Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar

Ritstjórn Tilkynning

Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar

Borgarstjórn samþykkir að fela viðeigandi sviðum innan borgarinnar að hefja nú þegar undirbúning að stofnun byggingarfélags Reykjavíkurborgar, sem hefur það að markmiði að byggja íbúðir fyrir þær manneskjur og fjölskyldur sem eru í mestum húsnæðisvanda. Markmið byggingarfélagsins verði að sjá um allt ferlið frá upphafi til enda og er umhverfis- og skipulagssviði falið að skoða hvernig megi útfæra slíkt, í samvinnu við velferðarsvið og fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar. Þar þarf að skoða innflutning byggingarefnis og möguleg magninnkaup sem standa þar til boða og útfæra hugmyndir um ráðningar í verkin. Hlutverk byggingarfélagsins verði að sjá um uppbyggingu íbúðanna á borgarlandi og leigja út íbúðirnar í óhagnaðardrifnum rekstri.

 

Greinargerð: 

Húsnæðiskreppa ríkir í borginni þar sem mikill skortur er á íbúðum, slíkt hefur sprengt upp leiguverð á almennum leigumarkaði og gerir manneskjum í húsnæðisvanda erfitt fyrir. Það er nauðsynlegt að borgin grípi inn í aðstæður af aukinni alvöru og sjái um að byggja fyrir borgarbúa sem eru í mestri neyð. Með uppbyggingu byggingarfélags Reykjavíkurborgar getur borgin skapað húsnæðisfélag sem er algjörlega aðskilið fyrirtækjum með gróðasjónarmið í huga. Eins og staðan er núna koma margir aðilar að uppbyggingu húsnæðis í borginni. Með því að koma hluta af uppbyggingunni og útleigunni beint inn á borð borgarinnar má fjarlægja þá milliliði sem leitast við að græða á húsnæðisuppbyggingu og útleigu íbúða út úr jöfnunni, sem skilar sér í lægra leiguverði fyrir borgarbúa. Það er nauðsynlegt að tryggja að nægar íbúðir séu í boði en húsnæðiskreppan grefur sífellt undan lífskjörum almennings, þó auðvitað mest hinna verst settu og það er á ábyrgð borgarinnar. Það er fullreynt að líta til markaðarins í von um að hann veiti lausn á vandanum. Við þurfum að koma félagslegum lausnum í framkvæmd og byggingarfélag Reykjavíkur yrði þar kröftug viðbót inn í húsnæðisuppbygginu á meðan unnið er að því að styrkja önnur óhagnaðardrifin leigufélög og styðja íbúðauppbyggingu á vegum verkalýðsfélaganna.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram