljast pólitískari og beinskeyttari en áður, þá eru aðferðirnar við að ná fram markmiðunum ekki skýrari. Það er jú talað um herferðir, rannsóknir, aukið samstarf, aukin samskipti við stjórnvöld og atvinnurekendur, bætt eftirlit og íhlutanir, tilgreind fyrirmæli til Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um athafnir og fleira. Hins vegar eru markvissar aðgerðir, leiðir og aðferðir við að ná fram þessum markmiðum ekki tilgreindar. Ekki er bent á nákvæmar leiðir um hvernig og hvenær eigi að efna til svona herferða, hvernig á að fara að því að bæta samskiptin við stjórnvöld og atvinnurekendur, hvernig íhlutun í starfsemi fyrirtækja ætti að fara fram, hver eigi að tilkynna um brot á lögum, reglum og mannréttindum og hvernig verkalýðsfélag geti fylgt því eftir og hvernig eigi að stofna verkalýðsfélag, svo fátt eitt sé talið. Þá er ekki rætt um að breyta þurfi þjóðskipulaginu til að ná fram markmiðum um aukin jöfnuð og réttlátari heimsmynd.

Af framansögðu er ljóst, að sú skoðun er almenn, að svarið við hnattvæðingu sé alþjóðavæðing verkalýðshreyfingarinnar, hnattvæðing samstöðunnar, líkt og Karl Marx sagði forðum. Munurinn er bara sá að verkalýðsfélögin í heiminum í dag hafa engin plön um byltingu eða breytingu á þjóðskipulaginu að öðru leyti. Og miðað við hversu máttur verkalýðsfélaga hefur farið þverrandi á heimsvísu á undanförnum áratugum er því miður ekki ástæða til bjartsýni á að þeirra barátta beri mikinn árangur fyrir launþega heimsins í hnattvæddum kapítalisma.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram