Verjum leikskólann fyrir gróðastarfsemi og einkahagsmunum
Frétt
06.01.2025
Sósíalistar setja á dagskrá umræðu um skaðsemi þess að stórfyrirtæki reki leikskóla á fyrsta fundi borgarstjórnar 2025.
Ekki er vanþörf á, enda á dagskrá líka tillaga sjálfstæðisflokks um að fella úr gildi reglur sem þó verja leikskólann fyrir sumum af þeim hættum sem hljótast af því þegar stórfyrirtækin eru komin inn á svið leikskólans, annað hvort beinlínis í hagnaðarskyni eða í þeim tilgangi að koma starfsmönnum sínum aftur í vinnu sem fyrst. Leikskólinn er jafnvel kallaður „daggæsla“ í tillögunni.
Kristín Dýrfjörð, leikskólakennari og dósent í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri skrifar um einkavæðingu leikskólakerfisins í Reykjavík, „borgarbúar eiga rétt á því að krefjast ábyrgðar og langtímahugsunar í stað einkavæðingar í skjóli skammgóðs vermis. Lausnin er ekki að afhenda menntun yngstu barna samfélagsins til einkaaðila. Lausnin er að verja og styrkja það kerfi sem byggt hefur verið upp á grunni réttlætis, jafnréttis og lýðræðis.“ Hún gagnrýnir stefnu Framsóknarflokksins í leikskólamálum, en flokkurinn hefur nú bæði borgarstjóra og formann skóla- og frístundaráðs úr sínum röðum.
Sósíalistar taka undir þá gagnrýni. Rétt er að brýna fyrir borgarfulltrúum hvernig þessi vegferð endar þar sem hún hefur fengið að renna sitt skeið.