Mánaðarlaunin hápólitískt mál

Katrín Baldursdóttir Pistill

Ekkert hagsmunamál er eins stórt fyrir almenning og mánaðarlaunin. Hvernig kökunni er skipt á vinnumarkaði er svo afgerandi fyrir afkomu launafólks að ekkert einstakt mál annað hefur viðlíka áhrif. Mánaðarlaunin eru því risastórt pólitískt mál og ætti að vera númer eitt í baráttunni fyrir mannsæmandi og góðu lífi fyrir alla og númer eitt í baráttunni gegn gegndarlausum ójöfnuði.

En því miður er það ekki svo. Flokkarnir sem eru nú að berjast um hylli kjósenda eru ekki með það á sinni stefnuskrá að berjast fyrir hærri launum hinna vinnandi stétta á lágmarkslaunum. Þeir flokkar sem gangast við því að hér sé ójöfnuður tala ekkert um að beita sér fyrir hækkun lágmarkslauna, heldur tala um að laga þurfi kjör aldraðra og öryrkja. Sumir vilja draga úr fátækt. Þetta er auðvitað jákvætt en það er ekki verið að tala fyrir neinum kerfisbreytingum við skiptingu kökunnar á vinnumarkaði. Það á að laga kjör þessara hópa í gegnum opinbera kerfið, tryggingastofnun, heilbrigðiskerfið og aðrar velferðarstofnanir.

Það er nefnilega svo að þeim flokkum sem nú eru að bjóða fram finnst eðlilegt að baráttan í þessu stórpólitíska mál sé háð annars staðar en á Alþingi. En hvernig má það vera að svona risavaxið hagsmunamál almennings sé ekki aðalmál Alþingis? Af hverju líða menn að alfarið sé búið að færa stærsta pólitíska málið frá Alþingi og inn í höfuðstöðvar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins? Og þar gerist lítið sem ekkert og enn þá eru lögbundnir kjarasamningar að bjóða upp á tölu eins og kr. 257.230 þúsund í mánaðarlaun fyrir hina vinnandi stétt. Það vita allir að það er ekki hægt að lifa á þessum launum en samt má borga þau og það löglega.

Ekkert að frétta

Í höfuðstöðvum ASÍ er ekkert að frétta og þar eru forystumenn svo samofnir sandölunum sínum á skrifstofunni að þeim dettur ekki í hug að gera neitt róttækt í málunum. Þeir eru líka svo uppteknir af því að passa að engin stuggi við lífeyrissjóðakerfinu. Og svo er unnið í svo miklu bróðerni við fulltrúa Samtaka Atvinnulífsins að það mætti halda að þetta séu ein og sömu samtökin.

Eru hagsmunir láglaunastétta sem þiggja laun eins og kr. 260.000 á mánuði þeir sömu og atvinnurekenda sem hafa margir margar milljónir á mánuði? Hverjum dettur það hug? Nei, launafólk í verkalýðsfélögunum á ekkert sameiginlegt með hagsmunum atvinnurekenda í Samtökum atvinnulífsins og þessa óeðlilega miklu samvinna milli ASÍ og SA ætti  að stöðva nú þegar.

Stéttabarátta var pólitísk á Íslandi

En þetta hefur ekki alltaf verið svona. Þegar Alþýðuflokkurinn(sem síðar gekk inn í Samfylkinguna) var stofnaður árið 1916 þá var litið á stétta- og launabaráttu sem stórpólitískt mál. Alþýðusamband Íslands var líka stofnað árið 1916 og var Alþýðuflokkurinn stjórnmálaafl verkalýðsfélaganna. Stéttabaráttan var pólitísk og til að ná sem mestum árangri þótti nauðsynlegt að Alþýðusambandið væri um leið stjórnmálaflokkur. Þannig voru ASÍ og Alþýðuflokkurinn árum saman undir einni stjórn og innan Alþýðusambandsins voru jafnt verkalýðsfélög sem og pólitísk jafnaðarmannafélög.

Árið 1940 var lögum ASÍ breytt og flokkurinn skilinn frá, til að mynda breiða samstöðu vinnandi manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Öll alþýðuflokksfélög gengu úr ASÍ sem varð eingöngu verkalýðssamband. Þetta kann að hafa verið rétt ákvörðun á þessum tíma en nú er öldin önnur.  Sívaxandi ójöfnuður, ömurleg græðgisvæðing, gegndarlaus spilling, mansal, þrældómur og fátækt sýnir svo ekki verður um villst að það verður að  stokka spilin upp á nýtt.

Þeir flokkar sem nú bjóða fram í þessum kosningum hafa hins vegar ekki upp á neitt að bjóða þegar kemur að þessu stærsta pólitíska hagsmunamáli almennings. Það er engin frumleg hugsun. Eina frumlega hugsunin og jafnframt sú fáránlegasta er að gefa landsmönnum banka sem þeir eiga nú þegar.

Katrín Baldursdóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram