Sósíalistaflokkurinn stofnaður 1. maí
Frétt
25.04.2017
Stofnfundur Sósíalistaflokks Íslands verður haldinn 1. maí næstkomandi í Tjarnarbíó við Tjarnargötu klukkan fjögur síðdegis. Á fundinum verður greint frá aðdraganda að stofnun flokks og rætt um starfið fram undan.
Um 1250 manns hafa nú þegar skráð sig í Sósíalistaflokkinn. Öll þau sem skrá sig fyrir 1. maí eða á stofnfundinum teljast stofnfélagar flokksins.
Félagar hafa skráð sig í flokkinn undir stuttri og einfaldri stefnuskrá sem leggur áherslu á að flokkurinn muni efla stéttabaráttu svo almenningur nái völdum af auðstéttinni og móti samfélagið að sínum þörfum.
„Það er ekki markmið Sósíalistaflokksins að verða flokkur eins og hinir flokkarnir eru,“ segir Gunnar Smári Egilsson, sem leitt hefur stofnun flokksins. „Stjórnmálastarfinu hefur hnignað og margir þessir flokka eru aðeins flokksforysta í leit að tilgangi eða vinsældum. Sósíalistaflokkurinn mun leggja alla áherslu á að leggja lið í baráttu fólks fyrir bættum kjörum, meira öryggi og auknum rétti, einkum þeim hópum sem mest hafa liðið fyrir óréttlátt þjóðskipulag og frekju auðvaldsins.“
Á fundinum verður kosin bráðabirgðastjórn sem undirbúa mun flokksþing í haust þar sem stefna flokksins verður mótuð. Fram að því mun flokkurinn byggja upp fjölþætt starf til stuðnings stéttabaráttu og kröfum almennings um réttlátara samfélag.
Stefnuskrá flokksins hljóðar svona:
Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.
Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og þeir sem ganga erindi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.
Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.
Fyrstu baráttumál Sósíalistaflokks Íslands eru þessi:
- Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
- Aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði.
- Aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.
- Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.
- Enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.