Hvers vegna ekki að laga versta húsnæðiskerfið?

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Við Íslendingar höfum byggt upp versta húsnæðiskerfi í okkar heimshluta. Þetta kom meðal annars fram í nýbirtum lista Social Progress Index fyrir 2017, þar sem Ísland náði þriðja sæti í heiminum yfir margháttuð lífsgæði en lenti í 88. sæti þegar kom að húsnæðismarkaðnum. Þetta kom líka fram í nýrri könnun evrópsku hagstofunnar á fjölda fólk sem býr í löku eða óásættanlegu húsnæði. Þar kom fram að Ísland situr á botninum í okkar heimshluta, en fjórðungur íslenskra barna býr í slæmu húsnæði. Það er eitthvað alvarlega rotið í íslenska húsnæðiskerfinu. Því má svo bæta við að húsaleigu hefur hvergi í okkar heimshluta hækkað meira frá Hruni en á Íslandi, um 15 prósent á Norðurlöndum að meðaltali en 38 prósent á Íslandi.

Þessi tvö, Thatcher og Reagan, eru táknmyndir þeirra straumhvarfa sem urðu á Vesturlöndum um 1980; þegar hinir auðugu bundust höndum um að brjóta niður verkalýðshryfinguna, félagsleg kerfi og aðra hagsmunagæslu almennings og sveigja grunnstoðir samfélagsins að þörfum hinna ríku og auðugu.

Rotið heitir nýfrjálshyggja

Þetta rot er náttúrlega nýfrjálshyggjan og glórulaus trú á að óheftur markaðurinn færi okkur alltaf bestu lausnina. Íslendingar máttu varla við því að fá nýfrjálshyggjuna ofan í það veika húsnæðiskerfi sem hér byggðist upp á síðustu öld. Hér var ekki byggður upp leigumarkaður sambærilegur því sem þekktist í nágrannalöndunum, réttindi og vernd leigjenda var lítil og lengst af fengu leigjendur engan húsnæðisstuðning, öfugt við þá sem bjuggu í eigin húsnæði. Félagslega kerfið á Íslandi var líka veikt og langt í frá jafn umfangsmikið og í okkar heimshluta. Þessu réð fyrst og fremst veikburða verkalýðshreyfing, en hún var klofin milli hægri og vinstri á Íslandi á meðan að sósíalistar byggðu upp hreyfinguna í nágrannalöndunum og beittu henni fyrir félagslegum umbótum á helstu grunnkerfum samfélagsins. Hérlendis var hreyfingin annað hvort klofin eða hún tók upp hægri stefnumál; séreign í húsnæði og uppsöfnunarkerfi lífeyrisréttinda.

Þegar nýfrjálshyggjan lagðist á þetta veika kerfi lét það fljótt undan. Félagslega séreignarkerfið, Verkamannabústaðirnir, voru lagðir af fyrir aldamót og félagslega leiguíbúðakerfið var látið grotna niður. Kenningin var að markaðurinn myndi koma með betri lausnir. Sem hann gerði auðvitað ekki. Markaðurinn byggði upp leigufélög sem högnuðust á húsnæðisvanda hinna láglaunuðu og hinna ungu og var ófær um að byggja húsnæði fyrir aðra en ferðamenn og hina ríka. Markaðurinn græddi ekki nóg á að leysa húsnæðisvanda hinna fátæku og gerði það því ekki. Og stjórnvöld létu það gott heita. Og skipti þá engu hvort við stjórnvölinn er hægrisinnuð ríkisstjórn eða vinstrisinnuð sveitarstjórn. Hægri og vinstri skipta ekki máli þegar vinstrið hefur yfirgefið hin sósíalísku baráttumál og jöfnuð og almenn réttindi og öryggi óháð efnahag. Hægri og vinstri skipta bara máli þegar stjórnmálin snúast um stéttaátök.

Nýfrjálshyggjan á Íslandi náði að rústa húsnæðiskerfinu, svo landsmenn búa nú við 88. besta húsnæðiskerfi í heimi. Og nýfrjálshyggjan er komin langt með að hola heilbrigðis- og menntakerfið að innan. Og nýfrjálshyggjan er fyrir löngu búin að eyðileggja þá flokka, sem kalla má arftaka hinna sósíalísku flokka.

Milljónaverkefnið í Svíþjóð var gagnrýnt fyrir útfærslu, blokkaríbúðir í einsleitum úthverfum. En um samfélagsleg áhrif þess að eyða húsnæðisóvissu megin þorra fólks efast enginn.

Milljónaverkefni í húsnæðismálum

Í byrjun aldarinnar réðst samfélagið á Íslandi í stórátak. Markmiðið var að búa til 400 störf í álveri á Reyðarfirði. Alþjóðlegum auðhring var lofað skattleysi og uppbyggingu innviða á svæðinu og Landsvirkjun réðst í Kárahnjúkavirkjun. Bara þessi virkjun kostaði á núvirði, samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar, um 230 milljarða króna. Ef tekjutap ríkis og sveitarfélaga vegna skattfríðinda stórfyrirtækisins, gerð jarðganga, hafnarmannvirkja og annarrar innviða væri bætt við myndum við enda í stjarnfræðilegri tölu og við skulum því sleppa því. Notum 230 milljarða króna sem mælikvarða á samfélagslegt stórátak.

Fyrir 230 milljarða króna mætti byggja 9200 íbúðir miðað við að meðaltals byggingarkostnaður á hverja íbúð sé 25 milljónir króna. Meðalfjölskyldan á Íslandi telur tæplega 1,9 einstaklinga svo þetta átak myndi útvega um 17.500 manns heimili. Þá getur fólk metið hvort öruggt heimili fyrir 17.500 manns sé sambærilegt verkefni og atvinna fyrir 400.

Talandi um átök; þá er milljónaverkefni Svía líklega kunnasta stórátak í húsnæðismálum. Á um áratug voru byggð upp milljón íbúðir í Svíþjóð. Til að heimfæra þetta upp á Ísland þá jafngildir milljóna verkefni Svía um og upp úr 1970 því að Íslendingar myndu byggja upp 40 þúsund íbúðir á næstu tíu árum. Sænska verkefnið var því eins og fjórar Kárahnjúkavirkjanir að umfangi. Og þótt hægt sé að gagnrýna milljónaverkefnið, einkum vegna ofuráherslu á blokkaríbúðir í félagslega einsleitum úthverfum, þá hefur enginn gagnrýnt samfélagslegt mikilvægi þessa verkefnis. Það er talið helsta forsenda fyrir ríkri tilfinningu Svía fyrir samfélagssáttmála, með átakinu var stórlega dregið úr óöryggi fólks í húsnæðismálum um ákveðin tíma. Í Svíþjóð er nú rætt um að nauðsyn þess að ráðast aftur í sambærilegt átak til að auka öryggi í húsnæðismálum.

Kárahnjúkavirkjun kostaði um 230 milljarða króna og var er ágætt dæmi um umfang samfélagslegs átaks. Ef fjárhagslegt umfang Kárahnjúkarvirkjunar (sleppum umhverfisáhrifum hennar) er réttlætanlegt til að skapa 400 störf í álveri; má þá ráðast í sambærilegt verkefni til að leysa húsnæðiseklu rúmlega 17 þúsund manns?

Kárahnjúkar fyrir láglaunafólk

En ef við ættum einskonar Mannvirkjun, sambærilega Landsvirkjun; stofnun sem ætlað væri að tryggja almenningi öruggt og ódýrt húsnæði gæti hún tekið 230 milljarða króna lán til að byggja upp 9200 íbúðir á næstu fimm árum (helmingur þess hraða sem sambærilegur væri við sænska milljónaævintýrið) og fjármagnað það með leigu eða sölu íbúðanna þannig að lánið greiddist niður á fjörutíu árum.

Ef við miðum við 275 þúsund króna byggingarkostnaði á fermetra, 2% verðtryggða vexti á fjármögnun, 1% umsýslunarkostnað til að reka kerfið og 2,25% viðhaldskostnað ætti 95 þúsund króna húsaleiga á 60 fermetra íbúð að standa undir lántökunni. Einstaklingur með lágmarkslífeyri fengi 55 þúsund krónur í húsnæðisbætur og greiddi því 40 þúsund krónur í nettóleigu. Einstaklingur með 400 þúsund krónur á mánuði fengi 20 þúsund krónur í húsnæðisbætur og greiddi 75 þúsund krónur í nettó-húsaleigu.

Ef við ímyndum okkur einstætt foreldri með eitt barn í 80 fermetra íbúð þá er væri húsaleigan 126 þúsund krónur en nettóleigan 45 þúsund fyrir lægstu laun en 61 þúsund krónur miðað við 400 þúsund krónur á mánuði. Einstætt foreldri með tvö börn í 100 fermetra íbúð myndi greiða 158 þúsund krónur í leigu en 68 þúsund krónur í nettóleigu miðað við lægstu laun og sama miðað við 400 þúsund krónur á mánuði. Þannig er húsnæðisbótakerfið.

Par með tvö börn í 120 fermetra íbúð myndu borga 190 þúsund krónur í leigu en 103 þúsund krónur í nettóleigu miðað við að báðir fullorðnu séu á lægstu launum en 167 þúsund krónur miðað við 800 þúsund króna fjölskyldutekjur.

Fólki er frjálst að stilla svona kerfi út frá öðrum forsendum, hér er aðeins dregin upp einföld skissa til að gefa til kynna heildarmyndina.

Verkamannabústaðirnir voru félagslegt eignaíbúðakerfi eins og víða þekkist. Einkenni þeirra kerfa eru að þau eru lokuð. Fólk nýtur öryggis og lágs húsnæðiskostnaðar en getur á móti ekki selt íbúðir sínar út úr kerfinu. Eyðilegging þessa kerfis er líklega eitt grófasta dæmi þess hversu illa nýfrjálshyggjan lék Íslendinga.

Félagslegar eignaríbúðir

Það má líka stilla þessu verkefni upp sem félagslegu eignaríbúðakerfi, svipað því sem Verkamannabústaðirnir voru. Einkenni slíkra kerfa er að þau eru lokuð. Fólk sem kaupir sig inn í kerfið fær aðgengi að lægri vöxtum og hagræði þess að byggja upp margar íbúðir á sama tíma, en getur ekki selt íbúðirnar út á almennan markað. Eigiðfjárframlag þess ber verðtryggingu og hóflega vexti svo þegar fólk selur íbúðir sinna fær það sitt framlag með vöxtum til baka en getur ekki vænst á eignargróða vegna verðbólu á húsnæðismarkaði. Á sama tíma er það varið fyrir eignabruna vegna verðfalls á hinum óhefta húsnæðismarkaði.

Ef við reiknum með 2,5% verðtryggðum vöxtum á lánin (0,5% hærri vextir en í leigukerfinu hér að ofan til að mæta áföllum þar sem ekkert umsýslugjald er í eignaríbúðakerfinu) og 10% eiginfjárframlagi kaupenda þá yrðu mánaðarlegar afborganir af 60 fermetra um 49 þúsund krónur, en 39 þúsund krónur nettó eftir vaxtabætur hjá þeim með lægstu tekjurnar en óbreytt, 49 þúsund krónur, fyrir einstakling með 400 þúsund krónur á mánuði. Viðhald og rekstrarkostnaður húsnæðisins bætist svo við ef fólk vill bera þetta saman við leiguverðið. Og svo auðvitað 10% eiginfjárframlag, 1.650 þúsund krónur, í þessu tilfelli.

Ef við setjum upp dæmi fyrir einstætt foreldri þá myndi það með eina barnið í 80 fermetra íbúðinni borga 65 þúsund krónur í afborganir (45 þúsund krónur nettó eftir vaxtabætur hjá þeim með lægstu laun en 58 þúsund krónur nettó fyrir þau með 400 þúsund krónur á mánuði). Til að komast inn í kerfið þyrfti fólk að reiða fram 2,2 milljónir króna. Einstæða foreldri með tvö börn í 100 fermetra íbúð myndi reiða fram 2.750 þúsund krónur í útborgun en 82 þúsund krónur á mánuði í afborganir (51 þúsund krónur nettó eftir vaxtabætur hjá þeim með lægstu laun en 64 þúsund krónur nettó fyrir þau með 400 þúsund krónur á mánuði).

Par með tvö börn í 120 fermetra íbúð myndu borga 3,3 milljónir króna í útborgun en 98 þúsund krónur á mánuði í afborganir. Par á lágmarkslaunum fengi vaxtabætur og myndi borga 79 þúsund krónur í nettóafborganir en fólk með 800 þúsund krónur í fjölskyldutekjur fengi engar vaxtabætur að óbreyttu kerfi.

Grenfell-turninn í London er orðinn að táknmynd húsnæðisstefnu nýfrjálshyggjunnar; þegar húsnæðisekla hinna fátæku er talin vera auðlind fyrir hina auðugu til að hagnast á. Minni réttindi leigjenda, minna aðhald og eftirlit með fyrirtækjum hinna ríku leiðir til hörmunga. Auðvitað munu ekki allar blokkir leigufélaganna brenna upp, en Grenfell er eftir sem áður eins og lokaskref í hörmungarþróun undanfarinna ára.

Til hvers?

Já, til hvers ættum við að ráðast í svona átak? Tja, í fyrsta lagi af því við skuldum þessi kerfi; við létum það viðgangast að félagslegu íbúðakerfin okkar voru eyðilögð á tímabili nýfrjálshyggjunnar og við þurfum að endurbyggja þau svo lífskjör fólks á lífeyri og lægri launum verði sambærileg því sem þekkist í okkar heimshluta. Húsnæðiskreppan sem gaus upp eftir hrun nýfrjálshyggjunnar hefur dregið niður lífskjör tug þúsunda landsmanna en hefur kippt fótunum undan þeim sem standa verst. Fólk á lægstu launum og berum lífeyri stendur ekki undir sífelldri hækkun húsleigu, sem er drifin áfram af hagnaðarvon leigufyrirtækja í eigu hinna ríku og getuleysi óhefts markaðar til að mæta húsnæðisþörf hinna lægst launuðu.

Við þurfum því að gera stórátak í húsnæðismálum til að mæta neyðarástandi í húsnæðismálum hinna verst settu, færa kerfið nær því jafnvægi sem þó má finna í nágrannalöndunum og skapa meira öryggi í samfélaginu. Öflugt félagslegt leigu- og eignaríbúðakerfi dregur úr sveiflum á hinum óhefta markaði. Fólk með góðar meðaltekjur og hærri tekjur hefur því hag af öflugu félagslegu kerfi, það skapar meira jafnvægi utan um efnahags allra fjölskyldna.

Hvernig?

Hér var tekið dæmi af milljónaverkefni Svía frá því fyrir hálfri öld. Efnahagslegar forsendur þess eru til fyrirmyndar. Hins vegar þyrfti að endurskapa tæknilegar útfærslu. Fyrir fimmtíu árum var kjarnafjölskyldan fyrst og fremst hjón með tvö börn en nú eru kjarnafjölskyldur fjölbreytilegri og fólk velur sér margskonar búsetuform. Nýtt milljóna verkefni þyrfti því að gera ráð fyrir fjölbýli margra einstaklinga, sambýli stórfjölskyldu, ólíku fjölskyldumunstri og hentugu húsnæði fyrir þá sem vilja búa einir. Þetta verkefni ætti því ekki aðeins að eyða fjárhagslegu óöryggi fjölda fólks heldur færa fólki meira val um hvernig það vill búa.

Er eitthvað sem stendur í veginum? Nei, ekkert nema það huglæga vald sem nýfrjálshyggja hinna auðugu hefur haft á okkur og það blóðbragð sem þeir finna af húsnæðisvandræðum hinna fátæku. Fyrir tíu árum vorum við með ónýtt húsnæðiskerfi en í dag erum við með ónýtt húsnæðiskerfi sem hinir ríku stórgræða á. Við þurfum því að taka völdin af hinum ríku, sem sveigja öll kerfi að eigin þörfum, og byggja upp húsnæðiskerfi sem hentar meginþorra fólks. Kárahnjúkaverkefni eins og hér er lýst ætti aðeins að vera upphafið.

Gunnar Smári

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram