Sósíalistar vilja að leigjendur fái rödd innan borgarinnar
Frétt
15.06.2018
„Við leggjum til að borgin stuðli að því að leigjendur innan Félagsbústaða stofni félag til að gæta hagsmuna sinna gagnvart fyrirtækinu og að þetta nýja félag leigjenda fái að skipa þrjá áheyrnarfulltrúa í stjórn Félagsbústaða,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, en hún mun leggja þessa tillögu fram á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar á þriðjudaginn í næstu viku, 19. júní.
Sanna hefur sjálf reynslu af valdaleysi leigjenda hjá Félagsbústöðum, en einstæð móðir hennar fékk úthlutað félagslegri íbúð eftir nokkurra ára húsnæðishark. Eftir að Sanna lauk háskólanámi fyrir skömmu missti hún námsmannaíbúð sína og er aftur flutt heim til móður sinnar.
„Leigjendur hjá Félagsbústöðum upplifa mikið valdaleysi og þau sem eru föst á biðlista eftir félagslegu húsnæði,“ segir Sanna. „Það eru langar boðleiðir frá þeim sem leigja hjá Félagsbústöðum til þeirra sem taka ákvarðanir. Leigjendur hafa ekkert með þróun fyrirtækisins að gera, þeir koma ekki að ákvörðunum um stefnuna og hafa engin áhrif á þjónustuna. Þetta er ekki aðeins slæmt fyrir leigjendurna heldur líka fyrirtækið sjálft. Það er ekki hægt að byggja upp góða þjónustu nema í gegnum virkt samtal og samráð við þau sem nota þjónustuna.“
„Á nýfrjálshyggjuárunum voru félagslegar íbúðir fluttar út úr borgarkerfinu yfir í sérstakt fyrirtæki, sem er að fullu í eigu Reykjavíkurborgar,“ segir Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi sósíalista. „Þetta fyrirkomulag er einskonar fyrsta skref til einkavæðingar. Opinberri stofnun er breytt í hlutafélag og mótun stefnu og starfsemi flutt frá lýðræðislega kjörnum vettvangi borgarstjórnar til stjórnarmanna hlutafélags, sem standa skil gagnvart borginni sem hlutafjáreiganda fremur en samfélagi fólks. Félagslegar íbúðir eru settar inn í félag sem lætur eins og það sé fyrirtækið á almennum markaði í eigu einhvers kapítalista.“
Daníel bendir á að með þessu sé félagslegt hlutverk stofnana gert að aukaatriði en hlutverk þeirra skilgreint út frá hlutafélaginu. Markmið þeirra verður fjárhagslegt sjálfstæði til framtíðar og að skila eiganda sínum hagnaði, eða í það minnsta að þurfa ekki á fjárhagsstuðningi hans að halda. „Hvers konar ákvörðun er það?“ spyr Daníel, „að forma Félagsbústaði eins og hvert annað leigufélag á markaði þar sem húsaleigan á ekki bara að standa undir rekstri og afborgunum lána, heldur að greiða lánin umtalsvert hraðar niður en sem nemur endingartíma húsnæðisins. Þetta merkir að leigan frá fátækasta fólkinu í Reykjavík er ætlað að byggja upp eigið fé Félagsbústaða og fjármagna kaup fyrirtækisins á nýju húsnæði. Hin fátæku eiga sem sé að fjármagna sjálf sitt félagslega íbúðakerfi.“
Daníel segir þetta kjarnann í nýfrjálshyggjunni. „Fyrst eru skattar og gjöld afnumin af fyrirtækjum, fjármagni og hinum ríku. Síðan eru ríki og borg skuldsett til að fjármagna það sem skattar fyrirtækja, fjármagns og hinna ríku stóðu áður undir. Þegar ekki er hægt að taka meiri lán er þjónustan skorin niður og/eða gjöld aukin á þeim sem nota þjónustuna, sem í öllum tilfellum eru hin fátæku og veiku, öldruðu, fötluðu og jaðarsettu. Við erum komin inn í tímabil þar sem hinum lakast settu er ætlað að standa sjálf undir eigin velferðarkerfi,“ segir Daníel.
„Auðvitað er það markmið sósíalista að skrúfa ofan af þessari hlutafélagavæðingu opinberrar þjónustu,“ segir Sanna, „en við höfum ekki nægt afl til þess í dag. Þess í stað leggjum við til að Reykjavíkurborg stuðli að því að leigjendur hjá Félagsbústöðum myndi félag utan um sameiginlega hagsmuni sína og fái tækifæri til að stunda nauðsynlega baráttu fyrir hagsmunum sínum. Fyrirtækin og hin ríku geta stundað grimma hagsmunabaráttu í samfélaginu og hlutafélagavæðing Félagsbústaða er ein afleiðing þess. Ef við viljum ekki að samfélagið verði að öllu leyti mótað að hagsmunum hinna ríku verðum við að efla samtakamátt almennings og stuðla að uppbyggingu félaga um almannahag. Fólk verður að hafa tæki til að verjast ofurafli hinna ríku.“
Sanna segir að fáir hópar í samfélaginu séu eins valdalitlir og leigjendur hjá Félagsbústöðum og þau sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Hver og einn leigjandi mætir valdinu einn og óstuddur og án nokkurra bakhjarla. „Enginn fær íbúð hjá Félagsbústöðum nema að vera komin í efnahagslegt þrot, og í fæstum tilfellum dugar það einu sinni til. Leigjendur Félagsbústaða eru því það fólk sem stendur einna verst í samfélaginu. Hvert þeirra má sín lítils gagnvart valdinu. Sameinaðir geta leigjendurnir hins vegar myndað sterk samtök hátt í tvö þúsund fjölskyldna. En þar sem þetta er fátækt fólk sem á ekkert aflögu verða þessi samtök ekki mynduð nema með stuðningi borgarinnar,“ segir Sanna.
„Og það er auðvelt að réttlæta þann stuðning,“ segir Daníel. „Þó ekki væri nema til þess að tryggja að þjónusta Félagsbústaða byggist upp á eðlilegan máta. Hvort haldið þið að sé betra að byggja hana upp á samskiptum þar sem hver leigjandi mætir fyrirtækinu einn og óstuddur eða á samskiptum þar sem Félagsbústaðir þurfa að taka tillit til krafna og ábendinga öflugra samtaka leigjenda’“
„Hið opinbera hefur lagt áherslu á ábyrgð hinna fátæku, að fátækt sé persónulegur vandi þeirra,“ segir Sanna. „Okkur er sagt að mennta okkur upp úr fátækt, vinna okkur upp úr fátækt og styrkja okkur svo við getum flúið hana. En þótt mikilvægt sé að styðja þau sem verða fyrir fátækt persónulega er fátækt ekki persónulegur vandi. Fátækt er félagslegt vandamál, afleiðing misskiptingar, sem samfélagið ber ábyrgð á. Ef við tökum fátækt ekki sem persónulegum vanda heldur félagslegum vanda verður augljóst hversu brýnt er að styrkja fátæka sem hóp, gefa þeim færi á að finna samstöðu og skipuleggja sig, móta kröfur og baráttuaðferðir og mynda virka samstöðu um hagsmuni sína,“ segir Sanna.
Hún bendir á að í umræðu í kjölfar brunans í einkarekinni íbúðablokk með félagslegum íbúðum í London, Grenfell-turninum, hafi komið fram að áður en nýfrjálshyggjan braut niður félagslega kerfið í Englandi hafi íbúarnir setið í stjórn turnsins. „Nýfrjálshyggjan hefur grafið undan hinum verr settu á svo margan hátt,“ segir Sanna. „Launakjör þeirra hafa versnað, þau þurfa að borga hærri húsaleigu, njóta minni réttinda og eru klippt frá samfélagslegum ákvörðunum, líka ákvörðunum sem skipta mestu fyrir þau sjálf. Það hefur síast inn hugarfar sem kallað var The White Man’s Burden á nýlendutímanum, ábyrgð hvíta mansins á misvitru og ósjálfbjarga fólki í nýlendunum. Sama afstaða hefur endurspeglast í framkomu við fátæka í okkar samfélagi. Elítan telur sig hæfa til að taka allar ákvarðanir fyrr hin verr settu. Og dæsir þegar hún hækkar launin sín vegna þess hversu mikla ábyrgð hún ber. Þetta er fráleit afstaða. Vandi hinna verr settu er valdaleysið. Og þau eru miklu betur til þess fallin að taka ákvarðanir um eigin stöðu en nokkur annar.“
„Virk samstaða hinna fátæku er ekki aðeins nauðsynleg fyrir fátækt fólk heldur líka góð fyrir samfélagið sem heild,“ segir Daníel. „Sagan sýnir að góða samfélög byggjast upp af samstöðu hinna verr settu. Samfélög eru brotin niður með því að gefa hinum ríku öll völd.“