Niðurstaða málefnahóps í vinnumarkaðsmálum

Ritstjórn Frétt

Stefna Sósíalistaflokks Íslands í vinnumarkaðsmálum er:

  • Að gætt sé að manngildi, reisn og öryggi á vinnumarkaði með mannsæmandi kjörum og vinnuaðstæðum.
  • Að grunntaxti lágmarkslauna og skattleysismörk séu aldrei undir opinberu framfærsluviðmiði.
  • Að ríki og sveitarfélög séu ekki leiðandi í láglaunastefnu.
  • Að dregið verði úr mun hæstu og lægstu launa.
  • Að útvistun starfa á vegum hins opinbera verði hætt.
  • Að jafnréttis sé gætt á vinnumarkaði og að ólíkir hópar njóti sömu kjara fyrir sömu vinnu.
  • Að sérstaklega sé gætt að því að erlent starfsfólk njóti sömu kjara og réttinda og íslenskt starfsfólk og hafi gott að aðgengi að upplýsingum um vinnulöggjöf og kjarasaminga.
  • Að skýr aðgerðaáætlun fari í gang þegar mansal uppgötvast og að fylgst sé sérstaklega vel með því að starfsmannaleigur fylgi lögum og reglum ellegar sæti viðurlögum.
  • Að komið verði í veg fyrir óeðlilega tengingu milli vinnuveitanda og leigusala.
  • Að komið sé í veg fyrir kennitöluflakk og launaþjófnað með öflugri lagasetningu og viðurlögum.
  • Að atvinnuþátttaka skerði ekki framfærslu lífeyrisþega eða annarra sem reiða sig á tekjur frá hinu opinbera.
  • Að tekið sé undir kröfur ÖBÍ um að starfsgetumati sé hafnað og krónu-á-móti-krónu-skerðing lífeyrisþega verði hætt.
  • Að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði.
  • Að stuðlað sé að auknu lýðræði á vinnustöðum.
  • Að stuðlað sé að stofnun samvinnufélaga í formi lýðræðislegra fyrirtækja í eigu starfsfólks.
  • Að efla manneskjuvænna samfélag með 32 stunda vinnuviku.
  • Að standa vörð um lýðræði í stéttarfélögum.

Ítarefni:

Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur hinnar vinnandi alþýðu og styður við hagsmuni hennar. Fólk skal njóta virðingar, mannsæmandi kjara, góðra vinnuaðstæðna og öryggis á vinnustað. Styrkur launafólks felst í einingu þess í gegnum sterk verkalýðs- og stéttarfélög.

Aðilar vinnumarkaðarins, opinberir eða almennir skulu ætíð hafa viðurkennda opinbera framfærslu að viðmiði í lægstu grunntöxtum. Skattleysismörk skulu hækkuð svo lægstu laun séu sldrei skattlögð. Lág laun skaða samfélagið þar sem þau leggja gífurlegt álag á láglaunafólk, oft með þeim afleiðingum að það dettur út af vinnumarkaði fyrir aldur fram.  Hækka skal því lægstu laun og jafnframt stefnt að því að hæstu laun hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki nema í mesta lagi þreföld á við þau. Þá verði dregið úr hvata til að borga ofurlaun með skattkerfi og lagasetningu.

Koma skal í veg fyrir að ríki og sveitafélög útvisti tilteknum starfssviðum (t.d. þrifum og mötuneyti) innan vinnustaða sinna og ráði þess í stað starfsfólk til langtíma, sem sinni þessum störfum á sömu kjörum og með sömu réttindi og aðrir opinberir starfsmenn.

Þá skal gætt að jafnrétti á vinnustöðum og tryggt að ekki sé brotið á rétti fólks út frá kyni, uppruna, trú, fötlun eða aldri.

Mótuð skal stefna um hvernig sé tekið á móti erlendu starfsfólki svo það þekki réttindi sín og skyldur og að innviðir samfélagsins geti tekið á móti því, t.d. Þegar kemur að húsnæði, velferðarþjónustu, eftirliti með vinnustöðum og íslenskukennslu. Þá sé haft eftirlit með því að erlent starfsfólk sem ekki þekkir til íslensks vinnumarkaðar sé ekki sjálfkrafa sett á  lægsta taxta og menntun þess og reynsla ekki metin til launa.  Einnig skal setja skýrar reglur um sjálfboðavinnu svo hún gangi ekki gegn kjarabaráttu launafólks.

Verkalýðshreyfingin í samvinnu við yfirvöld  og atvinnurekendur skulu sjá til þess að öll upplýsingagjöf um kjarasamninga sé aðgengileg á ýmsum tungumálum og fólk hvort sem er íslenskt eða erlent, ungmenni eða fatlað starfsfólk sé betur varið fyrir því að verða hlunnfarið af vinnuveitendum.  Þá skal fólk hafa eignarrétt á vinnuframlagi sínu og lög sem hefta almennan verkfallsrétt afnumin.

Lífeyrisþegar og aðrir þeir, sem vilja og geta unnið hlutastörf eiga ekki að horfa fram á lakari kjör fyrir vinnuframlag sitt, hvorki í formi launa né krónu-á-móti-krónu-skerðingum svo koma megi í veg fyrir að fólk lendi í fátækrargildru. Þá skal unnið að útrýmingu fötlunarfórdóma á vinnustöðum og aðgengismál tekin fastari tökum.

Auka verður aðkomu starfsfólks að ákvörðunartöku fyrirtækja og gefa því aukna hlutdeild í arði þeirra. Leitast skal við að starfsfólk eigi fulltrúa í stjórn vinnustaða sinna og stefnt að stofnun samvinnufélaga í formi lýðræðislegra fyrirtækja í eigu starfsfólks. Við eignarskipti eða gjaldþrot fyrirtækja, hafi starfsfólk ávallt forkaupsrétt á því.

Stofnun lýðræðislegra fyrirtækja verði auðvelduð m.a. Með skattaívilnunum og hagstæðum rekstrarlánum. Hlutafélögum verði jafnframt gefinn kostur á að breyta sér í samvinnufélög og fá þá aðgang að sömu ívilnunum og lánum. Við stofnun samvinnufélaga þurfi aðeins tvo stofnfélaga..

Standa skal vörð um lýðræði í stéttafélögum m.a. með ákvæðum um hámarkstíma stjórnar- og nefndasetu og með því að efla virkni félaga.

Stjórnir lífeyrissjóða skuli ávallt vera skipaðar sjóðsfélögum, sem í þá greiða eða hafa greitt í þá og unnið sér réttindi og engum öðrum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram