Sósíalistaflokkurinn er verkalýðsflokkur

Ritstjórn Frétt

Félagsfundur Sósíalistaflokks Íslands, haldinn 19. janúar 2019, samþykkti að fella kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart stjórnvöldum inn í málefnastefnu flokksins. Með samþykktinni er ítrekað það sem segir í stefnu flokksins að Sósíalistaflokkurinn sé flokkur launafólks á Íslandi.

Samþykkt félagsfundarins er svohljóðandi:

SÓSÍALISTAFLOKKURINN ER VERKALÝÐSFLOKKUR

Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og styður baráttu verkalýðsins fyrir bættum kjörum og réttlátu samfélagi. Kröfugerð verkalýðsins ber að móta á lýðræðislegan máta innan verkalýðsfélaga. Með því birtist vilji almennings, sem bæði flokkur og hreyfing fylkir sér á bak við. Það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að knýja í gegn kröfur verkalýðsins gagnvart fyrirtækjum og öðrum launagreiðendum. En það er sameiginlegt hlutverk hreyfingar og flokks að þrýsta á um kröfugerð verkalýðsins gagnvart ríkisvaldinu og hinu opinbera. Af þeim sökum hefur Sósíalistaflokkur Íslands tekið kröfugerð félagsfólks þeirra verkalýðsfélaga sem mynda Starfsgreinasambandið gagnvart stjórnvöldum og fellt inn í málefnastefnu sína.

Starfsgreinasambandið er fjölmennasta félagsheild verkafólks innan Alþýðusambandsins. Kröfugerð þess hefur verið samþykkt af félögum sem samanlagt telja tæplega sextíu þúsund félagsmenn. Kröfugerð Verslunarmannasambandsins og VR (um 35 þúsund manns til viðbótar) gagnvart stjórnvöldum eru í dag nánast samhljóða kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Auk þess má reikna með að önnur félög og samtök innan Alþýðusambandsins taki undir þessar kröfur. Með því að fella kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart stjórnvöldum inn í málefnastefnu sína er Sósíalistaflokkur Íslands því að gera kröfur um 135 þúsund verkafólks að sínum kröfum.

Kröfugerð Starfsgreinasambandsins leggst við stefnu Sósíalistaflokksins. Sú stefna sem slembivaldir hópar félagsfólks hefur markað í einstökum málaflokkum er enn í gildi. Í öllum tilfellum er sú stefna eðlileg viðbót við kröfugerð verkafólks og í mörgum tilfellum er stefnan sú saman, enda er bæði stefna flokksins og kröfur hreyfingarinnar mótaðar af reynslu og væntingum alþýðu manna.

Samkvæmt þessari samþykkt verður kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart stjórnvöldum felld inn í málefnastefnu Sósíalistaflokks Íslands. Kröfugerðin er svohljóðandi:

KRÖFUGERÐ STARFSGREINASAMBANDSINS GAGNVART STJÓRNVÖLDUM

Þær launahækkanir sem samið hefur verið um síðustu ár hafa skilað sér mjög misjafnlega til launafólks á Íslandi. Dregið hefur mjög úr jöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins og húsnæðiskostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi. Umræddar breytingar hafa að öllu leyti bitnað með meiri þunga á láglaunafólki en öðrum. Það er því skýlaus krafa félagsmanna innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands að stjórnvöld axli ábyrgð á bættum kjörum með endurskoðun skatta- og bótakerfisins og stórátaki í húsnæðismálum. Tugir þúsunda félagsmanna hafa tekið þátt í mótun kröfugerðar og er það samdóma álit að spjótin beinist að stjórnvöldum í komandi kjaraviðræðum.

Skattar
Lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra skattaframlagi þeirra tekjuhæstu. Álagning tekjuskattkerfisins á lægri og hærri tekjuhópa verði þar með líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Sá persónuafsláttur sem um semst þarf að fylgja launaþróun þannig að ekki dragi jafnt og þétt úr tekjujöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins eins og varð á síðustu áratugum.

Fjármagnseigendur verði ekki undanskildir ábyrgð og fjármagnstekjuskattur verði hækkaður til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fjármagnseigendur verði heldur ekki undanskildir greiðslu útsvars. Þá þarf að endurskoða fasteignaskatt þannig að hann stökkbreytist ekki með markaðshækkunum á verði íbúðarhúsnæðis og verði þar með óeðlilega íþyngjandi fyrir almennt launafólk sem hefur tekist að fjármagna íbúðakaup sín. Slíkur forsendubrestur er óþolandi.

Húsnæðismál
Gert verði þjóðarátak í húsnæðismálum, sambærilegt að vöxtum og áhrifum og verkamannabústaðakerfið sem var og hét. Ráðist verði í sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða til að gera það að veruleika. Skoðaðar verði útfærslur sem gera ráð fyrir fjármögnun verkamannabústaðakerfisins í gegnum bein framlög ríkisins (t.a.m. stofnframlög Íbúðalánasjóðs), í gegnum sérstakt iðgjald greitt af atvinnurekendum, í gegnum fjárfestingu lífeyrissjóða eða blöndu af öllum þessum leiðum. Horft verði til þess möguleika að semja um endurráðstöfun á þegar umsömdum hækkunum lífeyrissjóðsiðgjalda til húsnæðisuppbyggingar. Sveitarfélög leggi sitt af mörkum með veitingu lóða og veiti verkefninu sérstakan forgang í skipulagsvinnu. Launafólk fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til kaupa á fasteign og niðurgreiðslu fasteignalána. Tryggt verði að stofnframlög nýtist öllu landinu og Bjarg önnur félagsleg húsnæðisfélög byggi íbúðir um allt land.

Sú vinna sem þegar hefur verið unnin innan Bjargs verði nýtt, en aðrar útfærslur sem stutt geti við markmið Bjargs í gegnum aðra tekjustofna verði jafnframt skoðaðar. Markmiðið verði að tryggja að minnsta kosti 1250 nýjar íbúðir á ári, og að millitekjuhópar og verka- og láglaunafólk með miklar yfirvinnutekjur hafi aðgang að húsnæði sem til verður í slíku átaki. Horft verði til möguleika lífeyrissjóðanna að koma með markvissum hætti að uppbyggingu húsnæðis.

Breytingar verði gerðar á lagaumhverfi leigumarkaðar í þá veru að takmarka skammtímaútleigu íbúðarhúsnæðis í ferðaþjónustu. Hækkanir leiguverðs og trygging greidd af leigutaka verði skilmerkilega takmarkaðar. Leigusamningar verði almennt til langtíma og bundin verði í lög föst opinber framlög til hagsmunasamtaka leigjenda. Útvíkka þarf gildissvið laga um húsnæðisssamvinnufélög þannig að lögin taki til fleiri félagaforma en nú er; húsnæðissamvinnufélög geti starfað á leigumarkaði og sótt um stofnframlög frá ríki. Lög um almennar íbúðir verði aðlöguð að fjölbreyttari formum leigufélaga.

Samræma þarf lánsmat við greiðslugetu. Tekið verði fullt tillit til þess í greiðslumati lánastofnana hvað fólk hefur getað greitt í húsaleigu á sama ári og það skattframtal sem skilað er vegna greiðslumats miðar við. Gætt verði jafnræðis á milli landshluta hvað þetta varðar. Bæta þarf sérstaklega úr vanda fólks á landsbyggðinni þegar kemur að húsnæðismálum, m.a. annars með auknu framboði af húsnæði á viðráðanlegu verði, sérstaklega til þeirra sem búa á svokölluðum köldum svæðum. Tryggt verði að þeim sem eru að kaupa fyrstu íbúð verði veitt aukin aðstoð.

Húsnæðisstuðningur (húsnæðis- og vaxtabætur) verði stórlega efldur. Dregið verði úr skerðingum vegna tekna og eigna.

Almannatryggingar og bætur
Barnabætur verði hækkaðar og dregið úr skerðingum þannig að skerðingar komi ekki til áhrifa undir lágmarkstekjum og skerðingarviðmið fylgi síðan launaþróun. Þá þarf að hækka vaxta- og húsnæðisbætur og draga úr skerðingum vegna tekna og eigna.

Lögð er áhersla á að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarahækkana og launafólk á almenna vinnumarkaðnum. Draga þarf verulega úr áhrifum skerðinga hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum í almannatryggingakerfinu. Aðför hins opinbera að sjóðum þeim sem vinnandi fólk hefur byggt upp í gegnum tíðina til að bæta lífskjör sín verði hætt þannig að þeir niðurgreiði ekki félagslega þjónustu og grunnstoðir sem eiga að vera á höndum hins opinbera.

Vextir og verðtrygging
Verðtrygging á neytendalánum verði afnumin, um leið og komið verði í veg fyrir að lántökukostnaður flytjist aftur á lántaka með öðrum leiðum. Húsnæðisliður verði tekinn út úr lögum um vexti og verðtryggingu. Seðlabankinn stuðli að lækkun stýrivaxta og þak verði sett á húsnæðisvexti með það að markmiði að ná hér vaxtakjörum sem eru sambærileg því sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Fæðingarorlof
Lengja fæðingarorlof beggja foreldra í samtals allt að 18-24 mánuði til að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og til að búa barnafjölskyldum betra líf. Heimilt verði að annað foreldrið nýti allan réttinn sé hitt foreldrið alfarið útilokað frá því að gera það, t.d. vegna andláts, tæknifrjóvgunar, útilokunar frá landvist eða að foreldri sé ómögulegt að vera til staðar af öðrum óhjákvæmilegum orsökum.

Velferðarmál
Heilbrigðisþjónusta þarf að vera öllum aðgengileg óháð efnahag og búsetu. Móta þarf skýra heilbrigðisstefnu og heilbrigðisþjónustan skal vera rekin af hinu opinbera en ekki háð markaðsöflum. Greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu er afar íþyngjandi fyrir lægra launað fólk og þá sérstaklega fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins sem þarf að sækja þjónustu fjarri heimabyggð með vinnutapi og ferðakostnaði sem því fylgir, vegna hagræðingar hjá ríkisstofnunum síðustu áratugi. Draga verður stórlega úr greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu og stofna embætti umboðsmanns sjúklinga. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum um allt land.

Fræðslumál
Stórauka þarf fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og koma henni inn í aðalnámskrá grunnog framhaldsskóla. Þá þarf að gera kröfu um lágmarksþekkingu atvinnurekenda á kjaramálum áður en leyfi er veitt til að stofna og reka fyrirtæki. Efla þarf menntakerfið með tilliti til breytinga á vinnumarkaði, þar með talið styrkja verk- og starfsnám og tryggja fjármagn til símenntunarmiðstöðva og Fræðslusjóðs.

Brotastarfsemi á vinnumarkaði
Styrkja þarf lagaumhverfi til að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði og kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð með skýrum hætti og sektir lögfestar við slíkum brotum. Auka þarf valdheimildir stéttarfélaga til gagnaöflunar í fyrirtækjum og heimildir til að beita sektum. Koma þarf á skýrum samskiptaferlum stéttarfélaga við þar til bærar opinberar stofnanir ef loka þarf fyrirtækjum vegna alvarlegra brota á réttindum starfsfólks.

Vinnustaðaeftirlit stéttarfélaga skal eflt og einnig verði komið á reglubundnu og stórefldu samstarfi stéttarfélaga við Vinnueftirlit ríkisins, Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra, lögregluna, heilbrigðiseftirlitið og aðra eftirlitsaðila vegna brota gegn starfsfólki hvað varðar launagreiðslur, aðbúnað í vinnu og húsakost.

Sameina skal Vinnumálastofnun og Vinnueftirlit ríkisins í eina öfluga stofnun með nægt fjármagn til að sinna eftirlitshlutverki. Auka þarf aðhald frá stjórnvöldum gagnvart þeim stofnunum sem ber samkvæmt lögum að hafa eftirlit með brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Alþjóðasáttmálar verði virtir varðandi mansalsmál og aðgerðaráætlun staðfest og fjármögnuð.

Tekið verði á kennitöluflakki með skýrum og ábyrgum hætti með það fyrir augum að stöðva kennitöluflakk.

Annað
Laga þarf búsetumismun í gegnum bættar samgöngur, jöfnun húsnæðiskostnaðar og fleira.

Auka þarf sveigjanleika starfsloka þannig að það verði í raun nothæfur kostur að minnka við sig vinnu og hætta fyrr, eða seinna á vinnumarkaði, hvort heldur sem hentar fólki. Fólki sem vinnur líkamlega eða andlega erfiða vinnu verði gefinn kostur á að hætta fyrr að vinna en ella.

Jafnréttisstofa verði styrkt og tryggt fjármagn til að fylgja eftir lögum um jafnlaunavottun, þar með talið eftirlit. Mismunun vegna ríkisfangs, upprunalands eða tungumáls skal tekin inn í jafnlaunavottun.

Aðgengi hælisleitenda að vinnumarkaði verði bætt.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram