Pálína: Kerfin mega ekki lama fólk í fátæktargildru

Hin Reykjavík

18. Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir
Hin Reykjavík
„Ég fæddist í Reykjavík en ólst upp með mömmu á flakki um landið, en þegar ég fór í grunnskóla lentum við á Borgarfirði. Við bjuggum þar alla mína grunnskólagöngu. Að henni lokinni, eftir eitt ár í fjölbraut á Akranesi, flutti ég í bæinn og fór að vinna hér og þar. Árið 2003 eignaðist ég dóttur og þegar hún fékk pláss hjá dagmömmu byrjaði ég í Tækniskólanum.
 
Ég hef nokkrum sinnum sótt nám en það kemur alltaf eitthvað upp á. Ég hef þurft að hætta út af peningum, en svo hef ég líka lifað við endalaust óöryggi í húsnæðismálum. Það var alltaf verið að selja ofan af mér eða eigendurnir að koma heim frá útlöndum og þessháttar. Ég hef flutt fáránlega oft, fjórtán sinnum frá því eldri dóttir mín fæddist.
 
Árið 2007 fór ég á biðlista hjá Félagsbústöðum. Ég hafði ekki vitað að ég hefði rétt á því, en þarna var ég komin með tvær dætur og var atvinnulaus og mér var bent á þetta. En fyrst um sinn gerðist ekkert á þeim bænum.
 
Ég prófaði að búa erlendis í hálft ár, en þá var leigumarkaðurinn að springa í Reykjavík. Þegar ég kom til baka sá ég þann kost vænstan að flytja á Patreksfjörð, þar sem ég gat leigt heilt hús á hundrað þúsund krónur á mánuði. Eftir eitt ár fluttum við aftur í bæinn, en í febrúar í fyrra bugaðist ég andlega. Það var mikið álag í fjölskyldunni, ég var komin í algert þrot og var óvinnufær. Starfsendurhæfingin gaf mér skjól til að fókusera á að koma hlutum heima í lag.
 
Eftir litla níu ára bið tókst mér svo loks að fá félagslega íbúð í fyrra, eftir að hafa fengið meðmæli frá stofnunum og sálfræðingi og hvað eina. Þvílíkur munur! Það er miklu meiri ró yfir manni, ég get planað framtíðina. Mig langar að fara í háskólanám og verða eitthvað, sem er loksins raunhæfur möguleiki.
 
Fyrir dætur mínar er þetta líka allt annað líf, að geta loks átt heimili. Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég hef mitt eigið svefnherbergi í Reykjavík í mörg ár. Áður svaf ég í stofunni, enda er ekki á færi einstæðrar móður að leigja margra herbergja íbúðir á frjálsum markaði.
 
Ég kláraði starfsendurhæfinguna í mars og vinn núna hjá garðþjónustu. Það var gott að fá speis til að vinna úr mínum málum. Ef ég hefði endað á Tryggingastofnun veit ég ekki hvernig það hefði farið, það kerfi er rosalega erfitt. Það hjálpar manni ekki að ná andlegum bata.
 
Það erfiðasta í þessum kerfum er að enginn segir þér hverju þú átt rétt á. Þegar þú ert í þessari stöðu, oft í andlegum vanda, áttu nógu erfitt með að fara á fætur og fá þér að borða, hvað þá að lesa reglugerðir og lög um kerfið sem þú ert háður. Þessi kerfi þurfa að vera aðgengilegri og mannlegri. Þau mega ekki lama fólk í fátæktargildru.
 
Allir verða að geta haft það gott án þess að vera háðir ölmusu frá Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd. Það er lykilatriði að við fáum öll húsnæði á viðráðanlegu verði. Og þar sem ég hef unnið mikið við umönnunarstörf segi ég frá hjartarótum: kvennastéttir þurfa laun við hæfi.“
 
Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík #valdiðtilfólksins

Kjósið Sósíalistaflokkinn

Stefna

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram