Guðmundur: Skuldahalinn er ári seigur og lætur sig ekki

Hin Reykjavík

44. Guðmundur Erlendsson
Hin Reykjavík

„Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, bara héðan af Hallveigarstígnum og þar var nú gaman að alast upp. Svo hófst skólagangan og mér var gert að mæta í viðtal í mínum skóla, Miðbæjarskólanum. Ég var spurður hvað ég þekkti marga stafi og sagðist þekkja tvo; minn staf og staf frænda míns. Því lenti ég í D-bekk og sat þar sem fastast þar til ég útskrifaðist.

Úr Miðbæjarskólanum lá leið mín í Lindargötuskóla og þar var kennari sem fann út hvað að mér amaði. Þá hét sá ami svo sem ekki neitt, nú heitir það lesblinda eða lesröskun. Þegar ég var 17 ára sagði mamma við mig: „Óttalegt vesen er á þér, þú verður að læra eitthvað. Ég sendi þig til hans Einars Olgeirssonar aðstoðarhótelstjóra á Sögu.“

Þar lærði ég til þjóns en var ansi áræðinn ungur maður og þjónsstarfið ekki beinlínis eins og sniðið fyrir mig. Því ákvað ég að skella mér í kokkinn. Næstu árin starfaði ég ýmist sem þjónn eða kokkur, skellti mér á sjó og var meðal annars á Fossunum. Síðan reyndi ég fyrir á veitingastöðum og meira að segja hjá Kananum á Vellinum. Næst hélt ég vestur í Dali og ég rak félagsheimilið Dalabúð um hríð en gerðist síðan kokkur hjá SÁÁ áður en ég sneri mér að matseld á hjúkrunarheimili fyrir geðfatlaða.

Þar hitti ég núverandi konu mína, við fluttum suður og eignuðumst tvö börn en ég átti önnur börn fyrir. Við ákváðum að leggja land undir fót og settumst að á Selfossi þar sem ég rak matarvagninn Grænt og grillað. Ég sá líka um skólamötuneyti fyrir krakka á Stokkseyri og Eyrarbakka en svo slasaðist ég á fæti.

Við áttum íbúð í Reykjavík og vegna fótarmeinsins tók ég mér frí og þurfti að lokum að fara í uppskurð. Svo hrundi allt og við misstum íbúðina í höfuðborginni og ég gæti vel farið nánar út í mitt prívat og persónulega efnahagshrun en læt það vera. Úr varð að flytja til Noregs en skuldahalinn er ári seigur og lætur sig ekki hvað sem reynt er.

Við fluttum því hingað heim aftur og nú er ég yfirmatreiðslumaður á Droplaugarstöðum. Við lifum því sem heitir á íslensku ágætislífi en húsaleiga upp á hundruð þúsunda og ólseigur skuldahalinn leyfa ekki beinlínis það sem kallað er mannsæmandi líf.

Amma mín var Sjálfstæðismaður af gamla skólanum í húð og hár svo forðum var ég ekkert mikið að básúna skoðanir mínar heima. En ég er sósíalisti af því að mínu mati virkar hreinlega ekkert af hinu. Blákalt og fyrir allra augum sankar sjálftökuliðið að sér öllum landsins auði en við hin sitjum eftir í okkar eigin efnahagshruni og samfélagsins. Þetta gengur ekki og getur ekki gengið, við þurfum nýtt og hugsandi fólk. Sjálftakan verður að víkja fyrir mannsæmandi lífi okkar allra. Þessu verður að breyta.“

Guðmundur Erlendsson er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram