Eftirfarandi ályktun var samþykkt 19. október 2024 af öllum stjórnum Sósíalistaflokks Íslands
Sósíalistaflokkur Íslands fordæmir aðgerðar- og sinnuleysi íslenskra stjórnvalda á meðan Ísraelsríki fremur skipulagt þjóðarmorð í Palestínu og fremur fjöldamorð í Líbanon með fulltingi Bandaríkjanna. Almennir borgarar og börn eru svelt, skotin, sprengd og brennd lifandi á meðan vestræn stjórnvöld horfa á og aðhafast ekkert til að stöðva stríðsglæpina eins og þeim ber skylda til samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Með afstöðu sinni eru þau samsek. Við krefjumst þess að Ísland slíti stjórnmála- og viðskiptasambandi við Ísrael. Einnig krefjumst við þess að engin hergögn verði flutt til Ísraels um íslenska lögsögu. Íslensk stjórnvöld eiga sömuleiðis umsvifalaust að styðja málsókn Suður Afríku gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.