Borgarstjórnarflokkur sósíalista hafnar vegatollum
Frétt
17.09.2019
Sameiginlegir sjóðir okkar; skattarnir, eiga að borga samgönguuppbyggingu, sem og aðra nauðsynlega innviðauppbyggingu. Skattbyrðin hefur verið færð af hinum ríku og fyrirtækjunum yfir á herðar láglaunafólks og þegar við skattleggjum ekki þá sem eru aflögufærir vantar stóran hluta í sameiginlegu sjóði okkar til að standa undir þessari grunnuppbyggingu. Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar hefur einnig gert það að verkum að efnaminna fólk hefur neyðst að flytja í úthverfin og í aðliggjandi sveitarfélög. Þetta orsakast af sökum ónægrar félagslegrar- og óhagnaðardrifinnar uppbyggingar og áherslu á lúxus íbúðir og hótel. Í því kerfi sem borgin hefur viðhaldið hafa þar lóðabraskarar geta grætt óhóflega á kostnað síhækkandi húsnæðisverðs.
Núna á að leggja flýti- og umferðargjöld á stofnbrautir sem leggjast þyngst á fólkið sem þarf að sækja vinnu miðsvæðis og býr í úthverfum borgarinnar. Þessi gjöld eru auðvitað líka hlutfallslega miklu hærri fyrir þá efnaminni og þá er hætt við að við séum að fara að búa til enn annan hlut sem aðgreinir hinar ólíku stéttir. Annars vegar verður fólk sem hefur efni á því að reka bíl og svo hinsvegar fólkið sem neyðist til að taka strætó. Við ættum auðvitað að gera strætó að góðum og raunhæfum kosti sem er fullfær að laða að sér farþega en ekki neyða efnaminna fólk til að nota hann sökum efnahags.
Á þessum sem og öðrum forsendum leggst borgarstjórnarflokkur sósíalista alfarið gegn þessum fyrirhuguðu veggjöldum. Við trúum því að hægt sé að byggja upp gott samgöngukerfi, til þess þurfum við að endurreisa skattkerfið og færa okkur frá hugmyndafræðinni um að þeir borgi sem noti og aftur á brautina um að þeir borgi sem geta.