Tillaga um samveru- og sköpunartorg

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Tillaga sósíalístaflokks Íslands sem lögð verður fyrir næsta borgarstjórnarfund.

Lagt er til að borgin skapi rými innanhúss sem er opin samverustaður fyrir borgarbúa sem vilja koma saman og ræða sín á milli, þeim að kostnaðarlausu. Rýmið verði hugsað fyrir stóra hópa jafnt sem minni. Þeim sem koma í rýmið gefist færi á að snæða sinn eigin mat og lagt er til að boðið verði upp á kaffi- og vatnsaðstöðu og salernisaðstöðu. Vettvangurinn verði opin almenningi en lagt er til þess að rýmið mæti sérstaklega þörfum þeirra sem eru án atvinnu og gætu haft áhuga á því að setja fram hugmyndir til atvinnusköpunar með öðrum eða vilja einfaldlega vera í samskiptum við fólk í svipaðri stöðu.

Rýmið verði hugsað sem vettvangur fyrir samveru, hugmyndavinnu og staður fyrir þau sem vilja koma hugmyndum í framkvæmd. Mikilvægt er að þau sem vilja vinna að nýjum hugmyndum fái aðstöðu til slíks með nægu rými, fundarherbergjum og aðstöðu til símhringinga. Rýmið þarf að vera þannig að hópar fólks geti verið þar en að hægt sé að virða nálægðartakmarkanir sem eru í gildi hverju sinni vegna kórónuveirunnar. Á bókasöfnum borgarinnar geta hópar komið saman en slíkt er orðið erfiðara eftir því sem hóparnir stækka. Félagsmiðstöðvar og samfélagshús eru víðsvegar um borgina og stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk hefur unnið að tillögum um þróun félagsmiðstöðvanna.

Lagt er til að skoðað verði hvort að umrædd tillaga geti fallið að notkun samfélagshúsanna. Ef slíkt hentar ekki verði samveru- og sköpunartorginu fundinn annar staður. Menningar- og ferðamálasviði og velferðarsviði verði falið að útfæra efni tillögunar með öðrum innan borgarinnar, eftir því sem við á.

Greinargerð:

Orð eru til alls fyrst og það getur verið vandasamt fyrir fólk með lítið á milli handanna að finna sér stað til þess að mæla sér mót þegar hrinda á hugmyndum í framkvæmd. Það getur verið kostnaðarsamt að hittast á kaffihúsum fyrir þau sem hafa ekkert aukalega á milli handanna og þar að auki hefur kórónuveiran sett strik í reikninginn þar sem mörg rými innan borgarinnar henta ekki þegar passa á upp á nálægðartakmarkanir.

Almannarými gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau veita fólki færi á því að koma saman, tjá hugmyndir sínar í samtali við aðra og taka virkan þátt í því sem á sér stað í nærumhverfinu. Íbúar aðlaga sig nú að breyttum veruleika vegna kórónuveirunnar og fundarrými sem áður gátu tekið á móti t.d. tuttugu einstaklingum, taka nú á móti færri einstaklingum þar sem virða þarf nálægðartakmarkanir sem eru í gildi á hverjum tíma fyrir sig. Það má því segja að almannarýmin okkar sem eru innanhús geti ekki tekið á móti jafnmörgum og þau gátu áður tekið á móti. Þetta breytist reglulega eftir því sem nálægðatakmarkanir taka breytingum. Það er því mikilvægt að almannarými taki mið af þessu í náinni framtíð.

Fjarfundarbúnaður hefur nýst mörgum á síðustu mánuðum til þess að eiga í samskiptum við annað fólk en til þess þarf að hafa aðgang að tölvu eða snjallsíma og interneti og það á ekki við um öll heimili. Í þeirri stöðu sem nú ríkir í samfélaginu er mikilvægt að fólk sem er án atvinnu eða fólk sem vill eiga í samskiptum við annað fólk fái rými til þess. Árið 2009 kom Hafnarfjarðarbær í samvinnu við Vinnumálastofnun, verkalýðsfélög, skóla og Impru, á fót atvinnu- og þróunarsetri þar sem fólk var hvatt til þess að mæta, spjalla og taka þátt. Starfsemin var byggð upp í takt við þróun notandanna en þar var m.a. boðið upp á fyrirlestra og námskeið. Markmið Deiglunnar var að styðja við þau sem leituðu nýrra tækifæra í atvinnu og námi og einnig að vera miðstöð þeirra sem vildu bæta stöðu sína hvort sem fólk var án atvinnu eða ekki. Hægt er að líta til hugmynda Deiglunnar við útfærslu samveru- og sköpunartorgsins.

Fyrirhuguð stækkun Borgarbókasafnsins í Grófarhúsi og efling þjónustunar til að mæta þörfum ólíkra hópa, gæti að einhverju leyti þjónað þeim sem ofangreidd tillaga á að ná til. Það er talsverður tími í að slíkt verði að veruleika, þar sem stefnt er að því að opna endurbætt safn árið 2023 og því er lagt til að borgin leiti að hentugu rými fyrir samveru- og sköpunartorgið sem geti opnað sem fyrst. Lagt er til þess að framtíðarútfærsla samveru- og sköpunartorgsins verði síðan mótuð út frá komu fólksins sem þangað leitar.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram