Vínylplötumarkaður til styrktar baráttu hinna verr settu
Frétt
13.12.2018
Vínylplötumarkaður Óla skiltakarls og Maístjörnunnar til styrktar baráttu hinna verr settu verður haldinn helgina 15. og 16. desember að Ingólfsstræti 5. Plöturnar koma úr safni Ólafs Sigurðssonar, annars af skiltakörlunum, en Óli er einn af allra stórtækustu plötusöfnurum landsins, á um og yfir fimmtíu þúsund plötur.
Í boði verða alls konar plötur; íslenskar sem erlendar; jólalög, gamalt rokk og nýtt, barnaplötur, klassísk tónlist, soul, blues, diskó, djass og hvað eina. Innan um eru fágætar gersemar. Auk vínylplatna verður einnig til sölu geisladiskar, plötuspilarar, magnarar og hátalarar; allt úr safni Óla.
Allur ágóði rennur til Maístjörnunnar, styrktarsjóðs sem styður hin verr settu í að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum. Maístjarnan er fjármögnuð með styrktarframlagi Reykjavíkurborgar til Sósíalistaflokks Íslands og framlögum og gjöfum einstaklinga. Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins úthlutar úr sjóðnum og heldur utan um og mótar starfsemi hans. Maístjarnan vinnur að því að efla og styrkja rödd hinna verr settu og aðstoða þau við að leggja fram kröfur sínar og knýja á um að framtíðarlandið verði mótað að hagsmunum alþýðunnar.
Á markaðinum verða líka seldir bolir. merki og annað með merki Sósíalistaflokksins, líka gul vesti sem nota má í átökum vetrarins.
Markaðurinn verður að Ingólfsstræti 5 (þar síðast var Víðisverslun) og opnar klukkan 12 á hádegi laugardaginn 15. desember og verður opinn fram á kvöld. Hann opnar að nýju á sunnudeginum 16. desember klukkan tólf á hádegi og þá verður aftur opið fram á kvöld.
Allt áhugafólk um góða tónlist og réttlátt samfélag er hvatt til að koma á markaðinn, finna sér og ástvinum sínum góða jólagjöf og styrkja um leið frelsis- og lífsbaráttu hinna verr settu.