Corbyn í brennidepli: Vel heppnuð heimsókn Richard Seymour
Frétt
25.08.2017
Heimsókn breska rithöfundarins Richards Seymour til Íslands í síðustu viku heppnaðist vel, en hann talaði á opnum fundi á vegum Sósíalistaflokksins. Fundurinn var haldinn í hádeginu mánudaginn 14. ágúst og fór fram í fyrirlestrasal Þjóðimjasafns Íslands. Í erindi sínu ræddi Seymour ítarlega um þá miklu og óvæntu sigra sem Corbyn hefur unnið í bresku stjórnmálum, fyrst í formannskjöri Verkamannaflokksins árið 2017 og í kjölfarið í bresku þingkosningunum fyrr á þessu ári.
Seymour nefndi nokkrar ástæður fyrir velgengni Corbyns, þar á meðal hvernig kosningabarátta hans nýtti sér nýja miðla til að ná til yngra fólks en ekki síður þá staðreynd að pólitísk stefna hans á einfaldlega afar sterkan samhljóm hjá bresku þjóðinni eftir áratugi af nýfrjálshyggju, niðurskurði og hernaðarstefnu. Tilraunir fjölmiðla og pólitískra andstæðinga Corbyns til að útmála hann sem afdankaðan snerust fljótt í höndum þeirra og létu Corbyn að endingu líta út sem manneskjulegan og heiðarlegan í samanburði við ofurhannaða ímynd annarra stjórnmálamanna.
Fjöldi spurninga barst úr sal í kjölfar framsögu Seymours. Umræðum stýrðu Sanna Magdalena Mörtudóttir, varaformaður bráðabirgðastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, og Viðar Þorsteinsson, ritari, en þau buðu einnig gesti velkomna og kynntu Seymour.
Fundurinn var sendur beint út á Facebook og má nálgast upptöku af þeirri útsendingu á Facebook. Einnig verður hljóðupptöka í betri gæðum brátt gerð aðgengileg.
Erindi Seymours byggði á rannsóknum hans á ferli og stjórnmálum Corbyns, en hann gaf árið 2016 út bókina Corbyn: The Strange Rebirth of Radical Politics Inngangskafli bókarinnar, „Öllum að óvörum“, birtist í íslenskri þýðingu á vef Sósíalistaflokksins nokkrum dögum fyrir komu Seymours. Bókin er væntanlega í endurútgáfu seinna á þessu ári.
Kvöldið eftir hádegisfundinn kom Seymour fram í Róttæka sumarháskólanum og ræddi þar vítt og breitt um pólitísk málefni, en fjöldi bóka hefur komið út eftir Seymour síðan árið 2008. Sú uppákoma var á formi samræðu, og ræddi Seymour þar við Viðar Þorsteinsson og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, meðlim í bráðabirgðastjórn Sósíalistaflokksins. Þá var tekið við fyrirspurnum úr sal. Samræðan var einnig send beint út á Facebook og má nálgast upptökuna þar (spurningar úr sal hér).
Á meðan Seymour dvaldist á landinu ræddi Bára Huld Beck blaðakona ítarlega við hann og birti svo viðtal og umfjöllun á Kjarnanum Óhætt er að mæla með umfjöluninni. Þá skal minnt á vandaðar greinar eftir íslenska höfunda um Corbyn sem hafa áður birst á vef Sósíalistaflokks Íslands („Rokkstarnan Jeremy Corbyn“ eftir Guðmund Auðunsson og „Þegar stundin rennur upp“ eftir Árna Daníel Júlíusson).
Sósíalistaflokkur Íslands þakkar Richard Seymour fyrir komuna, sem og öllum sem lögðu hönd á plóg við að gera heimsókn hans vel heppnaða. Flokkurinn vonast til að geta haldið áfram að stuðla að umræðu um sigra sósíalískra hreyfinga á Vesturlöndum.