Niðurstaða málefnahóps um jafnréttismál

Málefnahópur um jafnréttismál Frétt

Stefna Sósíalistaflokks Íslands í jafnréttismálum er …

  • að allir skulu vera jafnir fyrir lögum samfélagsins óháð efnahag, félagslegri stöðu, uppruna eða líkamlegu atgervi.
  • að efnahagsleg forréttindi ráði ekki stefnu eða lögum landsins.
  • að slagorðið „Ekkert um okkur án okkar“ sé ávalt haft í heiðri í öllum stjórnvaldsákvörðunum og alltaf leitað samvinnu við þá sem málin varða.
  • að skattheimta sé réttlát og nýtt til fulls sem jöfnunartæki.
  • að upplýsingar til almennings séu ávallt fullnægjandi og vel aðgengilegar, þýddar eða hljóðsettar.
  • að vægi atkvæða til kosninga sé jafnt og óháð búsetu þegar kemur að kosningum til alþingis.
  • að lýðræðið sé virt og að þjóðaratkvæðagreiðsla sé bindandi gagnvart ríkjandi valdhöfum hverju sinni.
  • að sett sé nægilegt fjármagn í alla heilbrigðis og velferðarþjónustu svo tryggt sé að fólk fái lifað með reisn.
  • að bráðaúrræði séu ávallt opin almenningi og fíknimeðferðarúrræðum fjölgað á landsvísu.
  • að aðgengismál fatlaðs fólks séu ávallt í lagi af hendi hins opinbera og mannréttindi þeirra virt sem slík.
  • að unnið sé markvisst að fullum mannréttindum hinsegin fólks.
  • að börn njóti sérstakrar verndar þegar kemur að kynrænu sjálfræði, aðgerðir séu ekki gerðar á börnum undir lögaldri.
  • að öll lögbundin þjónusta við börn sé með öllu gjaldfrjáls og sérstaklega sé hugað að þörfum, réttindum  og vernd barna. 
  • að í skólum og á vinnumarkaði sé jafnrétti virt í hvívetna óháð stétt, uppruna, fötlun, kyni, kynverund, aldri eða skertri starfsorku, og sömu laun greidd fyrir sömu vinnu.
  • að unnið sé markvisst gegn láglaunastefnu ríkis og borgar og á almennum vinnumarkaði sérstaklega þegar kemur að svokölluðum „kvennastörfum“.
  • að unnið sé markvisst gegn kynbundnu ofbeldi innan lands og utan.
  • að unnið sé gegn hvers kyns ofsóknum, hatursorðræðu og heimilisofbeldi, ofbeldi gegn fólki af ákveðnu kyni, uppruna, fötluðu fólki og hinsegin fólki.
  • að innan stjórnsýslunnar og stjórnkerfisins sé sérstakur gaumur gefinn að margfaldri mismunun.
  • að sjálfsákvörðunarréttur fólks sé fyllilega virtur þegar kemur að þungunarrofi, ófrjósemisaðgerðum eða öðrum inngripum sem tengjast líkama þess og eða kyni. 
  • að allir séu jafnir í alþjóðlegu samhengi og ber að virða mannréttindi þeirra sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Veita skal þeim réttláta og mannúðlega málsmeðferð en ekki mismuna fólki sem hingað leitar vegalaust.
  • að við berum siðferðilega ábyrgð gagnvart alþjóðasamfélaginu og að yfirvöld vinni markvisst gegn mannréttindabrotum á alþjóðavísu og styðji ekki við framleiðslu eða verslun þar sem brotið er á fólki.

Ítarefni:

Sósíalistaflokkur Íslands tekur undir jafnræðisreglu nýju stjórnarskrárinnar og ítrekar mikilvægi þess að hún verði tekin upp.  Félagsleg staða, kyn, uppruni, kynferði, kynverund, fátækt eða fötlun skal heldur ekki skerða réttindi fólks að nokkru leyti og að sá stuðningur félags- eða heilbrigðisþjónusta sem langveikir eða fatlað fólk þarf að nýta sér til að sitja við sama borð og aðrir séu mannréttindi sem beri að virða samanber samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samning sameinuðu þjóðanna um réttindi geðfatlaðra sem ríkisstjórn Íslands ber að samþykkja og staðfesta.  Þá skal virða allar alþjóðlegar mannréttindastefnur sem Ísland er aðili að og samþykkja hina ýmsu viðauka sem gerir yfirvöld raunverulega ábyrg og skyldar þau til að bregðast við óréttlæti svo sem húsnæðisleysi eða órétti á vinnumarkaði.

Hafna skal hugmyndum kapítalismans um nýfrjálshyggju sem ráðið hefur lögum og lofum í samfélaginu og ber hinu opinbera að tryggja almenningi þá stöðu að hafa tíma og fjárráð til að taka þátt í mótun samfélagsins.  Þá skal einkavæðingu og  útvistun á innri kerfum hætt og keðjuábyrgð er varðar brot á vinnumarkaði virt bæði í einka- sem og í opinbera geiranum. 

Til að tryggja að ekki sé troðið á mannréttindum fólks í hverslags aðgerðum og reglum af hendi hins opinbera skal taka upp samvinnu við alla minnihluta- og eða notendahópa og miða alla áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga útfrá stéttavinkli og fjölbreytileika en ekki einungis út frá kynjum. Þar er mikilvægt að skoða hvernig þættir eins og efnahagsleg staða , uppruni, hinseginleiki eða fötlun móta veruleika fólks. Með samvinnu er átt við að þeir einstaklingar sem hafa reynslu af því sem um er að ræða fái að koma sameiginlega að ráðagerð með valdhöfum.

Með réttlátri skattheimtu skal jafna kjör fólks og tryggja að þeir efnameiri greiði sanngjarnt hlutfall af sinni innkomu, launa eða fjármagnstekna til samfélagsins. Þannig skal ekki bara innheimta útsvar af  þeim sem skráðir eru launþegar heldur einnig þeim efnameiri sem reikna sér lágar tekjur en eru með háar fjármagnstekjur.  Þá er mikilvægt að jafna tekjur með innheimtu hátekjuskatts og hærri auðlindagjalda. Þeir lægst launuðustu skulu vera skattfrjálsir og barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar skulu njóta sérstaks stuðnings af hendi hins opinbera hvort er ríkis eða sveitarfélaga.

Upplýsingar um hvers kyns réttindi og skyldur skulu ávalt liggja fyrir og vera auðsóttar af almenningi en ef upp koma veikindi, slys eða annað sem veikir einstaklinginn til upplýsingaleitar skulu yfirvöld hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar um réttindi. Þá skulu hvers kyns upplýsingar liggja fyrir sem ýta undur gegnsæi stjórnsýslunnar en á sama tíma skal standa vörð um réttindi almennings svo sem friðhelgi einkalífsins.  Skal sú friðhelgi ná yfir lífeyrisþega einnig.

Vægi atkvæða skal endurspegla þá kröfu að allir komi að borðinu jafnir óháð búsetu.  Þannig sé kosningakerfið til alþingiskosninga endurskoðað og lagfært í þágu fólksins.  Reikniaðferðir á sveitastjórnarstigi verði einnig endurskoðaðar í þeim tilgangi að endurspegla jafnt vægi atkvæða. Lýðræðið sé aukið með ýmsum leiðum svo sem slembivali og fleiri þjóðaratkvæðagreiðslum í stærri málum.  Þjóðaratkvæðagreiðslur eins og atkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá skulu virtar í hvívetna og þingmenn skuldbinda sig til að hlíta vilja þjóðarinnar. 

Velferðar- og heilbrigðiskerfinu skal tryggt nægilegt fjármagn svo að enginn mæti lokuðum dyrum þar. Þá skal sérstaklega huga að þörfum aldraðra, fatlaðra og langveikra innan velferðar- og heilbrigðiskerfisins, svo að þeir geti lifað með reisn og að sú þjónusta sem þeim ber sé skilgreind sem mannréttindi og jafnræði á við rétt annarra en ekki sem ölmusa. Þá sé tryggt að bráðadeild geðdeildar sé opin allan sólarhringinn hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni og viðeigandi úrbætur gerðar þar sem þörf er á, til að tryggja að þjónustan sé í nærumhverfi íbúa. Einng skal fjölga fíknimeðferðarúrræðum um allt land.

Aðgengismál skulu vera í lagi í öllum byggingum yfirvalda svo sem skrifstofum, sjúkra- og greiningastofnunum skólum og sundlaugum.og skulu sveitafélög taka meiri ábyrgð á aðgengismálum í sínu byggðarlagi og aðstoða aðrar stofnanir samfélagsins eins og hægt er við að lagfæra aðgengismál og upplýsa fatlaða um hvar þau séu í lagi og hvar ekki.

Réttindi hinsegin fólks sem hafa áunnist skulu varin og unnið að fullu jafnrétti þeim til handa í samræmi við regnbogakort ILGA.  Kyn skulu ekki sjálfkrafa álitin aðeins tvö heldur geti fólk verið skráð hán eða milli kynja.  Þá megi samkynhneigðir  karlar gefa blóð eins og aðrir og  samkynhneigðum foreldrum gert jafn hátt undir höfði þegar kemur að skráningu og forræði barna sinna og öðrum foreldrum.  Kynrænt sjálfræði intersex einstaklinga skal einnig staðfest og lagt bann við því að setja börn í óþarfar skurðaðgerðir á kynfærum ytri eða innri.

Þá skal fólk ráða nafni sínu og barna sinna en mannanafnanefnd lögð niður í núverandi mynd.   Aldrei skal þvinga innflytjendur til að taka upp íslensk nöfn og biðja þá sem þess þurftu á sínum tíma afsökunar í nafni íslenska ríkisins.

Öll þjónusta við börn skal vera með öllu gjaldfrjáls svo sem skólaganga, dagvistun, frístund og heilbrigðisþjónusta. Þá skulu börn hafa rétt til að vera í samskiptum við báða foreldra eða forráðamenn sína ef ekkert mælir gegn því og öryggi þeirra sé fullnægt. 

Ef börn búa sannanlega á tveimur heimilum og öryggi þeirra er tryggt geti þau haft tvöfalt lögheimili og réttur foreldra eða forráðamanna þeirra til að sækja um þann leikskóla og eða skóla sem hentar best og tómstundir sé þá til staðar auk annara þátta sem falla þar undir. Foreldrar eða forráðamenn fatlaðra barna geti þá sótt um hjálpartæki fyrir bæði heimili barnsins.

Jafnrétti skal vera til náms óháð efnahag, kyni, uppruna, kynverund, aldri og hvers kyns félagslegum þáttum og skal fólk hafa frelsi til að mennta sig á þeim tíma sem það hentar þeim að skyldunámi loknu.  Þannig verði aftur sett fjármagn í rekstur öldungadeilda og fjarnáms.  Einnig skulu allir sitja við sama borð þegar kemur að námslánum og skal fella út eldri ábyrgðarmenn lána. Þá skal lánasjóðurinn (LÍN) endurskoðaður með tilliti til styrkjakerfis eins og fram kemur í menntastefnu Sósíalistaflokksins.

Jafnrétti á vinnumarkaði og í skóla  skal virt óháð uppruna, tungumáli, aldri, kynverund, fötlun skertri starfsorku eða öðrum félagslegum þáttum sem geta haft áhrif.  Þá séu sömu laun greidd fyrir sömu vinnu og starfsgetumati hafnað í samræmi við vilja ÖBÍ og fólk ekki þvingað til vinnu ef það treystir sér ekki til.  Einnig skal standa vörð um sigra verkalýðsbaráttunnar svo sem styttingu vinnuvikunnar og vökulögin og virk viðurlög vera við brotum á þeim.
Einnig skal barist af krafti gegn láglaunastefnu ríkis og borgar og á almennum vinnumarkaði þegar kemur að svokölluðum “kvennastörfum” auk öðrum störfum sem fólki er gert að lifa af undir fátækramörkum eða eru janvel með öllu ógreidd svo sem umönnun aldraðra eða ungra ættingja.

Vinna skal gegn kynbundnu ofbeldi, kynferðis- og heimilisofbeldi og þrýsta á að réttarkerfið þjóni fórnarlömbum ofbeldisins betur með því til dæmis að endurskilgreina sönnunarbyrði  og refsirammann í slíkum málum.  Þá skal unnið að feminískum sósíalisma undir formerkjum 99% og berjast fyrir efnahagslegu réttlæti og jafnrétti kynja óháð uppruna, réttindum hinsegin fólks, fatlaðs fólks, fólks á flótta og almennt styðja þá sem minna meiga sín.  Regnhlíf sósíalískt femínisma nær einnig yfir baráttuna fyrir náttúrunni og loftslaginu og að heimurinn fái að dafna án kapítalískrar eyðileggingar í skjóli friðar og jafnréttis.

Þá skal einnig vinna gegn ofsóknum og kynbundnu ofbeldi á heimsvísu og vinna gegn hvers kyns mansali svo sem vinnumansali, kynferðisþrælkun eða þvingaðri staðgöngumæðrun. 

Kynrænt sjálfstæði skal virt og skal fólk ekki þvingað til að ganga með barn, fara í þungunarrof eða ófrjósemisaðgerð.

Unnið skal gegn hatursorðræðu og staðið gegn hvers kyns útvíkkun á henni í íslenskum lögum. 

Þá sé tjáningarfrelsi og frelsi einstaklingsins í heiðri haft þar til það fer að meiða náungann en ávallt skal gæta að valdajafnvægi í opinberri orðræðu.  Þá skal einnig auka rétt og vernd uppljóstrara. 

Við sem ein af fullvalda þjóðum heimsins berum siðferðilega ábyrgð á mannréttindum í alþjóðlegu samhengi og eigum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að berjast fyrir þeim í víðu samhengi.

Móttöku flóttafólks skal sinna af alúð og veita fólki hraða og mannúðlega málsmeðferð.  Endurskoða þarf þau lög sem við störfum eftir svo sem þeim sem kveða á um svokölluð örugg ríki en  virða skal lög sem ríkið hefur sett sér þegar kemur að vernd barna og fólks í viðkvæmri stöðu.   

Þá þarf að eiga sér stað gagnkvæm aðlögun þ.e. móttökuríkið þarf einnig að aðlaga sig að fjölbreytileika, t.d. mismunandi trúar og hefða. Þá þarf ríkari áhersla að vera lögð á þvermenningu, samtali á milli ólíkra menningarheima innanlands.   

Þá skulu yfirvöld ekki eiga viðskipti við fyrirtæki sem brjóta á mannréttindum fólks hvar sem er í heiminum eða grunur liggi fyrir um slíkt.  Einnig skulu yfirvöld tjá sig opinberlega um hverskyns misrétti í alþjóðasamfélaginu til að undirstrika ábyrgð sína.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram