Leigjendur greiða 110 þúsund króna skatt til auðvaldsins um hver mánaðamót
Frétt
08.05.2018
„Það ætti að vera stefna Reykjavíkurborgar að brjóta niður tök auðvaldsins á húsnæðismarkaðnum. Almenningur á rétt á húsnæði án þess að greiða örfáum ríkustu fjölskyldum landsins stórfé um hver mánaðamót,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti sósíalista í Reykjavík.
Sósíalistaflokkurinn leggur til að Reykjavík og önnur sveitarfélög stofni byggingafélög til að einangra sem stærstan hluta húsnæðismarkaðarins frá gróðafyrirtækjum sem hafa lagt undir sig húsnæðismarkaðinn. „Eins og kerfið er í dag tekur auðvaldið einfaldlega of mikið til sín. Fólk sem þarf á húsnæði að halda þarf að standa undir arði til eigenda innflutningsfyrirtækja, til verktaka og lóðabraskaranna og til eigenda leigufyrirtækjanna. Þetta er einfaldlega of mikið. Húsnæðiskerfi er ekki fyrir fjöldann sem vill öruggt og ódýrt húsnæði heldur fyrir hina fáu og ríku sem líta á húsnæðisþörf almennings sem tækifæri til að búa til ofsagróða. Það er kominn tími til að fólk standi upp og segi: Nei takk, ekki meir,“ segir Sanna Magdalena.
Samkvæmt Hagstofu Íslands er byggingarkostnaður á hvern fermetra í svokallaðri vísitöluíbúð undir 215 þúsund krónur fermetrinn. Það þýðir á að 85 fermetra íbúð myndi kosta um 18,3 milljónir króna án lóðarkostnaðar. Afborganir af 18,3 milljón króna láni á útlánsvöxtum Lífeyrissjóðs verslunarmanna til 40 ára eru tæpar 79 þúsund krónur á mánuði. Leiga af slíkri íbúð ætti því ekki að verða hærri en 100 þúsund krónur á mánuði, að teknu tilliti til viðhalds og umsýslu. Fjölskylda með tvær fyrirvinnur á lágmarkslaunum myndi greiða tæpar 62 þúsund krónur í húsnæðiskostnað eftir húsnæðisbætur.
En hvað kostar að leigja svona íbúð hjá Heimavöllum eða öðrum sambærilegum leigufyritækjum? Það er ein 85 fermetra íbúð til leigu hjá Heimavöllum í Reykjavík í dag. Hún kostar 210 þúsund krónur á mánuði. Húsnæðiskostnaður fjölskyldunnar hér að ofan væri þá tæplega 172 þúsund krónur. Fólk sem leigir þessa íbúð greiðir því eigendum Heimavalla um 110 þúsund krónur á mánuði umfram byggingarkostnað og umsýslu. Mismunurinn jafngildir 1,3 milljón krónum á ári.
Áætla má að í Reykjavík séu um átta þúsund leiguíbúðir á almennum markaði. Miðað við dæmi hér að ofan má ætla að leigjendur í Reykjavík greiði auðvaldinu hátt í 10 milljarða króna árlega í leigu umfram það sem kostar að byggja og viðhalda húsnæðinu. Þeir fjármunir renna til lóðabraskara, innflutningsfyrirtækja, verktaka, húsaleigufyrirtækja og fleiri sem hafa sogið sig fasta á þörf fólks fyrir húsnæði.
„Þetta eru byrðar íbúa borgarinnar af auðvaldinu og bara á húsnæðismarkaði,“ segir Sanna Magdalena. „Það verður að vera meginmarkmið borgaryfirvalda að verja íbúanna fyrir ágengni gróðafyrirtækja. Það þarf vissulega að lækka skatta á lægstu laun, en það er ekki síður mikilvægt að lækka kostnað almennings af auðvaldinu. Skattar renna þó til sameiginlega sjóða og góðra verka en gjaldið til auðvaldsins rennur beint í vasa örfárra.“