Það er skítlétt að bulla um sósíalisma
Pistill
18.06.2017
Pawel Bartoszek, þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Viðreisn, birtir í dag krítik á hugsjón sósíalismans. Hann segir að það sé nokkuð almenn regla að ef „formlegt nafn ríkis inniheldur sósíalisma“, þá sé ríkið „alræðisríki“. Þess vegna sé hætt við að sósíalismi geti virkað sem alræðisstefna.
Viskuna í þessari rökfærslu má heimfæra á „lýðræði“ og „lýðveldi“ líka, enda er undantekningarlaust að lönd sem kalla sig „demókratíska repúblík“ séu harðstjórnir. Það er fljótséð að þetta er bara misnotkun orða, ekki stjórnfarsfræðileg flokkun.
Pawel ætti auðvitað að vita að Orwellsk orðanotkun fylgir alræði eins og púðluhundur fylgir þjálfara sínum — en það breytir ekki merkingu orðanna. Þingmaðurinn knái kallar það „hringrök“ að „sósíalismi í alræðisríkjum hættir að vera sósíalismi“, en það eru ekki hringrök, heldur orðanna merking. Svo vitnað sé í Orwell sjálfan: „Sósíalismi þýðir stéttlaust samfélag.“ Eins og hann vissi vel, og Pawel veit væntanlega líka, þá er hreint ekki hægt að segja um alræðisríki austan tjalds eða vestan að þau hafi verið stéttlaus. Stjórnendur þeirra, eins og stjórnendur í „demókratískri repúblík“, eru andlýðræðisleg klíka – ekki jafnaðarmenn.
Sannleikskornið í þessu vafstri er að ef fáir menn eiga alla hluti, þá er alræði á næsta leiti. Þetta mætti kalla kollektívisma, og Pawel myndi vafalítið tengja hann við Sovétríkin og kumpána þeirra. Það sem honum (og flestum frjálshyggjumönnum) yfirsést er að þessháttar fámenn eignastétt þarf ekki að vera staðsett í ríkinu – hún getur líka verið fámennur hópur einkaaðila. Með auknum ójöfnuði er þetta einmitt að verða staðreynd í kapítalískum löndum.
Hvað svosem orðanotkun líður, þá er lausnin í öllum þessum tilfellum aukið lýðræði yfir efnahag samfélagsins. Fámennisklíkur eru vondar, sama undir hvaða hugmyndafræðilegu blæju þær fela sig. Með því að efla stjórnun almennings – ekki flokka eða fyrirtækja – á driffjöðrum efnahagsins, þá er mögulegt að fyrirtæki, bankar og sameiginlegir sjóðir fari að vinna í okkar þágu. Þetta er hið raunverulega deiluefni. Pawel er líklegur til að andmæla lýðræði hér, eða láta einsog markaðurinn sé fullkomnara lýðræði en nokkuð annað. En í heimi misskiptingar er glapræði að byggja samfélag á reglunni „ein króna – eitt atkvæði“. Við þurfum meira lýðræði – jafnvel meira en Pawel er tilbúinn að gefa okkur.
Benjamín Julian
Grein Pawels:
http://pawel.is/2017/06/17/skitlett-ad-samraema-sosialisma-og-alraedi/