Haukur: Láglaunafólk má búa við gríðarlega skattbyrði
01.05.2018
—
46. Haukur Arnþórsson
Hin Reykjavík
Hin Reykjavík
„Ég er í liði Sósíalistaflokksins til þess að styðja unga fólkið og framtíðina. Við Íslendingar höfum gengið of langt í átt til nýfrjálshyggju og óhefts markaðsbúskapar og því fylgir mikil og vaxandi misskipting. Við þurfum að skipta þjóðarkökunni öðru vísi en nú er gert. Við þurfum að gera láglaunafólki, erlendu vinnuafli, öldruðum og öryrkjum og öllum öðrum sem standa veikt mögulegt að lifa innihaldsríku lífi. Til þess þarf að færa miðju stjórnmálanna til vinstri, við þurfum raunveruleg félagsleg úrræði og rödd þessa fólks þarf að heyrast alls staðar; í stjórnmálum, í verkalýðshreyfingunni, í félaga- og hagsmunasamtökum og í fjölmiðlum.
Ég kom að norðan haustið 1974 með aleiguna í sjópoka. Ég þekki aðstöðuna sem unga fólkið er í hér á höfuðborgarsvæðinu, fólksins af landsbyggðinni og erlenda vinnuaflsins sem kemur hingað til vinnu og náms. Áður en Breiðholtið kom til var fátækt fólk og landsbyggðarfólkið nánast í mansalsaðstöðu gagnvart leigusölum og greiddi ofurleigu fyrir að búa í lekum risherbergjum, köldum kjöllurum eða miðstöðvarkompum. Og nú er staðan aftur orðin svipuð eins og nýleg skýrsla ReykjavíkurAkademíunnar um óleyfisbúsetu sýnir glöggt. Höfuðborgin hefur skyldum að gegna gagnvart þeim sem hingað koma og hér búa – meiri skyldum en nokkurt annað sveitarfélag – og hún getur ekki vísað gestum á „fyrstu íbúð“ fyrir 70 milljónir eins og nú er gert – eða leiguhúsnæði sem kostar svipað og mánaðarlaun á vinnumarkaði.
Ég legg því megináherslu á að laga húsnæðismálin, einkum að byggja yfir ungt fólk íbúðir í séreign í einhver konar félagsbústaðakerfi – og þá á ég við not-for-profit kerfi svipað og gert var í Breiðholtinu. Lánsféð er til staðar, en lífeyrissjóðirnir eru með sífellt meira fé milli handanna sem ávaxta þarf til langs tíma, jafnvel er talað um fyrirsjáanlegt offramboð á lánsfé. Séreign segi ég, ekki bara vegna þess að það kostar svipað að greiða af háu láni og að borga leigu, heldur einkum vegna þess að sá sem á ekki steinsteypu á Íslandi á sennilega ekkert – þar sem krónan er fallvaltur gjaldmiðill. Í þessu efni vísa ég til þess sem gerðist í hruninu; þeir sem áttu eignir í öðru formi misstu þær í flestum tilvikum, til dæmis gamla fólkið.
Láglaunafólk má búa við gríðarlega skattbyrði; þeir sem eru með 250-600 þús. (667 þús. eru meðallaun) greiða oft með jaðarsköttum 60-70-80% skatt af viðbótartekjum. Þetta eru ofurskattar sem hvergi sjást á Vesturlöndum nema á ofurlaun – og hægri öflin sjá rautt þegar svona skatthlutföll eru nefnd. En þessir skattar eru samt staðreynd fyrir láglaunafólk hverjir sem eru við völd og það er rétt eins og stjórnmálamenn, verkalýðsforystan og forystumenn félags- og hagsmunasamtaka viti þetta ekki; viljandi óviljandi eða sjái þetta ekki vegna aðstöðumunar. Láglaunafólk eru burðarásinn í greiðslu tekjuskatts og það verður erfitt að vinda ofan af þessu. Ég hef sett fram þá tillögu að jöfnuður verði tryggður í skattkerfinu, en ekki í félagsmálapökkunum eins og nú er – það er forsenda þess að jaðarskattar og skerðingar hverfi og að viðbótartekjur hvers og eins í láglaunahópunum renni í þeirra vasa. Þessir háu skattar hafa letjandi áhrif á metnað og framþróun starfsferils láglaunafólks því það er í fátæktargildru. Þetta ástand getur líka leitt til uppgjafar fólks eins og sífellt fleiri dæmi sanna.
Ég styð norræna þingræðiskerfið okkar, lýðræðið og mannréttindin og tel að við búum að mörgu leyti við góða reglusetningu. Um framkvæmdina koma hins vegar oftar upp álitamál. Ég lít svo á að við höfum fengið flest okkar mikilvægustu réttindi erlendis frá – með frelsishreyfingum, í stjórnarskrám, fordæmum og nú síðast með reglusetningu ESB og með alþjóðlegum samningum og skuldbindingum – og í gegnum alþjóðlega dómstóla. Af þessu leiðir að ég hafna þjóðernishyggju og einangrunarhyggju og tel að velferð og réttlæti gagnvart almenningi byggi meðal annars á traustum alþjóðlegum samskiptum. Þessar tvær stefnur, þjóðernishyggja og einangrunarhyggja, urðu fyrirferðarmiklar hjá vinstri mönnum á síðustu öld – og vinstri hreyfingin hefur átt erfitt með að losna við þær. Sá sem heldur því fram að erlend öfl vomi yfir Íslandi, auðlindum okkar, frelsi og ekki síst sjálfstæði er í raun að styðja íslensku yfirstéttina. Almenningur hér á landi á ekki annan andstæðing en hana.
Síðast en ekki síst legg ég ríka áherslu á vandaða stjórnsýslu, að stjórnsýslulög og upplýsingalög auk persónuverndarlaga séu virt til fulls á sveitarstjórnarstiginu sem annars staðar. Þessi þrenn lög eru uppistaðan í réttlátri málsmeðferð opinberra aðila gagnvart almenningi og félögum, þau eru forsenda gagnsæis og þess að efla traust – og þau hafa ekki komist til framkvæmda á sveitarstjórnarstiginu í nógu ríkum mæli.“
Haukur Arnþórsson er í framboði fyrir sósíalista í Reykjavík #valdiðtilfólksins