Byggjum húsnæði í anda verkamannabústaðakerfisins

Arnþór Sigurðsson Pistill

Sósíalistaflokkur Íslands leggur megináherslu á að byggt sé íbúðarhúsnæði fyrir efnaminna fólk. Fyrir ungt fólk og láglaunafólk sem ekki getur keypt húsnæði á okurverði á frjálsum markaði. Við viljum að allir hafi öruggt húsnæði og að það sé á þeim kjörum sem fólk ræður við. Við viljum stuðla að því að byggingarsamvinnufélög verði stofnuð sem og opinber leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónamiða.

Við viljum einnig tryggja leigjendum öruggt húsnæði og að þeir geti búið við öryggi með langtíma leigu. Það er okkar stefna að hámark verið sett á leiguverð með lögum.

Þróun á húsnæðismarkaði er í slæmum farvegi og líkist einna helst gullgrafaraæði. Allar kjarabætur þeirra efnaminni hverfa í okurleigu og gróða braskaranna sem ráða ríkjum á húsnæðismarkaðinum. Sósíalistaflokkurinn vill sporna við þessari þróun með markvissum aðgerðum og er eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að sveitarfélögin byggi húsnæði í anda gömlu verkamannabústaðanna, enda gafst það kerfi mjög vel.

Í Kópavogi hefur lóðum eingöngu verið úthlutað til verktaka sem selja húsnæði á okurverði. Nú er lofað íbúðum á næstu árum sem eru í byggingu en þær íbúðir verða á svo háu verði að þorri almennings hefur ekki ráð á að kaupa slíkar íbúðir hvað þá þeir efnaminnstu. Það verður að snúa þessari þróun við og það ætlum við í Sósíalistaflokknum að gera.

Í Kópavogi hefur dregið verulega úr félagslegri þjónustu á öllum sviðum á liðnu kjörtímabili. Það má glögglega sjá ef skoðað er hvernig staðið er að félagslegu leiguhúsnæði. 150 fjölskyldur eru á biðlista í Kópavogi eftir félagslegum leiguíbúðum og eru hreinlega á götunni. Margir þurfa að bíða í allt að þrjú ár eftir úthlutun á íbúð og sumir lengur. Það eru kaldar kveðjur sem bæjaryfirvöld senda því fólki sem stendur hvað verst að vígi í samfélaginu. Það er nauðsynlegt að geta þess að reglum bæjarins um það hver geti verið umsækjandi að félagslegu húsnæði var breytt. Breytingin varð þess valdandi að 100 fjölskyldur gátu ekki talist sem umsækjendur lengur. Áður er reglunum var breytt voru um því um 250 fjölskyldur á biðlistanum. Það voru því 100 fjölskyldur skornar burtu af biðlistanum. Það er því falinn vandi í Kópavogi en bæjaryfirvöld vilja ekki viðurkenna hann og reyna að breiða yfir vandann með vinnubrögðum af þessu tagi.

Kópavogsbær keypti tvær íbúðir inn í félagslega leigukerfið 2017 þrátt fyrir að biðlistinn sé langur. Það eru allar áherslur bæjaryfirvalda í þessum málaflokki. Meiri áhugi hefur verið á því að selja út úr kerfinu og hefur það verið gert en ekki keyptar íbúðir í staðin.

Framboð Sósíalistaflokksins mun einbeita sér að þessu máli og eyða þessum biðlista og setja þær reglur að enginn þurfi að bíða lengur eftir félagsleguhúsnæði en 3 mánuði.

Með því að kjósa Sósíalistaflokkinn verða breytingar í húsnæðismálum í Kópavogi.

Arnþór Sigurðsson
Oddviti sósíalista í Kópavogi

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram