Kristbjörg: Flestir innflytjendur flytja úr sára fátækt yfir í öðruvísi fátækt

Hin Reykjavík

12. Kristbjörg Eva Andersen Ramos
Hin Reykjavík

„Fyrir 27 árum síðan flutti móðir mín til Íslands. Hún ólst upp á tímum byltingarinnar í Ekvador, á tímum þar sem uppreisnarmenn voru handteknir eða jafnvel aflífaðir fyrir það eitt að mótmæla ríkisstjórninni.

18 ára og ólétt þurfti mamma mín að ganga í gegnum það að barnsfaðir hennar væri handtekinn fyrir að hafa skipulagt vopnaða byltingu, tekið yfir Ekvadorska þingið og náð völdum yfir útvarpsstöðvum og fjölmiðlum í nafni uppreisnarmanna.

Í kjölfarið fór maðurinn hennar mömmu í felur en það leið ekki á löngu þar til hann fannst og var sendur í fangelsi fyrir uppreisn sína.

Nokkrum árum síðar kom mamma til Íslands, alein. Henni tókst á dágóðum tíma að fá bróður minn hingað. Síðar kynnist hún verkamanni, pabba mínum.

Æskan mín einkenndist af efnahagslegu óöryggi og andlegri vanlíðan vegna fordóma í minn garð. Ung þurfti ég að fá mér vinnu og styðja fjölskylduna á allan þann hátt sem ég gat. Það að vera barn er ekki alltaf auðvelt, en að vera barn innflytjenda býr til meira álag en orð fá lýst. Þegar ég var yngri átti ég erfitt með að skilja hvers vegna það þreifst eins mikil fátækt og raun bar vitni. En ég skil það nú.

Valdið er í höndum þeirra sem auðinn eiga og þekkja ekki fátækt á eigin skinni. Vandamál þeirra sem lítið eiga virðast falin fyrir rörsýn valdsins og hafa verið það lengi.

Í staðinn fyrir að halda utan um innflytjendur þegar þeir koma til landsins er þeim mætt með erfiðleikum. Mamma þurfti að læra íslensku algjörlega upp á eigin spýtur. Bróðir minn fékk að minnsta kosti að læra sína íslensku í skóla. Saga móður minnar og bróður munu ætíð vera í huga mínum í baráttunni um réttlæti og jafnræði. Flestir innflytjendur flytja úr sára fátækt yfir í öðruvísi fátækt.

Kerfið á Íslandi hefur brugðist innflytjendum allt of oft, hent þeim út í óvissuna eða jafnvel dauðann. Bakgrunnur minn og saga gerir mig einungis sterkari. Ástríðan sem ég hef fyrir pólitík og eldmóðurinn sem ég ber innra með mér fyrir jafnréttisbaráttu mun bara styrkjast og það þarf meira en lélegt ríkisvald til að slökkva hann.“

Kristbjörg Eva Andersen Ramos er í framboði fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram