Guðmundur Hrafn Arngrímsson er oddviti Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi

Sósíalistaflokkur Íslands Tilkynning

Uppstillinganefnd Sósíalistaflokksins hefur tilnefnt Guðmund Hrafn Arngrímsson formann Leigjendasamtakanna sem oddvita fyrir framboð Sósíalista í Norðvesturkjördæmi.

Guðmundur Hrafn er fimm barna faðir ættaður úr Reykhólasveit og Árneshreppi á ströndum en alinn upp í Bolungarvík. Hann sótti framhaldsskólamenntun á Akranesi áður en hann fór út til Kaupmannahafnar til að nema landslagsarkitektúr. Undanfarin ár hefur Guðmundur unnið að mestu við torf- og grjóthleðslur ásamt ráðgjöf við landslagshönnun.

Frá árinu 2021 hefur hann verið formaður Leigjendasamtakanna og unnið þar ötullega við að vekja athygli á slæmum kjörum og aðstæðum leigjenda.

„Það er fullreynt með frjálshyggju við hagstjórn og skipulag samfélagsins. Burðarviðir þess grotna niður sem aldrei fyrr þar sem óöryggi, afkomuótti og örvænting mæta stórum hópi samborgara okkar í dagrenningu hvern einasta dag. Slíkt skapar langvinn og heilsuspillandi áföll fyrir fjölskylduna alla sem hefur í för með sér ýmsar erfiðar raunir sem hefta bæði frelsi og félagslega velferð hennar.

Sósíalistar hafa mótað framsækna og trúverðuga stefnu í öllum helstu hagsmunamálum almennings þar sem markmiðið er að skapa félagslegt, fjárhagslegt og menningarlegt réttlæti fyrir alla íbúa landsins. Við þurfum að tryggja að öryggi og velferð verði í öndvegi svo skapa megi heilbrigt og samheldið samfélag. Sósíalistar hafna því að ótti, sundrung, örbirgð eða hnignun verði veganestið inn í framtíðina eins og valdaflokkar í íslenskum stjórnmálum hafa unnið ötullega að meira og minna alla þessa öld.”

Guðmundur Hrafn segir það vera heiður að fá að vinna stefnu Sósíalista fylgi á sínum heimaslóðum í komandi alþingiskosningum. Hann segist þekkja kjördæmið vel og verið svo heppinn að hafa bæði unnið og átt aðsetur í fjölmörgum héruðum þess. Á meðal stærstu hagsmuna þess séu að velferðarþjónusta, mennta- og atvinnustefna, samgöngur, húsnæðismál og auðlindanýting mæti þörfum og kröfum íbúanna fyrir stöndug samfélög sem byggja á manngildi, jöfnuði og reisn einstaklinganna.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram