Ef það er stríð, þá þurfum við stríðshagkerfi!

Gunnar Smári Egilsson Pistill

Í þessari grein benda tveir virtir hagfræðingar (annar með Nóbel undir belti) á að ríkisstjórn Trump misskilur komandi kreppu (eins og ég hef haldið fram, er sama skekkjan undir þeim efnahagsaðgerðum sem að mestu eru byggðar á hugmyndum og tillögum Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra). Það er ekki hægt að mæta þessari kreppu með því að ætla að örva hagkerfið með því að auka laust fé í fjármálakerfinu í von um að það örvi eftirspurn. Það er verið að loka hagkerfum fjölda landa, hjá okkur er ferðaþjónustan farin, stór hluti verslunar og veitingastaða og fjöldi einakfyrirtækja og stór hluti hins opinbera er lokaður eða við það að loka. Það jaðrar við geggjun að láta sér detta í hug að svarið við þessu sé að bjóða fyrirtækjum að taka lán! Enn síður að afnema bankaskatt eða annað sem poppaði upp af óskalista Viðskiptaráðs, ráðagerðir um að lækka tryggingargjaldið o.s.frv.

Ríkisvaldið verður að stíga fram og einbeita sér að því sem almenningur þarf sannarlega á að halda við þessar aðstæður. Ef örva á eftirspurn er það best gert með því að hækka tekjur þeirra sem eiga ekki fyrir mat. Hin sem eiga fyrir mat hafa í raun ekkert annað að kaupa, það er ekkert annað í boði, búið að loka. Meginmarkmiðið er að tryggja öllum nóg til að lifa af, sumir fá laun fyrir vinnu en aðrir þurfa að fá borgaralaun. Og þau sem ekki geta farið út í búð að kaupa mat, fólk sem er í sóttkví eða með undirliggjandi sjúkdóma og ætti ekki að fara út, þarf að fá matinn sendan til sín. Það er starfsemi sem ríkið ætti að byggja upp og borga fyrir. Fólk þarf að vera öruggt á heimilum sínum, ríkið þarf að frysta allar afborganir og leigugreiðslur, lýsa því yfir að engin fjölskylda verði borin út af heimili sínu á þessu ári eða næsta. Koma á þeim sem búa þröngt eða í ósamþykktu húsnæði í betra húsnæði, t.d. með því að ríkið leigi hótel og túristaíbúðir sem nú standa auðar. Það er betri stuðningur við þessi hótel en að bjóða þeim lán og aðstoð við að halda úti ímynduðum rekstri, þegar allt ferðafólk er farið, kyrrsett inn á heimilum sínum í sínu heimalandi. Bjóða á fjölskyldum hótelíbúðir þegar hluti fjölskyldumeðlima er settur í sóttkví (þetta á t.d. við um fjölskyldu forsætisráðherra, sem hafði fjárhagslega getu til að búa á tveimur stöðum, en það á alls ekki við um allar fjölskyldur). Ríkið á að kaupa matarbirgðir til að tryggja að hér verði ekki matarskortur þetta ár eða það næsta. Byggja þarf upp kerfi, geymslur og annað til að halda utan um þetta. Ríkið á að byggja upp legudeildir, göngudeildir og annað sem þarf til að ráða við fleiri sjúklinga en núverandi versta spá sóttvarnarlæknis gerir ráð fyrir. Það er betra að gera of mikið en of lítið. Ríkið á að semja við hjúkrunarfræðinga og aðrar stéttir sem eru framlínunni. Ríkið á að kaupa skemmtanir og fræðslu af listafólki, fræðafólki og skemmtikröftum til að hafa ofan af fyrir fólki í sóttkví, eldra fólki og þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og sem eru nú hvött til að halda sig heima. Ríkið á að ráða fólk til að hreinsa opinber svæði, líka verslanir og annað í einkaeigu, til að draga úr smithættu. Ríkið á að kanna getu íslenskra fyrirtækja til að framleiða grímur, hlífðarföt, skimunarpinna, öndunarvélar eða hvað eina sem skortur gæti orðið á.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í einhverjum af þessum ráðherraviðtölum að við værum í stríði. Stríðshagkerfi er eins og ég lýsti hér að ofan. Það er þegar ríkið stígur inn og aðlagar alla framleiðslu og starfsemi fyrirtækja að þörfum heildarinnar. Við erum þar. Það fer enginn í stríð með herópinu: Látum bankana fá fleiri krónur en þeir geta étið! eins og Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri hrópaði að undirlagi Bjarna Benediktssonar. Þessir tveir nýfrjálshyggjupáfar munu aðeins dreifa peningum þar sem þeirra er síst þörf en sinna ekki því sem þeir bera raunverulega ábyrgð á, að koma fólki ósködduðu í gegnum næstu mánuði. Og ástæðan? Hún er sú að þeir eru tvö eintök tegundar manna sem er að deyja út, nýfrjálshyggjumanna, sem halda að með því að örva fjármálakerfið þá lifni fyrirtækin við og þá gerist það bæði af sjálfu sér að almenningur mun hafa það fínt og að allur vandi leysist, að markaðurinn fylli sjálfkrafa upp í allar þarfir, líka þörf fyrir bráðamóttökur. Það er óendanlega sorglegt að stærstu ákvarðanir ríkisvaldsins á seinni árum skuli vera teknar út frá svona heimskulegum forsendum.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram