Sósíalistar munu styðja mikilvæg mál
Frétt
05.06.2018
Sósíalistaflokkurinn mun styðja eftirfarandi mál í borgarstjórn, þau mál sem flokkurinn setti á oddinn í kosningabaráttunni, án tillits til þess hvaða flokkar koma sér saman um meirihlutasamstarf:
Að leigjendur og fólk á biðlista eftir félagslegum íbúðum verði skipað í stjórn Félagsbústaða, að uppkomin fósturheimilabörn verði skipuð í barnaverndarnefnd, að strætófarþegar verði skipaðir í stjórn Strætó bs og notendur þjónustu Reykjavíkurborgar verði með beinum hætti settir yfir mótun þjónustunnar og uppbyggingu borgarinnar. Gott samfélag verður aðeins byggt upp af kröfum og væntingum fólksins sem upplifir óréttlæti og ágalla núverandi kerfa.
Að Reykjavíkurborg stofni sjálf byggingafélag og byggi ódýrt og öruggt húsnæði fyrir fólk þar til byrðum húsnæðiskreppunnar verður aflétt af þeim sem síst geta borið hana; láglaunafólki, fátæku eftirlaunafólki, öryrkjum, ungu fólki, innflytjendum og öðru valdalausu fólki.
Að lágmarkslaun hjá stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði strax hækkuð í 400 þúsund krónur á mánuði og að stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði bannað að kaupa vöru og þjónustu af fyrirtækjum sem greiða sínu lægst launaða fólki lægri laun.
Að öll útvistun hjá Reykjavíkurborg og stofnunum hennar og fyrirtækjum sem hún á hlut í verði hætt. Allt starfsfólk skal ráðið til starfa af þeim stofnunum og fyrirtækjum þar sem það sinnir vinnu sinni og með öllum réttindum og kjörum sem fylgir fastráðningu.
Að unnið skuli kerfisbundið gegn stéttaskiptingu í grunnskólum, allar greiðslur nemenda fyrir námsgögn, mat eða tómstundir aflagðar og þjónusta skólanna miðuð við þau börn sem minnst stuðnings njóta heima.
Að almannasamgöngur í borginni verði byggðar upp af kröfum þeirra sem ferðast með strætó og að skipað verði fjölmennt ráð strætófarþega til að móta framtíðarstefnu fyrir strætó og almannasamgöngur í borginni og nágrannabyggðum.
Að öllu samkurli við lóðabraskara, verktaka og einkarekin leigufélög varðandi skipulagsmál verði hætt og að það verði stefna borgarinnar að hrekja gróðafyrirtæki frá braski með íbúðarhúsnæði.
Fyrir hönd borgarstjórnarflokks sósíalista
Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi
Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi