Of fáir og smáir brauðmolar til hinna verr settu

Frétt Frétt

„Meirihlutasáttmálinn er fráleit niðurstaða þess sem flokkarnir sögðu og héldu fram í kosningabaráttunni, sem á endanum snerist að miklu leyti um húsnæðiskreppuna, láglaunastefnuna og önnur hagsmunamál hinna verra settu,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista um meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vg. „Þessi sáttmáli boðar engar aðgerðir sem máli skipta til að bæta lífskjör láglaunafólks og annarra fátækra. Þeir brauðmolar sem þau fá eru bæði fáir og smáir.“

Sanna og Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi benda á að innan um yfirlýsingar um að stefnt skuli að hinu og þessu, sé aðeins þrennt sem hönd á festir og tengja má harðri umræðu í kosningabaráttunni um lífskjör hinna verr settu.

Í fyrsta lagi sé ráðgert að fjölga félagslegum íbúðum um 500 á kjörtímabilinu. „Þetta er í raun yfirlýsing um áframhaldandi húsnæðiskreppu í Hinni Reykjavík, þeim hluta samfélagsins þar sem láglaunafólkið býr, fátækt eftirlaunafólk og öryrkjar, innflytjendur, leigjendur og ungt fólk á jaðri vinnu- og húsnæðismarkaðar,“ segir Daníel. „Í dag eru um 960 fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík og vitað er að á bak við listann er þúsundir, sem þurfa á félagslegri íbúð að halda en sjá engan tilgang í að skrá sig á biðlista, sem borgaryfirvöld ætla sér ekki að tæma.“

„Meirihlutinn ætlar sér að reka nánast óbreytta húsnæðisstefnu og það er húsnæðisstefna sem miðar að því að hin verr stæðu beri allan kostnað af kreppunni,“ segir Sanna. „Hin verr stæðu í Reykjavík hafa tekið á sig gríðarlegar hækkanir húsaleigu vegna húsnæðiskreppunnar og þær hækkanir hafa étið upp ráðstöfunarfé þeirra fjölskyldna sem síst mátti við auknum byrðum. Þetta er miskunnarlaus stefna gagnvart fátæku fólki, að varpa öllum kostnaði af vandanum yfir á þau sem síst geta staðið undir því.“

Næsta benda þau á samgöngumálin. Meirihlutinn vill fjölga ferðum strætó á háannatíma og fella niður fargjöld barna 12 ára og yngri sem ferðast í fylgd með fullorðnum, en í dag er ókeypis í strætó fyrir sex ára og yngri. „Hvernig eiga fátækar fjölskyldur að nýta sér þetta?“ spyr Daníel. „Á einstæða móðirin í láglaunastarfinu að taka sér frí til að geta ferðast með barninu sínu eftir skóla í tómstundir eða í pössun til afa og ömmu? Og til hvers? Svo strætó fái fullt fargjald frá henni frekar en hált frá barninu?“

„Við skiljum þessa tilllögu ekki,“ segir Sanna. „Óttast meirihlutinn að börnin ofnoti þjónustuna ef þau fá að ferðast ókeypis með strætó? Það er einhver hugsun á bak við þessa tillögu sem við skiljum ekki. Það er komið til móts við kröfur fólks en með þeim hætti að það gagnast því ekki.“

Þriðja atriðið snýr að minni gjaldtöku í skólum, en sósíalistar bentu í kosningabaráttunni á vaxandi stéttaskiptingu í skólakerfinu. Í meirihlutasáttmálanum er tvennt lagt til, annars vegar að hver fjölskylda greiði ekki námsgjald með fleirum en einu barni og hins vegar að hver fjölskylda greiði ekki fæðisgjald með fleirum en tveimur börnum eftir 2021.

„Skólinn á að vera gjaldfrjáls,“ segir Sanna. „Gjaldfrjáls skóli er ein af stoðum velferðarkerfisins og forsenda góðs samfélags. Þótt þessar tillögur lækki gjaldtökuna hjá barnmörgum fjölskyldum þá eru þetta aðeins hænuskref sem gagnast fáum. Við Daníel erum bæði uppkomin fátæk börn. Þessar tillögur hefðu engu breytt fyrir okkur eða fátækar mæður okkar. Í dag er hellingur af börnum sem búa við sömu aðstæður og við bjuggum við. Það er ekkert í þessum sáttmála sem mun gagnast þeim börnum. Og það er sorglegt.“

Þau Sanna og Daníel benda á að þau hafi gert meirihlutaflokkunum tilboð um stuðning við sjö mál, sem sósíalistar lögðu áherslu á í kosningabaráttunni. Þetta voru skýrar tillögur til að sporna við húsnæðiskreppunni, láglaunastefnunni, valdaleysi hinna verr settu, vaxandi stéttaskiptingu og versnandi lífskjörum.

„Ekkert í þessum sáttmála nær að snerta það sem við lögðum til,“ segir Daníel. „Sáttmálinn afhjúpar að meirihlutaflokkarnir lifa í annarri Reykjavík en við sósíalistar. Ef fólk ber saman okkar tillögur og meirihlutasáttmálann þá sést hversu mikill sannleikur lá í kosningabaráttu sósíalista, sem að hluta var háð undir yfirskriftinni Hin Reykjavík. Stór hluti borgarbúa býr við raunveruleika sem stjórnmálin í Ráðhúsinu ná ekki að snerta, vilja ekki sjá og ætla sér ekki að bregðast við.“

Sanna grípur þetta á lofti. „Meirihlutasamningurinn dregur upp hvert verður hlutverk okkar sósíalista á kjörtímabilinu,“ segir hún. „Við þurfum að verða borgarfulltrúar þess fólks sem meirihlutasamningurinn horfir fram hjá og nær ekki að snerta; fólksins sem Ráðhúsið vill hvorki sjá né heyra.“

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram