Sósíalistar stofna styrktarsjóð og kalla hann Maístjörnuna
Frétt
11.12.2018
Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokks Íslands hefur ákveðið að setja framlag Reykjavíkurborgar til flokksins í sérstakan sjóð til styrkingar hagsmunabaráttu verr settra hópa. Sjóðurinn mun kallast Maístjarnan og fer framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins með rekstur sjóðsins og úthlutanir úr honum.
„Framboð sósíalista í borgarstjórnarkosningunum í vor var fyrst og fremst framboð hinna verr settu,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar flokksins. „Okkur finnst því eðlilegt að nota það framlag úr borgarsjóði til stjórnmálaflokka sem rennur til flokksins, til að ýta undir og styrkja stjórnmálavirkni hinna verr settu og byggja upp hagsmunabaráttu þeirra.“
Sósíalistaflokkurinn fékk framlag upp á 900 þúsund krónur á þessu ári. Á næsta ári má reikna með að framlagið verði tvöfalt hærra og á kjörtímabilinu renni um sjö milljónir króna úr borgarsjóði til Maístjörnunnar, í gegnum Sósíalistaflokkinn.
„Hugmyndin er að fólk sem tilheyrir hópum hinna verr settu geti sótt um stuðning til að skipuleggja baráttu sína, greiða kostnað við fundi, kynningu og uppbyggingu baráttuhópa, félaga eða samtaka,“ segir Laufey Ólafsdóttir, gjaldkeri framkvæmdastjórnar. „Maístjarnan mun veita skilyrta styrki til að greiða útlagðan kostnað slíkra félaga, en ekki laun eða þóknanir til stjórnar eða félagsmanna. Það er alla vega ramminn til að byrja með. Verklag mun þróast í samstarfi við þá hópa sem við vinnum með.“
Reynslan á eftir að leiða í ljós hvers kyns hópa, félög og samtök Maístjarnan styrkir. Í samþykkt framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins segir: „Maístjarnan er styrktarsjóður sem styður hin verr settu í að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum. Maístjarnan er fjármögnuð með styrktarframlagi Reykjavíkurborgar til Sósíalistaflokks Íslands og framlögum og gjöfum einstaklinga. Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins úthlutar úr sjóðnum og heldur utan um og mótar starfsemi hans. Maístjarnan vinnur að því að efla og styrkja rödd hinna verr settu og aðstoða þau við að leggja fram kröfur sínar og knýja á um að framtíðarlandið verði mótað að hagsmunum alþýðunnar.“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, hefur ákveðið að styrkja Maístjörnuna með mánaðarlegu framlagi, 100 þúsund krónum. Með því lækkar Sanna í raun laun sín sem borgarfulltrúi úr 908 þús. kr. á mánuði í um 750 þús. kr. fyrir skatt eða 2,5föld lágmarkslaun. „Mér finnst að við eigum að setja mörk á hæstu laun í samfélaginu, hversu mikið hærri þau geti verið en lágmarkslaun,“ segir Sanna. „Mér finnst þreföld lágmarkslaun algjört hámark, til dæmis fyrir borgarstjóra, og setti launin mín því í þrep þar fyrir neðan.“
Reikna má með að höfðinglegt framlag Sönnu til Maístjörnunnar verði á kjörtímabilinu yfir fjórum milljónum króna. „Ég hvet alla sósíalista sem geta að leggja fé til Maístjörnunnar, helst í áskrift,“ segir Sanna. „Mikilvægustu skrefin í átt að réttlátu samfélagi er að þau sem mest líða undan óréttlæti kapítalismans geti skipulagt sig, myndað samstöðu sín á milli og nái að byggja upp baráttutæki til að berjast fyrir hagsmunum sínum. Það eru mikilvægustu stjórnmálin, lífsbarátta þeirra sem kapítalisminn er að drepa.“
Maístjarnan hefur þegar afgreitt sitt fyrsta verkefni, en sjóðurinn gekkst í ábyrgð fyrir öllum kostnaði vegna útifundarins á Austurvelli 1. desember síðastliðinn. Heildarkostnaður var um 140 þúsund krónur, Skiltakarlarnir söfnuðu í fötur um 106 þúsund krónur upp í kostnaðinn á fundinum og Maístjarnan mun borga mismuninn, en til fundarins var boðað af þremur konum, Arndísi Jónasdóttur, Júlíu Sveinsdóttur og Alexöndru Kristjönu Ægisdóttur, sem ofbauð framkoma þingmanna á Klausturbarnum.
Eftir áramót mun Maístjarnan standa fyrir námskeiði um uppbyggingu baráttuhópa hinna verr stæðu. Þar verður bæði fjallað um jákvæð áhrif pólitísk starfs á líðan einstaklinganna sem taka þátt og þær aðferðir má nota til að byggja upp öfluga hópa, hvernig tryggja má að rödd þeirra heyrist og hvaða aðferðum má beita til að ná árangri.
Þau sem styrkja vilja Maístjörnuna og stuðning hennar við hagsmunabaráttu hinna verr settu geta gert það á Internetinu, hér á síðunni: