Erna Hlín: Öruggt heimili er grunnurinn að mannsæmandi lífi

Hin Reykjavík

13. Erna Hlín Einarsdóttir
Hin Reykjavík

„Margir nákomnir mér hafa veikst og orðið fyrir annars konar áföllum og sumir orðið öryrkjar. Mér svíður að sjá hvernig fólk lendir þá nánast sjálfkrafa í fátæktargildru.

Sjálf hef ég ekki upplifað sára fátækt á eigin skinni en oft höfum við verið blönk og þurft að fresta læknisheimsóknum eða setja heimilisbókhaldið í uppnám, til dæmis þegar bíllinn hefur þurft á viðgerð að halda. Við höfum þó alltaf getað hagað fjármálunum þannig að við höfum séð fram úr þeim. Í dag eigum við í okkur og á en ekki mikið meira en það.

Sem betur fer erum við með trygga leigu og erum ekki á valdi fjárfesta. Reynslan hefur sýnt mér að það er mikilvægara en flest annað að búa við húsnæðisöryggi og það ætti að eiga við um alla. Að eiga sér öruggt heimili er grunnurinn að mannsæmandi lífi.

Ég er 38 ára, gift og á tvö börn á grunnskólaaldri. Lengst af vorum við hjónin í alls konar þjónustustörfum en til að láta enda ná saman þurftum við að vinna allt of mikið. Fyrir nokkrum árum ákváðum við því að auka við okkur menntun til að reyna að bæta kjör okkar og lukum viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Þrátt fyrir það er ég ekki langt frá lágmarkslaunum í þjónustuverinu þar sem ég vinn. Maðurinn minn er þó sem betur fer í betur launuðu starfi, enda hvíla himinháar námsskuldir á okkur. Það er þó spurning hvort menntunin muni á endanum borga sig fyrir okkur fjárhagslega.

Ég hef alltaf haft ríka réttlætiskennd og aldrei skilið að fólk geti stutt stefnu hægri aflanna.

Það vakti því athygli mína fyrir tæpu ári þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður. Ég skráði mig í flokkinn og vildi taka þátt í að berjast gegn auðvaldinu sem er markvisst að svelta og brjóta niður velferðarkerfið og aðrar stoðir samfélagsins.

Fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að veikjast eða falla af vinnumarkaði. Allir eiga rétt á öflugri og réttlátri grunnþjónustu og getað lifað með reisn án þess að hafa stöðugar fjárhagsáhyggjur. Sonur okkar er í greiningarferli og við finnum að í kerfinu eru allir af vilja gerðir en það skortir úrræði, lausnir og augljóslega meira fjármagn inn í þá þjónustu, eins og svo víða í velferðarkerfinu. Við höfum því neyðst til að leita til einkaaðila og greiða háar fjárhæðir fyrir. Þannig kerfi er bæði óréttlátt og gagnast helst þeim sem eiga fullt af peningum. Það fólk hefur efni á að borga og græðir svo líka á einkavæðingu samfélagsstoðanna sem byggir auðvitað ekki á neinu öðru en arðráni.

Það er fleira sem snýr að börnum sem er ekki í lagi hjá okkur í Reykjavík. Mér finnst mín börn til dæmis ekki hafa jöfn tækifæri til tómstunda og þau sem eiga efnameiri foreldra. Ég upplifði það líka sjálf sem krakki, langaði svo mikið að æfa fimleika og læra á píanó en mamma var einstæð móðir og hafði annað og mikilvægara að gera við peningana. Fyrir 20 árum eða svo var mörkuð sú stefna að tryggja öllum börnum fjölbreyttar tómstundir sem var ekki síst hugsað sem forvarnir til að sporna við vaxandi áfengis- og vímuefnaneyslu. Ég velti því fyrir mér hvað varð um þá stefnu þar sem núverandi fyrirkomulag þjónar engan veginn tilgangi sínum.

Ég hef alltaf litið svo á að það sé borgaraleg skylda mín að kjósa þó að stundum hafi ég verið með óbragð í munni. Núna verður tilfinningin öðruvísi því að ég mun geta greitt atkvæði af fullri og einlægri sannfæringu.“

Erna Hlín Einarsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík.#valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram