Annað opið bréf til íslensku hægrimanneskjunnar
Pistill
16.10.2017
Kæri hægri maður.
Ég vil ekki verða of persónulegur en ég veit nákvæmlega hvað þú ert að ganga í gegnum. Án þess að láta allt snúast um sjálfan mig finn ég mig knúinn til að segja þér að eitt sinn var ég í þínum sporum. Nei, ég trúði ekki á kapítalismann. Ég las fyrst um hann í Kommúnistaávarpinu. En ég veit hvernig það er að halda tryggð við eitthvað sem manni er kennt að elska meir en sjálfan sig og treysta betur en sjálfum skilningarvitum sínum. Eitthvað sem þér verður enn meira annt um í hvert sinn sem einhver segir þér að það sé vitleysa. Og nei, ég er ekki heldur að tala um kommúnisma. En við skulum tala aðeins um kommúnisma.
Veistu hver orti orðin: „Sovét-Ísland, óskalandið“? Jóhannes úr Kötlum. Nóbelskáldið var sama sinnis. Viti bornir og heiðvirðir listamenn vildu að Ísland yrði að ráðstjórnarríki. Þeir neyddust til að éta þetta ofan í sig. Ekki af því að sósíalismi sé ómögulegur heldur af því að tilraunir til þess að koma honum á ofan frá verða alltaf að Stalínisma. Vinstri menn neyddust til að kyngja þeim lærdómi sögunnar að tilgangurinn helgar ekki hvaða helvítis meðal sem er. Að tré sem búið er að hefla niður í kylfu muni aldrei bera lauf. Þeir neyddust til að ganga í gegnum siðbót.
Og nú er komið að ykkur.
Ég veit að þetta er ekki skemmtilegt. Þú hefur staðið vaktina árum saman. Þú hefur borið blak af bláa fuglinum og fengið margan marblettinn fyrir. Smám saman flúraðist hann á hjartað í þér af því að þið genguð í gegnum þetta saman. Svo áttu auðvitað líka vini sem kjósa það sama og þú og saman eruð þið varðlið. Það eru ekki stefnumálin sem halda þér föstum. Það er samsömunin. Það er gott að tilheyra einhverju. Ég tengi svo sannarlega við það. Ég stóð fastur í svipaðri bjarnargildru. Nú stend ég utan við hana. Hvað þarftu að gera til að losa þig? Það sama og ég gerði.
Þú þarft að deyja.
Ekki bókstaflegum, líkamlegum dauða. Sá sem þarf að deyja er ekki hinn raunverulegi þú heldur égið í hausnum á þér; sjálfsmyndin sem þú skapaðir þér í kringum það að vera hægri manneskja. Þú þarft ekkert að réttlæta. Ég veit alveg að það voru góðar ástæður fyrir því að þú valdir þér það hlutverk að verja óverjanlegan málstað. Það er eitthvað rosalega heillandi við að geta litið á sjálfan sig sem hafinn yfir tilfinningasemi. Sem mannvél sem horfir hiklaust framan í miskunnarleysi veruleikans og er óhræddur við að taka rökrétta afstöðu, alveg sama hversu kuldalega hún hljómar. „Svona er þetta bara,“ segirðu við grenjuskjóðurnar sem finnst allt svo ranglátt og hafa ekki hreðjarnar í að þroskast upp úr draumórum sínum.
Þess vegna gastu ekki sleppt. Hver ertu eiginlega ef þú hættir að vera hægri sinnaður? Það er eins órjúfanlegur hluti af þér og sígarettan í hönd Bill Hicks, viskíflaskan í hönd Janis Joplin eða yfirvaraskeggið á Tom Selleck. Ég skal samt segja þér leyndarmál; Hicks hætti að reykja, Janis drap sig á drykkju og Selleck kom skegglaus eins og stráklingur fram í Friends-þætti. Ætlarðu að vera staðfastur eins og Janis Joplin? Deyja fyrir klúbbinn? Ég myndi segja þér að það væri þitt mál en það væri ekki alveg satt. Þín viskíflaska dregur nefnilega okkur hin öll niður líka. Þannig að við skulum komast í gegnum þetta í sameiningu. Þú ert meira virði en þetta. Þú ert hluti af fjölskyldunni.
„Sokkinn kostnaður“ er „óafturkræfur kostnaður“ og það liggur til grundvallar sálfræðilegri skilgreiningu á verulega skaðlegu hugarmeini. Rökvillan um sokkinn kostnað (e. the sunk cost fallacy) býður upp á innihaldsríka skýringu á því hvers vegna erfitt er að gefast upp á glötuðum málstað. Þvi meira sem maður fórnar í þágu málstaðar (af peningum, orku eða jafnvel trúverðugleika) því ákveðnari verður maður í að styðja þann málstað. Fórnirnar sem maður lét af hendi verða að hafa haft einhverja þýðingu. Maður getur ekki horfst í augu við að hafa látið glepjast. Egó-kostnaðurinn er of mikill. Maður einblínir á tálsýnina og drottinn sjálfur á hvítum hesti gæti ekki skorið mann lausan með logandi brandi. Égið í hausnum situr fast. Þess vegna þarf það að deyja. Til að þú getir lifað frjáls.
Að skipta vondri lífsspeki út fyrir góða eftir langan tíma jafngildir ekki því að viðurkenna að hafa verið heimskur. Það er ekki merki um ístöðuleysi eða vingulshátt. Þvert á móti þarf mikinn skapgerðarstyrk til að horfast í augu við sannleikann. Að kyngja honum sama hvernig hann bragðast.
Ef þetta er of erfitt að gera opinberlega þá er ég með góðar fréttir handa þér: kosningar á Íslandi eru leynilegar. Þú þarft ekki einu sinni að lýsa því yfir við alla sem þú þekkir að þú sért hættur að exa við D og liggja svo undir ákúrum. Þú getur talað digurbarkalega um að Bjarni Ben hafi ekki gert neitt rangt og að Hannes Hólmsteinn sé misskilinn snillingur, alla leið inn í kjörklefann. Dregið svo bara rosa vel fyrir. Ég er ekkert að ljúga þegar ég segi þér að ég hafi gengið í gegnum þetta sama. En þú hefur það í raun mikið betra en ég. Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei komast að því ef þú svíkur lit bak við tjaldið. Sá sem ég gaf upp á bátinn sér víst alla hluti.
Símon Vestarr