Ída: Fyrst er litið á kennitöluna og ef maður er um fimmtugt eða eldri er umsókninni bara ýtt til hliðar

Hinn Kópavogur

18. Ída Valsdóttir
Hinn Kópavogur

„Ég er alin upp í félagslegu húsnæði í Reykjavík og kem úr stórri fjölskyldu, faðir minn var sjómaður og móðir mín var lengi starfsmaður á Hrafnistu og síðar á Kleppspítala. Systir mín fékk heilahimnubólgu þegar við vorum eins árs gamlar og varð eins og ungabarn eftir það og fór í sérskóla um tíu ára aldurinn. Ég elst því upp í kringum krakka með þroskaskerðingar og það var alls ekki leiðinlegt.

Auðvitað var systur minni oft strítt og mér líka en það risti ekki djúpt enda þekkti maður ekkert annað. Þetta þroskaði mann frekar en hitt og kannski bara herti mann. Systir mín hefur alltaf verið voðalega dugleg og er alltaf eitthvað að vinna í dag og seinna keyptu hún og mamma sér íbúð saman.

Ég fór sjálf að búa og eignast börn. Ég á tvo stráka fædda ´91 og ´96 og þrjú barnabörn. Ég skildi árið 2012 en kynntist seinna góðum manni sem er í hestamennsku svo við höfum það gott saman og hann er duglegur að draga mig út.

Ég hef alltaf unnið skrifstofustörf, fyrst á Kleppi, Vís og Heklu og síðan lengi vel í banka en eftir níu ára starf árið 2014 missti ég vinnuna þar. Það var ekki auðvelt að fá vinnu eftir það. Ég fór aðeins til Akureyrar en kom svo aftur enda synir mínir og barnabörn hér í bænum.

Ég var 47 ára þegar ég missti vinnuna og það var búið að vara mig við aldursfordómum á vinnumarkaðnum. Það er bara staðreynd að það er fyrst litið á kennitöluna áður en annað er skoðað og ef hún passar ekki er umsögnin bara sett til hliðar. Ég er nú frekar heilsuhraust og ekki löt til vinnu og ekki eldri en þetta svo auðvitað er það leiðinlegt.

Ég hef alltaf verið virk í félagsmálum, var í skátunum í gamla daga og hef verið virk í skemmtinefndum á mínum vinnustöðum auk þess að vera bekkjarfulltrúi og síðar í foreldrafélagi í skóla drengja minna. Ég hef alltaf verið með sterka réttlætiskennd og viljað rétta fram hjálparhönd þó ég hafi aldrei tekið þátt í stjórnmálum áður en mér finnst mikilvægt að allir fái að koma að borðinu og taka þátt óháð kynþætti, stétt eða stöðu og engan rasisma takk.

Ég var að klára síðasta vinnudaginn núna í apótekinu í Costco og er byrjuð að sækja um aðrar vinnur. Ef ég fæ ekki þokkalega vel greidda vinnu þá er ég nokkuð bjartsýn á að fá vinnu við umönnun en þar getur maður kannski fengið einhverja vaktavinnu og híft sig þannig eitthvað upp í launum. Annars er öll vinna innan umönnunargeirans og í skólum auðvitað skammarlega lág en með mína kennitölu er helst að fá einhverja vinnu þar. Á meðan einhverjir yfirmenn hækka í launum þá sitjum við hin alltaf eftir. Þessi vitleysa heldur bara áfram og maður fær stundum á tilfinninguna að við séum einhverskonar Sikiley.

Við erum bara tæplega 350 þúsund manna þjóð og maður hefur þá tilfinningu að þetta sé bara illa rekið fyrirtæki þar sem einhverjir menn selja ríkisfyrirtækin hægri vinstri til einhverra frænda eða vina. Þetta er allt eins. Þetta var eitthvað sem átti að laga eftir hrun en það hefur ekki verið gert. Það þarf að stoppa þetta.

Ég vil styðja sósíalistaflokkinn af því mér finnst mikilvægt að við missum ekki unga fólkið okkar í burtu. Fólk sem er að fara út í nám kemur ekkert endilega heim aftur nema kannski þeir sem hafa stuðning heima fyrir. Það borgar sig ekkert fyrir hina að koma heim aftur nema þau ná að eignast eitthvað erlendis og koma þá jafnvel ekki heim fyrr en eftir fimmtán til tuttugu ár“.

Ída Valsdóttir er í framboði fyrir sósíalista í Kópavogi #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram