Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um að velferðarsvið skapi rými og farveg

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um að velferðarsvið skapi rými og farveg til að auðvelda þeim sem nota þjónustu sviðsins að koma upplifun sinni á framfæri var til umræðu á velferðarráðsfundi áðan. Samþykkt var að vísa tillögunni inn í stýrihóp um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk, til nánari skoðunar. Reykjavíkurborg er með 17 félagsmiðstöðvar víða um borgina sem eru opnar borgarbúum á öllum aldri og gætu þær hentað vel í þessa starfsemi.

Tillagan er svohljóðandi:
Lagt er til að velferðarsvið geri stofnun hagsmunasamtaka þeirra sem nýta sér þjónustu sviðsins auðveldari með því að bjóða upp á stað þar sem hinir ólíku hópar geti fundað kjósi þeir það. Velferðarsvið veitir þjónustu og stuðning til fjölmarga einstaklinga á ólíkum sviðum og mikilvægt er að heyra raddir þeirra einstaklinga til að sjá og heyra hvernig megi bæta þjónustuna. Þjónusta velferðarsviðs snýr að málefnum eldri borgara, fatlaðs fólks, heimilislausra einstaklinga og málefnum barna og unglinga. Þá sinnir velferðarsvið einnig fjölskyldu- og félagsmálum, undir þau mál fellur t.a.m. fjárhagsaðstoð og sérstakur húsnæðisstuðningur. Velferðarsvið sinnir einnig heimaþjónustu, kemur að verkefnum félagslegs leiguhúsnæðis og sér um rekstur þjónustumiðstöðva.

Hagsmunasamtök eru til í ýmsum málum er tengjast þjónustu velferðarsviðs en ekki öllum. Oft getur skortur á fundarstað verið hindrun í því að koma upp aðstöðu til að hittast og ræða við þá sem eru í svipuðum aðstæðum og maður sjálfur. Fundarstaður kostar oft pening sem ekki allir eiga og því er lagt til að velferðarsvið útvegi slíkt og geri upplýsingar um fundarstað aðgengilegar. Óski hagsmunasamtök eftir því að koma upplýsingum á framfæri um hvernig megi bæta þjónustuna verði skapaður vettvangur fyrir slíka sérfræðiþekkingu í samvinnu við hagsmunasamtökin, velferðarsvið og velferðarráð.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram