Tilnefnum Francescu Albanese til Friðarverðlauna Nóbels
Ályktun
20.08.2025

Sósíalistaflokkur Íslands hvetur ríkisstjórnina og meðlimi Alþingis til að tilnefna Francescu Albanese, sérstakan talsmann Sameinuðu þjóðanna um málefni Palestínu, til Friðarverðlauna Nóbels.
Francesca Albanese hefur af hugrekki, heiðarleika og staðfestu verið rödd palestínsku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi á sama tíma og þjóðarmorð Ísraelsríkis á palestínsku þjóðinni heldur áfram óáreitt. Landrán Ísraels í Palestínu heldur áfram, ólöglegar byggðir stækka dag frá degi, og fjöldamorð á börnum, konum og öldruðum eru daglegt brauð.
Þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir slíkum glæpum gegn mannkyninu er lágmark að heiðra þá sem hafa kjark til að segja sannleikann og verja rétt fórnarlambanna. Francesca Albanese er ein af fáum alþjóðlegum embættismönnum sem hefur ekki látið þagga niður í sér, heldur talað af hreinskilni gegn landráni, hernámi og þjóðarmorði. Fyrir það hefur hún orðið skotmark stöðugra árása: viðskiptaþvingana, rangfærslna og pólitískra ofsókna – einkum af hálfu Bandaríkjastjórnar – auk fjölmiðlaárása sem miða að því að grafa undan trúverðugleika hennar. Þrátt fyrir þetta stendur hún óbifanleg með réttlæti.
Mörg ríki Evrópusambandsins eru ekki aðeins meðvirk heldur beita sér af fullum þunga fyrir áframhaldandi þjóðarmorði með því að vopna og fjármagna landránsnýlenduna Ísrael. Samsekt þeirra gengur langt út fyrir þögnina: þau eru sjálf gerendur í þessum heimssögulega glæp gegn mannkyninu.
Núverandi ríkisstjórn Íslands, líkt og síðasta ríkisstjórn, reynist samsek og eykur þá samsekt með hverjum degi sem hún beitir sér ekki af fullum þunga gegn þjóðarmorðinu og svívirðilegum brotum á alþjóðalögum og mannréttindum. Með aðgerðaleysi og undirgefni við sömu ríki sem halda uppi þjóðarmorðinu gerir hún Ísland samsekt þessum glæpum.
Saga okkar minnir okkur á hve mikilvægt það er að standa með sannleikanum og með þeim sem þora að tjá hann þegar mest á reynir. Árið 1934 var rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dæmdur í Hæstarétti Íslands fyrir að segja að Hitler væri sadisti. Í dag sjáum við hliðstæður þegar þeir sem gagnrýna Ísrael og vestræna samsekt við þjóðarmorð eru ofsóttir.
Francesca Albanese hefur þó staðið óhrædd upp og tjáð sannleikann, þrátt fyrir stöðugar árásir og tilraunir til að þagga niður í henni. Það er skylda okkar að styðja slíka hugrekki og veita þeim sem þora að segja sannleikann þann heiður og þann styrk sem Friðarverðlaun Nóbels geta falið í sér.
Sósíalistaflokkur Íslands skorar því á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að tilnefna Francescu Albanese til Friðarverðlauna Nóbels fyrir ómetanlegt starf í þágu friðar, réttlætis og mannréttinda palestínsku þjóðarinnar. Baráttu sem er ekki aðeins fyrir Palestínu heldur fyrir grundvallargildum mennskunnar, fyrir samúð, réttlæti og heimi þar sem líf alls fólks er virt. Langt er í land hvað það varðar að alþjóðasamfélagið endurspegli þau gildi raunverulega, en Francesca Albanese stendur sem skýrt leiðarljós í myrkrinu.
Sósíalistaflokkur Íslands