Skattalækkun nýfrjálshyggjunar fjármögnuð með sölu almenningsgæða

Sanna Magdalena Mörtudóttir Pistill

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2018 er til umræðu í dag en hann samanstendur af samstæðu uppgjöri A- og B-hluta og uppgjöri A-hluta sem samanstendur  af aðalsjóði og eignasjóði og rekstur A-hluta er að miklu leyti fjármagnaður af skatttekjum, þar sem útsvar er stærsti hluti rekstrartekna. Það sem blasir við mér við lestur ársreikningsins er stóra myndin og stóra samhengið. Í því samfélagi sem við búum í hafa hinir ríku fengið gífurlega mikla skattafslætti sem skila sér í skorti á tekjum til hins opinbera. Þessi ofurtrú á að markaðurinn sé best til þess fallinn að leysa samfélagsleg verkefni okkar hefur ekki virkað og brauðmolarnir hafa ekki trítlað niður til hinna verst settu. Afleiðingar þess birtast okkur víða og ekki síður í niðurstöðu þessa ársreiknings. Okkur vantar tekjur inn í borgarsjóð, það vantar útsvarið frá fjármagnseigendum og aðstöðugjöld frá fyrirtækjum eins og ég hef nefnt hér oft áður og bendi hér aftur á, að áætlað er að borgarsjóður hefði geta fengið um 9, 5 milljarða á síðasta ári væri útsvar lagt á fjármagnstekjur. Borgarstjórn er málstofa okkar og þreytist ég ekki við að benda á að Reykjavíkurborg eiga leita til hinna sveitarfélaga með það að markmiði að þrýsta á Alþingi til að leggja útsvar á fjármagnstekjur.

Við sjáum að aðalsjóður er rekinn með tapi upp á rúman milljarð og að jákvæð rekstrarniðurstaða A-hluta upp á rúma 4,7 milljarða byggir að miklu leyti á sölu byggingarréttar og söluhagnaði eigna en það er tekjugrunnur sem ekki er hægt að treysta á til lengdar. Þar að auki fer sala byggingarréttar gegn hugmyndum okkar sósíalista um gjaldtöku á eignum almennings, sem ég kem að síðar. Hér er ég ekki að gagnrýna jákvæðan rekstrarafgang, heldur það að við getum ekki treyst á sölu byggingarréttar  sem uppsprettu tekjulindar og spyr hver framtíðarsýnin er til að tryggja jákvæða rekstrarafkomu borgarsjóðs til lengdar?

Nettóútsvarstekjur eru 64% af rekstrartekjum aðalsjóðs og eins og við sósíalistar höfum margoft bent á að þá verðum við sem höfum hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi að leggja áherslu á að styrkja tekjugrunn borgarsjóðs. Ein leiðin að því er að berjast fyrir því að fjármagnseigendur sem búa hér í borginni greiði líka útsvar af tekjum sínum líkt og launþegar gera og að fyrirtæki greiði fyrir að nota innviðina okkar. Ef við lítum bara til stærstu fyrirtækjanna sem voru með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík á árinu 2017 og veltu þeirra, þá er áætlað að borgin hefði geta fengið um 9,7 milljarða ef aðstöðugjald hefðu verið innheimt af 1,3% veltu tíu stærstu fyrirtækjanna sem voru með höfuðstöðvar í Reykjavík árið 2017.

Það gengur ekki að hér eða í öðrum sveitarfélögum sé hópur hinna best settu undanskilinn því að greiða til samfélagsins. Við verðum að styrkja sameiginlegan sjóð okkar svo að við getum veitt sem bestu þjónustu. Þegar okkur skortir fjármagn inn í borgarsjóð leiðir það til skuldasöfnunar, eitthvað sem við viljum eftir fremsta megni komast fram hjá, við viljum greiða niður skuldir og það gætum við gert hraðar með auknu framlagi hinna allra auðugustu. Þegar helsti sjóður okkar stendur ekki undir sér, hlýtur það að leiða til verri þjónustu og niðurbrots félagslegra kerfa, líkt og láglaunastefnu sem heldur mörgum í fátækt og afleitri húsnæðisstefnu, þar sem hinir efnamestu geta tryggt sér öruggt húsaskjól en hinir efnaminnstu eru skyldir eftir.

Sala byggingarréttar og söluhagnaður eigna upp á 3,5 milljarða mynda að stærstum hluta jákvæðan rekstrarafgang A-hluta en sú var tíðin að lóðaúthlutun byggði einungis á greiðslu gatnagerðargjalds þar sem það var ekki innheimt sérstakt gjald fyrir byggingarrétt. Við sósíalistar viljum að sjálfsögðu hverfa aftur til þess tíma þar sem lóðum var úthlutað til áhugasamra gegn greiðslu gatnagerðargjalds en ekki að útboð lóða fari fram þar sem hæstbjóðandi getur tryggt sér lóðina með því að greiða fyrir byggingarréttinn. Í mínum huga endurspeglar jákvæð rekstrarafkoma A-hluta það að til að bæta upp fyrir tekjutap sem hefði átt að koma með framlagi hinna allra auðugustu, hefur borgin brugðið á það ráð að selja almenningsgæði, með því að bjóða lóðirnar út og innheimta gjald fyrir byggingarréttinn. Þessi gjaldtaka var ekki til staðar í borginni hér áður fyrr og spyr mig á hvaða leið við séum með þessu áframhaldi? Áður fyrr greiddu áhugasamir gatnagerðargjald og fengu úthlutaða lóð og gátu byggt yfir sig og fjölskyldu sína og ef margir voru áhugasamir var dregið úr nafni umsækjendanna. Við sósíalistar viljum fara aftur inn á þá braut og tryggja að lóðum sé úthlutað til einstaklinga og fjölskyldna gegn gatnagerðargjaldi en ekki að byggingarréttargjald íbúðalóða sé boðinn upp. Þá þarf að tryggja að samvinnufélög og óhagnaðardrifinn félög þurfi ekki að greiða íþyngjandi gjald byggingarréttar.

Lóðaúthlutanir íbúðalóða eiga ekki að skilgreinast sem takmörkuð gæði sem ganga kaupum og sölu á markaði, heldur erum við þarna að tala um forsendu fyrir því að fólk geti skapað sér heimili og öruggt húsaskjól. Forsendur fyrir öruggu húsaskjóli fólks eiga ekki heima í útboðsferli þar sem hæstbjóðandi tryggir sér lóði. Tel ég sem sósíalisti hér í borgarstjórn mikilvægt að vinda ofan af þessari sölu almenningsgæða og stefna í átt að aukinni félagsvæðingu, þar sem fjárhagur ræður ekki lóðaúthlutun. Því spyr ég mig við lestur ársreiknings hver framtíðarsýnin er til að styrkja tekjustofna Reykjavíkurborgar og tryggja að grunnþörfum allra borgarbúa sé mætt? Eins og staðan er nú er ekki hægt að sjá að húsnæðisþörf allra í neyð hafi verið mætt né að öryggi borgarbúa vegna efnahagslegs réttlætis hafi verið mætt. Borgin þarf að sækja framlagið til hinna ríkustu og byggja þannig upp gott samfélag fyrir alla.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram