Benjamín Júlían: Ótrúlegt að Íslendingar láti leiða sig svona langt
16.04.2018
—Hin Reykjavík
„Ég ólst upp á samvinnureknum sveitabæ í uppsveitunum, hjá pabba mínum. Ég lærði að búa til ost, og auk þess helstu búverkin. Ég hef búið í Reykjavík síðan ég kláraði menntaskóla.
Mér hefur alltaf liðið best þar sem fólk hefur sjálft stjórn á sínu umhverfi, þar sem ég má taka þátt í að móta daglega lífið. Af einhverjum ástæðum, sennilega einmitt þessvegna, hef ég leitað uppi aðstæður þar sem fólk hefur verið svipt þessu sjálfræði. Fyrir nokkrum árum eyddi ég vorinu á grískri eyju þar sem Evrópusambandið hélt flóttafólki föstu. Þau voru öll að bíða eftir pappírum, eftir skráningu sem aldrei kom. Hvorki útlendingarnir né heimamennirnir fengu að ráða neinu um þetta. Sökudólgarnir voru langt í burtu, svo þeir tóku það út hvor á öðrum.
Á Íslandi hef ég tekið eftir þessu sama valdaleysi á mörgum stöðum. Fólki er haldið í vondum félagsíbúðum, í örbirgð, í endalausu skriffinnskustríði. Og enginn tekur ábyrgð, heldur er alltaf bent á einhverjar reglur og sagt að það sé ómögulegt að breyta og bæta. Eða, það sem verra er, fólki er endalaust sagt að bíða og þau fá aldrei að tjá sína skoðun. Svo þegar svarið kemur, boð um íbúð frá Félagsbústöðum, eða félagsráðgjöfin, eða svarið við hælisumsókninni, þá er það auðvitað út úr kú, því manneskjan var ekki partur af ákvörðuninni. Fólk sem hefur sett lífið sitt í lúkur íslenskra stofnana þekkir þetta betur en þau myndu vilja.
Í Grikklandi finnst mér eins og ég hafi séð ofan í hyldýpi, spákúlu um það hversu hryllilega er hægt að brjóta niður samfélag með svona aðferðum. Ég stóð einu sinni í ráðhúsi eyjunnar þegar var verið að funda um flóttamennina. Þeir höfðu verið fangelsaðir í gamalli endurvinnslustöð stuttu áður. Nokkur hundruð heimamenn stóðu fyrir utan í miklum skapofsa. Þau réðust á fjölmiðlafólkið sem var að skemma ímynd eyjunnar, á hjálparstarfsmenn sem gáfu flóttamönnum athygli en ekki þeim, á pólitíkusana sem virtist þykja vænna um útlendinga en heimamenn. Ég hafði tekið og birt viðtöl við flóttafólkið í fangelsinu, og hafði ekki uppskorið miklar vinsældir meðal heimamanna fyrir vikið. Þetta sverti ímynd eyjunnar, og ferðamannaiðnaðurinn var ónýtur. Svo mér var ráðlagt að láta mig hverfa.
Það er ekkert grín að taka völd af fólki, að niðurlægja sjálfræði almennings svona. Ég held að stjórnmál sem hunsa virðingu og velferð fólks séu að leika sér að eldinum. Það er harla ótrúlegt að Íslendingar láti leiða sig svona langt, en það sögðu Grikkir svo sem líka áður en þeir lentu í þessu.“
Benjamín Júlían er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins