Jan Myrdal níræður: Einhver verður að stökkva fyrir borð

Jan Myrdal – þýðing: María Kristjánsdóttir Pistill

„Maður á ekki að láta hræða sig til heimsku og hlýðni. Hvers virði er lífið þá? Það er eins og að fremja sjálfsmorð af ótta við dauðann.“ Þetta ritaði eitt sinn einn fremsti og afkastamesti rithöfundur Norðurlanda, Jan Myrdal. Hann varð níræður í gær og haldið var upp á það með lofsöngvum og níði. Ég kynntist honum fyrst sem pistlahöfundi í Aftonbladet á sjöunda áratugnum. Þar birtist þessi pistil, sem er langt í frá að vera hans allrabesti, en er auðveldur í þýðingu og lýsir vel pólitískri afstöðu hans.

María Kristjánsdóttir

Þrælaskipið eftir J.M.W. Turner, 1840

EINHVER VERÐUR AÐ STÖKKVA FYRIR BORÐ

Þarna sérðu smábónda. Hann plægir. Jörðin hans er lítil. Erfiðið mikið og framleiðni lág. Sem sagt við tökum hann og hagræðum. Þá sérðu atvinnuleysingja. Hann vinnur ekki. Hann neytir bara. Það er arðsamt.

Hérna hugsum við upp bíl. Hann er velsmíðaður. Hann ryðgar ekki. Það er auðvelt að gera við hann. Svona bíla framleiðum við ekki. Þeir ógna velferðinni. Við setjum því of litla legu hérna og komum ryðguðum bletti fyrir þarna. Þá eyðileggur bíllinn sig sjálfur á nokkrum árum. Það eykur velferðina. Það er arðsamt.

Ósköp venjulegur maður, Jón Jónsson, sér stríðið í Vietnam í sjónvarpinu. Hann verður æstur. Borgir og þorp eru lögð í rúst. Risastórar flugvélar varpa dauða yfir þjóðina. Jón Jónsson segir : Eyðilegging! Það sýnir að Jón Jónsson skilur ekki alþjóðahagfræði. Því þetta stríð þarf vopn. Miljónir manna fá atvinnu, hjólin snúast, það rýkur úr skorsteinunum, vörurnar stíga í verði. Stríð er arðsamt.

Setjum sem svo að þú sért nýorðinn fimmtugur og standir við rennibekkinn þinn. Þá sérðu að það er horft á þig gegnum litlu rúðuna á hurðinni. Þá veistu hvað klukkan slær. Þú ert ekki arðsamur þarna sem þú stendur. Þú stuðlar ekki að hagvexti fyrr en búið er að segja þér upp.

Það er jú dáldið leiðinlegt að verða fimmtíu og einskis virði. Farirðu á taugum útaf því, gerir það ekkert til. Þá færðu pillur. Étirðu mikið af pillum þá styrkirðu lyfjaiðnaðinn.

Þú mátt samt sem áður ekki verða svo þunglyndur að þú hengir þig. Þá minnkar neyslan. Við lifum jú í neyslusamfélagi. Það er skylda þín að neyta eins lengi og þú ert látinn hafa peninga til að eyða.

Það væri auðvitað hægt að skipuleggja samfélagið öðruvísi. En það væri ekki arðsamt. Og ef þú efast um arðemi þá efastu um grundvallarhugsun þjóðfélagsins. Það er hættulegt. Þá getur sonur þinn aldrei orðið lögga.

Við sitjum öll í sama báti. Það hefur þér oft verið sagt. Þú ættir að muna það. Nú er báturinn farinn að leka (Og það ekki bara í Svíþjóð heldur öllum heiminum). Þá segir atvinnurekandinn:

‒ Sjáið báturinn er farinn að leka.

Alvarlegu möppudýrin segja:

‒ Einhver verður að stökkva fyrir borð!

Þá horfa þeir allir á þig, Jón Jónsson. Og þú ert jú góður og sýnir ávallt hollustu, Jón, svo að þú hoppar fyrir borð og syndir í burt í myrkrinu.

Svo hoppar hver á fætur öðrum. Það er hrópað frá báti til báts:

‒ Einhver verður að stökkva fyrir borð! Og það er alveg rétt því bátarnir leka.

En einmitt þá fer einn Jón Jónssonurinn að grufla. Afhverju er það bara hann sem á að stökkva? Og hann segir við félaga sína:

‒ Af hverju erum það alltaf við sem erum „einhver“?

Og svo henda þeir atvinnurekandanum og möppudýrunum fyrir borð og róa bátnum í land. Þar plægja þeir akrana. Þar smíða þeir bíla með legum af réttri stærð og án innbyggðra ryðbletta. Þar eru þeir þeirrar skoðunar að það sé hagkvæmara að framleiða en að framleiða ekki.

Það er hræðilega ljótt. Það er kallað bylting og sósalismi og ógnun við frelsið og skortur á hollustu við samfélagið.

En það má nú alténd hugleiða það.

Jan Myrdal

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram