Fleiri ætla að kjósa sósíalista
Frétt
26.05.2018
Stuðningsyfirlysingar til sósíalista streyma inn á Facebook. Hér er lítið brot.
Þorsteinn Guðmundsson, leikari og uppistandari: „Eftir töluverðar vangaveltur (eins og eðlilegt er þegar margir ágætir kostir eru í boði) hef ég ákveðið að kjósa Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Sósíalistaflokkinn í dag. Ég held að hún verði frábær borgarfulltrúi. Njótið dagsins og frelsisins að nýta ykkar atkvæði í dag.“
Birgitta Jónsdóttir, fyrrum þingkona Pírata: „Ég hef ákveðið að kjósa Sósíalistaflokkinn í þetta sinn. Ástæða þess er að ég vil að þeir komist að borðinu og geti fundið leið til að virkja hið stóra og fjölbreytta bakland sem nú þegar er til staðar og hefur verið virkjað ótrúlega hratt og vel. Ég geri engar aðrar væntingar en þær að Sósíalistaflokkurinn nýti alla þá þekkingu og kraft sem er að vakna og gefi öllu þessu fólki verkfæri til að fá að beita sér af fullum krafti.”
Mikael Torfason rithöfundur: „Mér dettur ekki í hug að segja ykkur hvað þið eigið að kjósa en á laugardaginn kýs ég Sósíalistaflokkinn X-J.“
Einar Scheving trommuleikari: „Ég hef haldið mig til hlés pólitískt undanfarið – kannski sambland af uppgjöf og þroska – enda virðist lítið breytast með tilliti til spillingar og sérhagsmunagæslu stjórnmálamanna í okkar fagra landi. Ég ætla hins vegar að kjósa Sósíalistaflokkinn á laugardaginn, enda hefur málflutningur oddvita flokksins verið ferskur blær inn í annars frekar þreytta umræðu undanfarið.“
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona: „Eftir umræður kvöldsins er ég sannfærð um nauðsyn þess að Sanna Magdalena fyrir hönd Sósíalistaflokks Íslands komist að í borginni. Enginn sagði neitt sem komst í hálfkvist við þá visku sem frá henni kom – að samfélög verði aðeins farsæl séu þau hugsuð út frá þörfum þeirra verst stöddu og með því að fátækasta fólkið hafi um það að segja. Bingó!“
Eyþór Gunnarsson tónlistarmaður: „Ég kaus Sósíalistaflokkinn af því að ég hef trú á erindi hans í samfélaginu. Málflutningu hans er heill og sannfærandi.“