Stígum til jarðar!

Gísli Pálsson Pistill

Nú er í vaxandi mæli kallað eftir nýjum sósíalisma. Að margra mati er mikilvægt að læra af reynslu síðustu aldar, sníða agnúana af hefðbundnum sósíalískum hugmyndum og marka stefnu sem samrýmist nútímanum. Sýnt þyki, til að mynda, að áherslur frumkvöðlanna á söguleg lögmál og hlutverk verkalýðsins sem framvarða í fyrirsjáanlegri öreigabyltingu eigi ekki lengur við, á tímum hnattvæðingar og netmiðla, svo að nokkuð sé nefnt. Sumt í fræðum þeirra – ekki síst greining þeirra á ójöfnuði, lögmálum auðmagnsins og alþjóðafjármálakerfinu og áminning þeirra um breiða samstöðu, jöfnuð og nýjan mannskilning – eigi hins vegar fullt erindi við tuttugustu og fyrstu öldina.

Einsýn nýfrjálshyggjan, með einkavæðingu og frelsi „sjálfstæðra“ einstaklingsins að leiðarljósi, hefur leitt heiminn í ógöngur; nú er brýnt að snúa við blaðinu og leita nýrra leiða með sósíalískar hugmyndir í farteskinu. Þetta ágætlega tíundað í nýrri bók, The Idea of Socialism: Towards a Renewal, eftir þýska heimspekinginn Axel Honneth. Þar er bent á að sú almenna upplausn, reiði og firring sem einkennir samtímann hafi ekki fundið uppbyggilegan og raunsæjan farveg en endurnýjaður sósíalisminn gefi mannkyni von.

Nánd jarðarinnar

Honneth sést hins vegar, að mínu viti og margra annarra, yfir sterkustu rökin fyrir nauðsyn sósíalisma nú á tímum. Mannkynið, raunar allt líf á plánetunni, stendur nú frammi fyrir risavöxnum umhverfisvanda af allt annarri stærðargráðu en áður hefur þekkst og ekki er unnt að glíma við hann nema segja skilið við kapítalisma og nýfrjálshyggju. Eins og Viðar Þorsteinsson bendir á í ágætri grein hér á síðunni: „Öll marktæk viðbrögð við loftslagsbreytingum krefjast uppgjörs við kapítalismann.“ Brautryðjendur sósíalískra hugmynda gátu ekki ímyndað sér þennan vanda. Fyrir þeim voru kol og olía aðeins auðlindir og hagstærðir og allt snerist um yfirráð mannsins yfir náttúrunni. Bylting öreiganna hefði engu breytt um ógöngur jarðarinnar. Kannski mætti segja að gufuaflið og iðnbyltingin hafi þyrlað kolaryki í augu Marx og Engels og fylgismanna þeirra.

Félagsvísindin ruddu sér til rúms í kjölfar iðnvæðingar, nokkru síðar en jarðvísindin, og staðsettu sig hinum megin við flekaskil fræðaheimsins; þau létu mannlífið til sín taka en leiddu jörðina hjá sér, nema þunnt yfirborðið sem blasti við daglega. Átök félagsheimsins og jarðhræringar áttu ekkert sameiginlegt. Hætt er þó við að fræðaheimurinn, bæði félagsvísindi og jarðvísindi, missi sjónar á nánu sambandi fólks og jarðar sem um þessar mundir, á tímum fyrirsjáanlegs umhverfisvanda, er lífsnauðsynlegt að ræða og skilja.

Nýr tími

Einmitt þegar Vesturlandabúar komust að þeirri niðurstöðu að tækni og vísindi myndu leysa allan vanda, hrönnuðust óveðursskýin upp. Um miðja síðustu öld hófust líflegar umræður um vandamál jarðar og ábyrgð mannsins. Þó var ekki beinlínis talað um nýjan tíma. Bók bandaríska umhverfissagnfræðingsins Donalds Worster The Ends of the Earth (1988) sló nýjan tón. Worster taldi „óhjákvæmilegt að spyrja hvort nú tæki við nýtt tímaskeið, eitthvað sem alls ekki væri hægt að spá fyrir um, í framhaldi af því sem kallað hafi verið ‚nútími‘“. Mannkynssagan virtist taka nýja dýfu.

Nú er oft talað um nýtt tímaskeið í jarðsögunni, mannöld (e. anthropocene) sem helgist af djúpstæðum, jafnvel óafturkræfum, áhrifum mannfólks á jörðina sem valda miklum usla. Þessi áhrif, eins og ummerki fyrri jarðsögulegra tímaskeiða, eru rituð í ásýnd og innviði jarðarinnar og birtast með margvíslegum hætti. Skógar og votlendi, sem gegnt hafa mikilvægu hlutverki fyrir kolefnisbúskap jarðarinnar og beislun gróðurhúsalofttegunda eru á undanhaldi, geislavirk úrgangsefni hrannast upp, jöklar skríða fram, loftslag plánetunnar breytist ört og plastúrgangur syndir um úthöfin, hundruð þúsunda tonna. Flóð og stórviðri valda miklum skaða og fólk er neytt til að flytja sig um set vegna snöggra umhverfisbreytinga, meðal annars frumbyggjar á norðurslóðum þar sem viðkvæmur sífreri sem þekur milljónir ferkílómetra á undir högg að sækja. Nú á allt líf eins og við þekkjum það undir högg að sækja.

Mannaldarhugtakið er ekki hafið yfir gagnrýni og eflaust mun fólk lengi þrefa um það og rökræða og leita annarra kosta. Dómsdagsspár eiga sér langa sögu og nú sem fyrr er rétt að vera á varðbergi og halda sönsum. Sumir telja rétt að tala um öld auðmagnsins (capitalocene) fremur en mannöld. Þótt líta megi svo á að hnattræn hlýnun sé glæpur gegn mannkyni sitja fórnarlömbin ekki við sama borð. Margur furðar sig líka á því að um það leyti sem fólk hefur sannfærst um annmarka mannsins og skaðsemi, þegar trúnni á stöðugar framfarir af manna völdum hefur verið vikið til hliðar, sjái fólk ástæðu til að hefja homo sapiens aftur til vegs og virðingar, á „Öld mannsins“.

Orðhengilsháttur má hins vegar ekki yfirskyggja það sem skiptir máli, glímuna við lausnir á umhverfisvanda samtímans. Hvað sem við köllum þennan undarlega tíma, sem einkennist af mælanlegum og skaðlegum áhrifum mannkyns á jörðina, verður ekki fram hjá því gengið að hann markar kaflaskil. Hann grefur ekki aðeins undan hefðbundnum hugmyndum sem líta á mannlíf og náttúru sem andstæður; hann kallar á nýja vitund, nýjan skilning fólks á veröld í miklum vanda og skilyrðislausri ábyrgð þess í umhverfismálum. Ljóst er að mannaldarhugtakið vekur athygli, beinir sjónum manna að rótum vandans og hvetur til skoðunar og aðgerða – og það er vissulega mikilsvert.

Nýr sáttmáli, nýr sósíalismi

Löngum hefur verið sagt að til að leysa brýn vandamál sem varða allan almenning, til að mynda þann vanda sem stafar af ójöfnuði og misskiptingu gæða, þurfi fólk að gera með sér félagslegan sáttmála (e. social contract) sem kveður á um samskipti fólks, réttindi þegna og skyldur yfirvalds. Á nýjum tímum er nauðsynlegt að endurskoða hefðbundnar hugmyndir sem sækja í smiðju Jean-Jacques Rousseau og samtímamanna hans um hvernig standa skuli að slíkum sáttmála og um hvað hann skuli snúast; sumar þessara hugmynda eru úreltar en aðrar gætu vísað veginn. Ég reifa slíkar hugmyndir í væntanlegri bók minni Fjallið sem yppti öxlum, sem kemur út hjá Forlaginu í október. Á mannöld er sérstaklega mikilvægt að varast einhliða áherslu á félagslegan sáttmála (í venjulegum skilningi) sem sniðgengur jörðina „sjálfa“. Nú er tímabært að tala um jarðfélagslegan (geosocial) sáttmála þar sem gömul og gild hugtök á borð við samstöðu og jafnrétti öðlast nýja og jarðbundna merkingu. Og leggja drög að nýjum sósíalisma.

Gísli Pálsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram