Rúnar: Þegar skellurinn kom hrundu tekjurnar, lánin hækkuðu og allt fór í kaldakol

Hinn Kópavogur

3. Rúnar Einarsson
Hinn Kópavogur

„Ég er fyrsta barn foreldra minna sem voru harðdugleg, unnu myrkranna á milli og voru ákveðin í að vinna sig upp. Þetta var hins vegar erfitt og við flæktumst á milli leiguhúsnæða. Þegar ég var 11 ára fluttum við síðan frá höfuðborgarsvæðinu og til Hvammstanga. Þá hafði ég búið á samtals 12 stöðum og gengið í þrjá skóla. Ég var alltaf sendur í sveit á sumrin og dvaldi í Langadal í Ísafjarðardjúpi hjá frændfólki mínu í 12-13 sumur. Þau sumur eru eiginlega besti tími ævi minnar.

Frá Hvammstanga fór ég til Reykjavíkur og í Verslunarskóla Íslands. Strax eftir útskrift úr Versló fór ég að reka gömlu matvöruverslun foreldra minna í Hlíðunum í Reykjavík. Síðan þá hef ég unnið fjölmörg störf þó aðallega tengd verslun, bókhaldi og sölumennsku. Ég hef oftast unnið mikið og oft í tveimur vinnum.

Við hjónin fórum illa út úr hruninu. Við keyptum okkur stærra húsnæði árið 2007 og svo þegar skellurinn kom hrundu tekjurnar, lánin hækkuðu og allt fór í kaldakol hjá okkur eins og hjá svo mörgum öðrum.

Ég barðist lengi við bankann og fór meira að segja í dómsmál við bankann. Okkar mál drógust úr von í viti en í fyrra komst loksins niðurstaða eftir 10 ára baráttu. En kapallinn gekk upp hjá okkur síðasta sumar. Þetta er allt annað líf. Það er ólýsanlegur léttir að vera laus við kröfuhafana. Þessi 10 ára bið er þó búin að reyna alveg svakalega á okkur. Álagið á sálartetrið er nánast ólýsanlegt og þegar ég lít til baka skil ég vel af hverju fólk gefst hreinlega upp og endi í því að verða öryrkjar.

Fleiri og fleiri eru að bogna undan pressunni af því álagið er ómannúðlegt og það virðist öllum vera sama. Nú skil ég betur aðstæður öryrkja, eldri borgara og húsnæðislausra. Það á engin að þurfa að lifa við svona aðstæður. Við erum að framleiða vandamál með því að bregðast ekki við. Það er miklu mannúðlegra og ódýrara fyrir samfélagið að bregðast við heldur en að láta fólk búa við áhyggjur, kvíða, óöryggi og ótta kannski árum og áratugum saman.

Í dag starfa ég við gasáfyllingu og lagerstörf hjá Ísaga og er í tveimur aukavinnum til að reyna að koma undir mig fótunum aftur. Og ég hef líka þurft að vera á leigumarkaði undanfarið. Ástæða þess að ég gerðist meðlimur í Sósíalistaflokk Íslands er sú að ég hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum og stjórnmálum. Alltaf verið vinstrisinnaður jafnaðarmaður. Það sem ég er ánægðastur með hjá Sósíalistaflokknum er hve lýðræðislegur hann er. Til dæmis eru félagsmenn valdir með slembivali til að smíða stefnuna. Þetta er almennileg grasrótarvinna.

Við eigum öll rétt á að lifa með reisn. Í því felst matur, húsnæði, föt, læknisþjónusta, menntun, samgöngur og jöfn tækifæri. Í dag fara fjölmargir á mis við þessi sjálfsögðu réttindi og það er óásættanlegt. Við þurfum að tryggja öllum mannsæmandi framfærslu bæði launafólki, öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Mér finnst að sveitarfélög eigi að tryggja þetta með lagasetningu. Vilji er allt sem þarf og mun ég beita mér fyrir þessu í Kópavogi. Ef einhver heldur því fram að þetta sé ekki hægt þá segi ég; fyrst maðurinn komst til tunglsins þá getum við leyst þetta vandamál.”

Rúnar Einarsson er í framboði fyrir sósíalista í Kópavogi #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram