Sósíalistaflokkurinn – hvað ber að gera?

Ívar Jónsson Pistill

Þegar litið er yfir söguna hafa vinstrimenn séð hvernig vinstristjórnir svokallaðar hafa þráfaldlega unnið gegn hagsmunum launafólks. Vörumerkið „vinstristjórn“ hefur ekki lengur mikla tiltrú almennings. Það sama gildir um vinstriflokkanna, eins og umtalsverðar sveiflur í fylgi þeirra sýnir. Vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar 1979, með Alþýðubandalag og Alþýðuflokk innanborðs, innleiddi almenna heimild til verðtryggingar lána. Vinstristjórn Gunnars Thoroddsens 1983, með Alþýðubandalag og Framsóknarflokk innanborðs, afnam vísitölubindingu launa og tryggði þannig bönkunum og lífeyrissjóðum stöðugleika á kostnað launafólks. Misgengiskreppa launa og lána skók alþýðuheimilin í landinu og hefur gert síðan. Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sá ekki sóma sinn í því að afnema verðtryggingu lána en beitti sér fyrir máttlausum vaxtabótum í staðinn. Húsnæðiskreppan heldur áfram að vera stærsti efnahagsvandi heimilanna.

Þessi sama ríkisstjórn hundsaði frumvarp um atvinnulýðræði þrátt fyrir að Jóhanna og vinstriflokkarnir í stjórnarandstöðu höfðu svo áratugum skiptir „barist“ fyrir og lagt fram frumvörp um atvinnulýðræði. Vinstristjórn Samfylkingar og VG barðist fyrir því að Íslendingar sporðrendu Icesave-samningunum þrátt fyrir að hvorki var lagaleg né siðferðileg forsenda væri fyrir því. Þjóðaratkvæðagreiðslur þurfti til að koma í veg fyrir að vinstrimenn sendu skattgreiðendum Icesave-reikninginn. Vinstristjórnin velti kostnaði vegna stóraukinna atvinnuleysisbóta í bankakreppunni yfir á sjúklinga og heilbrigðisstéttir með því að skera niður í heilbrigðisgeiranum í stað þess að láta fjármagns- og stóreignafólk fjármagna útgjaldaukninguna. Þessi ólánsama „vinstristjórn“ hlýddi í þaula kröfum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um að skera niður ríkisútgjöld. AGS viðurkenndi eftir á að of langt hefði verið gengið í niðurskurði og það dró úr hagvexti. Í stað þess að biðja þjóðina afsökunar var formaður VG stoltur yfir því að vera fyrirmynd annarra leppa AGS á alþjóðavísu. Þetta eru bara örfá dæmi af þessum tveimur ólánsflokkum. Það er ekki nema von að traust almennings á þeim er hverfult.

Margir líta svo á að VG sé skömminni skárri en Samfylkingin og þar sé einhver von fyrir sósíalíska baráttu. Í röðum VG er að finna róttækt fólk sem á rætur í sósíalískum hreyfingum og femínisma. En menn þurfa ekki að starfa lengi innan VG til að átta sig á því að þessi hópur er einangraður minnihlutahópur í VG og valdalaus.

Framtíðarsýn – gegn útópíu kapítalismans

Burt séð frá því hvort fólk vill reyna að hafa áhrif innan SF eða VG, þá þurfa sósíalistar að vinna heimavinnuna. Tíminn vinnur með sósíalistum því skauthverfing samfélagsins, stéttskipting og valdasamþjöppun í hendur auðvaldsins eykst stöðugt. Fyrsta skrefið í baráttunni var stofnun Sósíalistaflokksins í maí sl. Málefnavinnan er þegar hafin. Meginmarkmið vinnunnar verður að vera að skilgreina samfélagsmarkmið sósíalískrar baráttu og hafa áhrif á almenningsálitið. Skapa þarf vel rökstudda framtíðarsýn sem almenningur, alþýðan, trúir á og treystir að muni verja þeirra hagsmuni. Framtíðarsýn skapar ramman fyrir stefnuskrár og aðgerðir í skammtímanum.

Til að skapa slíka framtíðarsýn þarf að greina langtímaþróun kapítalismans, samþjöppun auðs og valda. Jafnframt þarf að greina á skiljanlegan hátt hvers vegna útópían um kapitítalisma og „frjálst markaðskerfi“ gengur ekki upp. Þróun samþjöppunar auðs á fáar hendur og samþjöppun auðmagns grefur undan samkeppni og um leið útópíu kapitalismans. Slik samþjöppun grefur jafnframt undan hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Réttlætingin fyrir markaðskerfisinu hefur frá upphafi, raunar alt frá kenningum John Locke á 17. öld, byggst á þeirri röksemd að rétturinn til einkaeignar einskorðast við þá verðmætasköpun sem einstaklingurinn skapar í vinnu sinni. Í nútíma markaðskerfi er þetta ekki mögulegt vegna þess að auður safnast á fárra manna hendur án þess að baki liggi vinnuframlag, og einokun og fákeppni grefur undan jafnri tekjudreifingu. Í stuttu máli er ekki lengur hægt að rökstyðja að kapítalisminn tryggi réttlæti í samfélaginu. Það er afar mikilvægt að sósíalistar beitt fyrir sig réttlætisrökunum en ekki bara „vísindalegum sósíalisma“ eins og þeir gerðu áður fyrr.

Sérstaða íslensks kapítalisma

Það þarf líka að greina sérstöðu íslensks kapítalisma sem einkennist af óvenju litlum heimamarkaði og óvenju mikilli einokun og fákeppni. Þessar forsendur gera það að verkum að einkavæðingaræði nýfrjálshyggjuaflanna, innan vinstri og hægri flokkanna, er dæmt til að mistakast. Hvert skref í einkavæðingu er óhjákvæmilega skref í átt að óréttlátara samfélagi.

Það þarf líka að greina stéttarsamsetningu íslensks samfélags og mismunun hvað varðar stétt, kyn, kynþátt, o.s.frv. Sósíalistar fyrri tíma kenndu flokka sína gjarnan við alþýðuna og verkalýðsstéttina. Það var ekki aðeins vegna þess að verkalýðurinn, faglært og ófaglært verkafólk, fékk ekki réttlátan skerf í þjóðarframleiðslunni. Það var ekki síður vegna þess að verkalýðsstéttin hefur verkfallsréttinn og hreyfingu sem álitin vera tæki til að umbylta samfélaginu. Í þá daga var menntafólk fámennur hópur, kom f.o.f. úr yfirstétt og varði hagsmuni atvinnurekenda. Í dag er hópur ófaglærðra fámennur, en fjöldi menntafólks mikill. Staða menntafólks er í dag mun veikari en áður og það finnur ekki síður fyrir arðráni og valdaleysi í vinnu sinni en aðrir hópar. Verkalýðsstéttin samanstendur því í dag af ófaglærðu fólk og stórum hópi menntafólks. Skipulag launþegahreyfingarinnar og áratuga aðskilnaður hópa innan hennar veldur sundrungu. Sósíalistar þurfa að reka áróður um sameiginlega hagsmuni hópanna og starfa skipulega innan launþegahreyfingarinnar.

Sérstaða íslensks samfélags birtist m.a. í kreppu eldri borgara sem sjá stöðugt minni tilgang í frekari viðgangi lífeyrissjóðanna. Í húsnæðismálum blæða yngri kynslóðirnar fyrir það að lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin verja með kjafti og klóm háa ávöxtunarkröfu og verðtryggingu lána. Tryggingastofnun er látin styðja þessa kröfu lífeyrissjóðanna og verklýðshreyfingar með mikilli tekjutengingu ellilífeyris, en Ísland og Finnland eru einu Norðurlöndin sem tekjutengja ellilífeyri.

Þessi staða gerir það að verkum að munurinn á lífskjörum kynslóðanna eykst stöðugt. Þessi þróun er hluti af sí aukinni sundrungu samfélagsins. Ef þessi mál eru ekki leyst er líklegt að eldri borgarar stofni sinn eigin stjórnmálaflokk og yngri kynslóðir snúast gegn launþegahreyfingunni.

Sósíalísk hugmyndasmiðja

Punktarnir hér að ofan eru bara örfáir sem nefna má um framtíðarstarf sósíalista. Meðfram slíkri vinnu þarf að koma á laggirnar hugmyndasmiðju eða „think tank“ í anda Fabian Society sem tengt er Breska verkamannaflokknum. Hugmyndasmiðjan myndi hafa það hlutverk að greina þróun kapitalismans til lengri tíma og móta rökrétt viðbrögð sósíalista. Hún myndi ekki aðeins fást við að greina framtíðarhorfur og framtíðarsýn heldur einnig hver sérstaða íslensks samfélags og kapítalisma er. Með þessari vinnu myndu sósíalistar ná að móta almenningsálitið til lengri tíma en bara milli kosninga.

Ívar Jónsson

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram