Nú ræðum við húsnæðismál og opinbera sjóði

Tilkynning Frétt

Málefnahópar sósíalista boða til opins samtals um húsnæðismál og málefni sameiginlegra sjóða um helgina. Samtölin fara fram í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, og hefjast klukkan tíu að morgni, laugardag og sunnudag.

Laugardaginn 2. september verður rætt um húsnæðismál. Hvers vegna er húsnæðisekla í dag? Hvernig aðgreining íslensk húsnæðisstefna sig frá húsnæðisstefnu nágrannalandanna? Hver er staða leigjenda í dag og hvernig mætti bæta hana? Hvaða áhrif hefur húsnæðismál á lífskjör einstakra hópa? Er eðlilegt að stórfyrirtæki geti hagnast á húsnæðisvanda fátæks fólks? Hvers vegna voru verkamannabústaðir slegnir af? Er hægt að byggja upp velferðarkerfi ofan á völtu húsnæðiskerfi? Hvaða vernd njóta húskaupendur gegn fjármálafyrirtækjum?

Þessum og mörgum fleiri spurningum verður varpað fram. Meðal þeirra sérfræðinga sem taka þátt í samtalinu og leggja til þess athuganir sínar eru Jón Rúnar Sveinsson, sérfræðingur um húsnæðismál, sem rekur sögu íslenska húsnæðiskerfisins, Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, sem fjallar um áhrif húsnæðismála á lífskjör einstakra hópa, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Vilhjámur Bjarnason frá Hagsmunasamtökum heimilanna, sem ræða um stöðu skuldara gagnvart fjármálastofnunum, Hólmsteinn A. Brekka frá Samtökum leigjenda, sem ræðir um stöðu leigenda og Laufey Ólafsdóttir frá félagi einstæðra foreldra, sem ræðir um reynslu sína af húsnæðismarkaði. Fundagestir munu deila reynslu sinni af húsnæðiskerfinu og hvernig það stendur sig í að útvega almenningi ódýrt og öruggt húsnæði.

Sjá Facebook-viðburð um Samtal um húsnæðismál: https://www.facebook.com/events/1608999059171946/

Á sunnudaginn 3. september verður samtal um sameiginlega sjóði. Á að jafna tekjur í gegnum skattkerfið? Er hægt að eyðileggja samfélagið með því að gera of vel við þá sem verst standa? Verndar íslenska lífeyrissjóðakerfi hagsmuni fólks með millitekjur og lágar tekjur? Ætti að skilgreina hluta af bankakerfinu sem opinbert veitukerfi?

Þessum spurningum verður varpað fram og mörgum fleiri. Meðal þeirra sem leggja til umræðunnar er Ólafur Margeirsson hagfræðingur sem ræðir um ríkissjóð og lífeyrissjóðakerfið, Ásgeir Brynjar Torfason lektor sem ræðir um almenna sjóði og flæði peninga um samfélagið, Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem ræðir um breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem ræðir um lífeyrissjóði og aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að þeim, Vilhelm Wessmann, lífeyrisþegi og ræðir vonbrigði aldraðra með lífeyrissjóðakerfið og skerðingar Almannatrygginga. Aðrir fundagestir munu deila reynslu sinni af opinberum sjóðum, ríkissjóði, sveitarsjóðum, lífeyrissjóðum o.s.frv.

Sjá Facebook-viðburð um Samtal um sameiginlega sjóði:
https://www.facebook.com/events/125727581401926/

Samtölin hefjast klukkan tíu um morguninn og standa fram yfir hádegið. Í hádeginu verður boðið upp á súpu og brauð gegn vægu gjaldi. Allir sósíalistar og annað áhugafólk um samfélagsmál eru hvatt til að mæta og leggja til umræðunnar. Þessi samtöl eru hluti af málefnavinnu Sósíalistaflokksins og liður í að byggja upp stefnu sem leiða mun til róttækra breytinga á samfélaginu. Um síðustu helgi var boðið til samtals um lýðræði og heilbrigðismál en nú er komið að húsnæðismálum og málefnum opinberra sjóða.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram