Ályktun vegna 80 ára frá árásunum á Hiroshima og Nagasaki
Ályktun
11.08.2025

Sósíalistaflokkur Íslands minnist fórnarlamba kjarnorkusprengjuárásanna á Hiroshima og Nagasaki, þar sem hundruð þúsunda saklausra borgara voru myrt í skelfilegri tilraun til að sýna hernaðarlegt vald yfir heimsbyggðinni.
Þessar árásir, sem margir hernaðarfræðingar og sagnfræðingar hafa nú viðurkennt sem óþarfar í ljósi stöðu stríðsins, markaði upphaf þess tíma sem við lifum enn í dag: kjarnorkuvopnaaldarinnar. Tímabils þar sem örlög lífs á jörðinni eru í húfi þegar kemur að beinum hernaðarátökum stórvelda.
Við stöndum enn frammi fyrir sama heimsveldi, sömu hótunum.
Bandaríkin, sem réðust að Japan með kjarnorkuvopnum fyrir 80 árum, hafa áratugum saman haldið uppi heimsvaldastefnu sem byggist á vopnavaldi, refsiaðgerðum, valdaránum og efnahagslegri kúgun. Þeir sem hafna undirgefni, þau sem krefjast sjálfstæðis, friðar og velferðar eru beittir ofbeldi.
Bandaríkin beita reglulega efnahagslegum refsingum gegn ríkjum sem hallast að því að hafna samsekt í þjóðarmorði og hernámi. Þær þjóðir sem kjósa að styðja alþjóðalög og mannréttindi, sérstaklega þegar það beinist gegn bandamönnum Bandaríkjanna eins og Ísrael, eru dregnar til ábyrgðar, ekki með samtali, heldur með hótunum, tollum og útilokun. Eru þetta lýðræðisleg samskipti meðal þjóða? Nei. Þetta er ofbeldi og kúgun, heimsvaldastefna í verki: Refsing fyrir það að voga sér að nálgast það að hafna samsekt.
Það er bæði siðferðileg skylda og hagsmunamál fyrir Ísland að standa gegn þessu ofbeldi.
Heimur sem brotnar niður í sífellt harðnandi átök, hernaðaruppbyggingu, vanvirðingu við alþjóðalög og refsiaðgerðir gegn friðelskandi ríkjum er ekki bara ólýðræðislegur, hann er stórhættulegur.
Slík þróun leiðir til sífellt meiri stigmögnunar, þar sem kjarnorkuvopn eru raunverulega í spilinu. Í slíkum heimi mun Ísland ekki standa utan við afleiðingarnar.
Fæðuöryggi, viðskipti, lýðræði og velferð – allt getur tapast ef óstöðugleiki og eyðilegging fær að breiðast út.
Þess vegna krefjumst við, Sósíalistaflokkur Íslands, að íslensk stjórnvöld:
- Minnist fórnarlamba Hiroshima og Nagasaki opinberlega og fordæmi notkun og tilvist kjarnorkuvopna.
- Styðji málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael og viðurkenni þjóðarmorð Ísraels gegn Palestínu.
- Rjúfi öll efnahagsleg tengsl við Ísrael og banni viðskipti við fyrirtæki sem hagnast á hernámi og aðskilnaðarstefnu.
- Beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn landránsnýlendunni Ísrael og efli viðskipti og samskipti við palestínsku þjóðina.
- Endurskoði veru Íslands í NATO og hafni viðveru bandaríkjahers á Íslandi.
- Beiti sér á mun öflugri hátt fyrir afvopnunar samningum á alþjóðavettvangi.
- Auki samskipti og samstarf við ríki sem standa vörð um fjölpóla heim byggðan á virðingu, samvinnu og alþjóðalögum.
Við höfum áður staðið gegn stórveldum. Við höfum áður staðið vörð um fullveldi okkar. Við getum gert það aftur.
Það er ekki bara hægt, það er nauðsynlegt.
Ísland á ekki að lúta valdi heimsvelda. Ísland á að standa með friði, með réttlæti, með lífinu sjálfu.
Sósíalistaflokkur Íslands