Vofa Marx gengur ljósum logum í Bíó Paradís

Tilkynning Frétt

Sósíalistaflokkur Íslands og Bíó Paradís boða til sýningar á Karl Marx ungum (Le jeune Karl Marx) eftir haitíska leikstjórann Raoul Peck laugardaginn 3. febrúar klukkan tvö með tilheyrandi umræðu og umfjöllun um Karl Marx og erindi hans við okkur í dag. Fyrir sýningu mun Viðar Þorsteinsson heimspekingur minnast Marx og draga fram hvað er líkt með baráttu hans fyrir réttlæti fyrir hina fátæku og kúguðu og baráttu okkar í dag. Á eftir sýningunni munu þrjár baráttumanneskjur leggja útfrá myndinni og tengja við baráttu dagsins; Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Birgitta Jónsdóttir, skáld og fyrrum þingmaður Hreyfingarinnar og Pírata, og Sólveig Anna Jónsdóttir, frambjóðandi til formanns Eflingar. Þau þrjú munu kveikja umræðu gesta um Marx og erindi hans og hvað baráttufólk dagsins fyrir réttlæti hinna fátæku og kúguðu getur sótt til frumkvöðlanna.

Raoul Peck leikstýrði Le jeune Karl Marx ári eftir að hann sendi frá I Am Not Your Negro, mynd byggða á bréfum og frásögnum James Baldvins, skálds, aktívista og eldhuga. Áður hafði hann gert leikna mynd um Patrice Lumumba, frelsishetju Kongó sem myrtur var af undirlagi heimsvaldasinna á Vesturlöndum. Peck er fæddur á Haiti, alinn upp í Kongó og menntaður í New York, Frakklandi og Þýskalandi. Hann er því heimsborgari, lifir innan hugmyndaheims sem spannar þriðja heiminn og réttindabaráttu undirokaðra þar og á Vesturlöndum. Val hans á yngri árum Karl Marx sem umfjöllunarefni næstu myndar á eftir Lumumba og James Baldvin, frásögn af fæðingu verkalýðsbaráttunnar á upphafsárum iðnbyltingarinnar, er því engin tilviljun. Raoul Peck er endurreisnarmaður og tekur virkan þátt í stjórnmálum og samfélagsumræðu samhliða því sem hann leikstýrir kvikmyndum, var meira að segja um tíma menntamálaráðherra heima á Haiti. Það er því ekki aðeins að Karl Marx eigi erindi við okkur í dag heldur er myndin gerð af fólki sem telur að erindi Marx sé brýnt og logandi.

Facebook viðburður sýningarinnar er hér

 

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram