Óhreinu börnin hennar Evu
Pistill
12.05.2018
Ég bý í Kópavoginum nánar tiltekið á Kársnesinu. Ég bý í einu af elstu húsunum í því hverfi en í kringum mig hér neðan við Kársnesbrautina eru annars vegar gömul hús eins og mitt sem komin eru á viðhald og hins vegar raðhús og einbýlishús í stærra lagi sem hafa verið byggð seinna og sum jafnvel glæný. Hér neðan við mig er eitt sambýli sem nokkrir fatlaðir einstaklingar búa saman í og ég veit af öðru hér annars staðar á Kársnesinu.
Ef gengið er með fram sjónum í vesturátt að Bakkavör eru sjáum við nýjar blokkir sem voru byggðar fyrir efnameira fólk en þó kannski fólk úr millistétt og efri millistétt, fólk sem vildi minnka við sig á eldri árum og gat selt eldra einbýlishús fyrir litla nýja íbúð. Þær íbúðir voru raunar seldar dýrum dómi vegna sjávar útsýnisins. Enn er verið að byggja á þessu svæði og í raun alveg gríðarlega mikið en bærinn er búinn að úthluta þeim lóðum til verktaka undir æði mikla byggð og til handa stórum fyrirtækjum og jafnvel undir hótelbyggingar. Þetta er meira og minna byggt upp á landfyllingu sem er ófyrirséð um hversu mikið skaðar lífríkið í voginum. Engin handbær lausn er heldur komin á þá gríðarlegu aukningu umferðar sem þetta mun hafa í för með sér og sumir upplifa og það ekki að ósekju að verið sé beinlínis að eyðileggja gamalgróið lágreist íbúðarhverfi.
Ef farið er enn lengra vestur komum við að iðnaðarhverfi og þar býr nú heldur betur „Hinn Kópavogur“. Þar hef ég farið með dóttur mína í afmæli til pólskrar fjölskyldu sem bjó þröngt ásamt mörgum öðrum Pólverjum í gömlu iðnaðarhúsnæði. Innflutta vinnuaflið okkar Íslendinga býr nefnilega oft á tíðum við skelfilegar aðstæður, og já það er falið. Ég á til dæmis einn góðan vin af erlendu bergi sem býr í fjögurra fermetra risherbergi sem farið er að leka en hann sættir sig við það af ótta við að lenda á götunni. Þessir íbúar Kársnessins eru í vissum skilningi eins og óhreinu börnin hennar Evu. Þau eru ekki bara falin heldur eru þau útilokuð úr umræðunni og þau eru ekki spurð um hvað á þeim brennur.
Ef farið er svo fyrir hornið á nesinu finnum við bæði risastór og flott einbýlishús við sjóinn en einnig eldri tví- þrí- og fjórbýlishús en sum þessara eldri húsa eru einnig komin á viðhaldstíma og augljóst að fólk er mis vel í stakk búið til að halda húsunum sínum við. Sumir búa einnig í leiguhúsnæði á jarðhæðum, í kjöllurum, skúrum eða risi. Þegar komið er út Kópavogsbrautina má finna glæsilegt nýtt einbýlishúsahverfi á Kópavogstúninu fyrir betur stæðar fjölskyldur og svo Sunnuhlíð og einhverjar þjónustuíbúðir. Einnig er þar nýrisið blokkahverfi sem var sérstaklega byggt af verktökum fyrir fólk á aldrinum sextíu ára og eldri. Í þeim íbúðum býr fólk sem er jafnvel komið vel yfir nírætt en hefur ekki fengið innií þjónustuíbúð og hefur neyðst til að kaupa sér húsnæði á frjálsum markaði og býr þar við skerta þjónustu. Ein af yngri íbúum þeirra blokka þurfti til að mynda að bjarga háaldraðri manneskju með göngugrind síðastliðinn vetur en hún kom að viðkomandi liggjandi í snjóskafli í fullkomnu bjargarleysi.
Á facebook síðunni „Kársnesið okkar“ getur fólkið á Kársnesinu skiptist á skoðunum og rætt skipulagsmál, velt því fyrir sér hvort dagblöðin séu að skila sér í hús, rætt um hundahald og hjólreiðastíga, lýsingu og bílastæði. Umræðan þar inni er oft á tíðum góð en hún er augljóslega millistéttarumræða. Þar er enginn að tjá sig sem býr í fjögurra fermetra risi eða iðnaðarhúsnæði. Þar hef ég ekki heyrt í leigjendum velta fyrir sér leiguverði á nesinu né er gamla fólkið að tjá sig um skort á þjónustu hvað þá þeir fötluðu að kvarta undan torfærum leiðum fyrir hjólastólaumferð. Hér er unga fólkið sem er fast í foreldrahúsum heldur ekki að tjá sig en ég veit um mýmörg slík tilfelli hér á Kársnesinu. Jafnvel þekki ég dæmi af rígfullorðnu fólki sem hefur þurft að flytja inn á aldraða foreldra sína. Á síðunni „Kársnesið okkar“ er hins vegar kallað eftir svörum frá frambjóðendum um borgarlínu, bílastæðamál og öryggismál skólabarnanna í hverfinu.
Að sjálfsögðu skipta þessi mál okkur hér á nesinu máli hvort sem við búum við fátækt eða ekki en mér finnst þetta ekki vera forgangsmál í dag. Þessi mál eiga að mínu viti að vera löngu komin í lýðræðislegt ferli og ég myndi vilja sjá slembivalinn hóp íbúa vinna í hverfaráði fyrir Kársnesið sem og önnur hverfi í Kópavoginum því ég óttast að annars verði það einungis milli- og efri millistétt sem muni ákveða alla hluti enda þeim verr stæðu ekki boðið að borðinu.
Þegar ég segi að þeim sé ekki boðið að borðinu þá meina ég ekki að stjórnmálaflokkarnir hafi neitað þeim um aðgang eða að þau megi ekki tjá sig á síðunni „Kársnesið okkar“. Það sem ég á við er að í samfélagi ójöfnuðar þá dregur fólk sig inn í skel ef það býr við skort. Því finnst það ekki boðlegt að borði ákvarðananna enda heldur aldrei verið að ræða málin sem skiptir þau mestu máli. Það er bara verið að ræða mál millistéttarinnar eða jafnvel hástéttarinnar. Fólk sem býr við skort upplifir skömm og milli- og hástéttin ákveður að sjá ekki fólkið í lágstéttinni. Þau eru ekki talin með.
Mál eins og borgarlína og strætisvagnasamgöngur eiga fyrst og fremst að vera í höndum þeirra sem nota strætó sem í flestum tilfellum er láglaunafólkið og innflytjendurnir og svo barnafólkið sem vill hafa eitthvað um umferðaröryggi skólabarnanna í hverfinu að segja. En við verðum að draga umræðuna upp úr millistéttafarinu og huga að velferð allra íbúanna okkar. Við verðum að draga huluna frá og sjá ástandið allt en ekki bara hluta þess. Við verðum að sækja fólkið sem dregur sig í skelina og bjóða þeim að borðinu sérstaklega.
Þegar einhver hrapar úr millistétt niður í fátækragildruna vegna vinnutaps eða veikinda eða að hann er alin upp í lágstétt og hefur aldrei komist upp úr fátæktinni þá finnst honum hann ekki vera að standa sig, ekki vera nógu góður kapítalisti enda gerir efri stéttin og millistéttin ýmsar kröfur til hans. Hann nær þó engan veginn að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans og efri stéttirnar hafa oft engan skilning á hans vandamálum. Það er ekki forgangsmál hjá þessum einstaklingum að ræða hjólabrú yfir Fossvoginn eða borgarlínu þegar þeir eru jafnvel í kvíðakasti yfir því að ná ekki að greiða húsaleigu eða afborganir af íbúðalánasjóðslánum. Hvað þá ef þeir búa inná ættingjum milli vonar og ótta um hvort þeir fái leiguhúsnæði frá bænum eða hvort þeir yfir höfuð komist í öruggt húsaskjól.
Gerum okkur grein fyrir því að hér í Kópavoginum þarf fólk helst að eiga milljón ef það þarf að taka nýja íbúð á leigu. Hér í bæ er húsaleiga oftast yfir 200 þúsund krónum fyrri meðalstóra íbúð og oftast er krafist þriggja mánaða leigu í tryggingu ofan á eina húsaleigu.
Ég velti því stundum fyrir mér einnig hvort fólk geri sér grein fyrir því hvað ómenntað starfsfólk í umönnunarstörfum á vegum Kópavogsbæjar er að fá í laun?
Gerir fólk sér grein fyrir því að hér búa líka öryrkjar og eldri borgarar sem fá strípaðar greiðslur frá TR sem eru jafnvel undir 200 þúsund krónum á mánuði?
Gerir fólk sér grein fyrir því að hér hefur barnafólk þurft að punga út hátt í 50 þúsund krónum per barn í skólaferðalög á síðustu önn grunnskólans? Og já sumir eiga fleiri en eitt barn.
Gerir fólk sér grein fyrir því að sumir foreldrar hafa ekki efni á að senda börnin sín í tannréttingar?
Gerir fólk sér grein fyrir því að 30% íbúanna í okkar samfélagi getur ekki eldað betri mat á sunnudögum? Enda stórfjölskyldan hverfandi.
Gerir fólk sér grein fyrir því að hér í bæ og meira að segja hér í há- og millistéttarþorpinu okkar á Kársnesinu sem er sennilega eitt af ríkari hverfum bæjarins er líka fólk í raunverulegri neyð?
Við sósíalistar viljum umfram allt koma þaki yfir höfuðið á fólkinu okkar og sjá til þess að fólk eigi í sig og á. Svo skulum við ræða um ljósastaura og hjólreiðastíga.
María Pétursdóttir
skipar 2. sætið á lista sósíalista í Kópavoginum #valdiðtilfólksins