Niðurstaða málefnahóps um umhverfis- og loftlagsmál
Frétt
12.10.2019
Stefna Sósíalistaflokks Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum er …
- að litið sé á umhverfis- og loftslagsmál sem mannúðarmál er varðar réttindi komandi kynslóða til lífs. Það skal því vera skylda stjórnvalda að vernda náttúru og lífríki og löggjafinn nýttur til þessa í hvívetna.
- að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skulu íslensk yfirvöld bregðast við þeim vanda hratt og örugglega og í samvinnu við umheiminn.
- að horfið sé frá kapítalísku hagkerfi og leiðum nýfrjálshyggjunnar til að takast á við umhverfismál og að fundnar verði heildrænar lausnir þar sem ábyrgðin og áherslan er fyrst og fremst sett á ríki, sveitarfélög og fyrirtæki.
- að náttúran og lífríki hennar sé ávalt í fyrirrúmi í öllum ákvarðanatökum sem hana varða og að réttur komandi kynslóða til heilsusamlegs lífs sé ávalt sett ofar sjónarmiðum um fjárhagslegan gróða einstaklinga og fyrirtækja.
- að öllum íbúum landsins sé gert kleift að lifa umhverfisvænu lífi óháð efnahagslegri stöðu og búsetu. Þá skal aukin almenn og aðgengileg fræðsla til almennings um umhverfisvæna og sjálfbæra lifnaðarhætti.
- að styðja við matvælaframleiðslu í nærumhverfinu með niðurgreiðslu á raforku til gróðurhúsaræktunar og stefnt að staðbundnum lifnaðarháttum samfélagsins.
- að róttæk skref séu tekin til að hætta notkun á einnota plasti og koma í veg fyrir plastmengun og ofpökkun með öllum tiltækum ráðum.
- að sveitarfélög axli ábyrgð og komi upp flokkunarkerfi sem auðveldar íbúum að flokka sorp við heimili sín, sér að kostnaðarlausu.
- að litið sé á tíðar og öflugar almenningssamgöngur sem lið í umhverfisvernd og sjálfsagða þjónustu við íbúa alls landsins.
- að endurskoða flugsamgöngur og skipaferðir við landið út frá umhverfissjónarmiðum.
- að stöðva frekari stóriðju og auka eftirlit með þeim stórfyrirtækjum sem fyrir eru með því markmiði að draga úr mengun.
- að græða landið, endurheimta votlendið og auka trjárækt til kolefnisjöfnunar landsins.
- að leggja kvaðir á fyrirtæki og stofnanir til að koma í veg fyrir sóun á mat og öðrum nýtanlegum varningi og draga úr urðun.
- að gera róttækar breytingar á notkun eldsneytis og koma í veg fyrir losun svartolíu við strendur landsins.
- að auka möguleika fólks til að eignast eða breyta farartækjum sínum í umhverfisvænni farkosti.
- að takmarka notkun nagladekkja svo framarlega sem kostur er og takmarka alla mögulega orsakavalda svifryks.
- að standa vörð um lífríki sjávar með verndun tegunda og banni við ofveiði og brottkasti.
- að aðhald verði aukið í nýtingu vatns og að affallsvatn sé nýtt þar sem við á. Jafnframt að fyrirtæki greiði viðunandi gjald fyrir nýtingu vatns í formi auðlindargjalds, enda er vatnið ein verðmætasta auðlind framtíðarinnar.
- að öll uppbygging mannvirkja sé gerð með umhverfisvænum hætti allt í senn með tilliti til hönnunar, efnisnotkunar og framkvæmda.
- að litið sé á umhverfismál sem sameiginlega hagsmuni allra jarðarbúa með því að skoða og taka tillit til hnattrænna vistspora og raunverulegs kostnaðar framleiðslu og áhrif hennar á fólk og lífríki fjarlægari landa ekki síður en nærumhverfis.
Ítarefni:
Umhverfis og loftslagsmál eru siðferðis- og mannúðarmál sem snerta alla og ber okkur að taka skýra afstöðu til þeirra. Sú hnattræna hlýnun sem við horfum fram á kallar á að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og brugðist við með byltingarkenndum kerfisbreytingum.
Kapitalískt markaðshagkerfi, sem hvetur til hámarks framleiðslu og hámarks gróða, er stærsti óvinur vistkerfisins og stærsti orsakaþáttur þeirra loftlagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir. Framleiðsluhættir stórfyrirtækja og neysluhættir fólks í dag ganga óhjákvæmilega á náttúruna og bregðast þarf við þessu með viðurlögum og öflugum eftirlitsstofnunum. Lausnir svokallaðs “græns kapítalisma” og einstaklingsmiðaðrar nálgunar í anda nýfrjálshyggju virka ekki til þess að berjast gegn loftslagsvandanum. Það er mikilvægt að vekja almenning til meðvitundar um að draga úr neyslu, nýta og endurnvinna en raunverulegi vandinn liggur í framleiðsluenda vörunnar. Áhersla regluverksins þarf að vera á framleiðslu og innflutningi en síður á að „refsa” neytandanum fyrir að neyta þess er þegar hefur verið framleitt.
Efla skal innlenda framleiðslu og stefna að sjálfbærara samfélagi. Hætta innflutningi á vörum sem hægt er að framleiða við innlend skilyrði. Efla skal innlenda grænmetis- og ávaxtaræktun sem og baunaræktun og korn með niðurgreiðslu hins opinbera á grænni orku. Reynt verði að fækka milligönguliðum eins og kostur er og gefa neytanda greiðan aðgang að framleiðanda matarins. Að njóta hollra, lífrænna matvæla hefur ekki verið efnahagslega á færi allra. Mikilvægt er að tækifærin til að lifa heilbrigðu lífi sem og að stunda náttúruvernd fari ekki eftir stétt eða stöðu fólks í samfélaginu.
Eftirlitsstofnanir skulu sinna sínu hlutverki og lög og viðurlög virk og virt. Efla þarf Umhverfisstofnun, samræma eftirlit og tryggja að verkferli sé skýrt og gagnsætt. Vinna skal gegn “grænþvotti” fyrirtækja og tryggja að kolefnisjöfnun sé ekki unnin á röngum forsendum. Efla þarf upplýsingastreymi og koma í veg fyrir að fjárhagslegir hagsmunir stýri umræðunni. Einnig skal efla aðgengi fólks til þátttöku í umhverfismálum og gera stefnumótun og ákvarðanir lýðræðislegri.
Ríki og sveitarfélög eiga að sjá til þess að íbúar geti sinnt ábyrgri sorplosun. Flokkunartunnur og moltukassar þurfa að vera við hvert hús í nánustu framtíð.
Vinnsla á plasti gengur á jarðefnaforða okkar og mengar lífríkið. Breyta þarf neysluvenjum og hætta einnota neyslu sem fyrst. Taka skal aftur upp notkun á glerflöskum og öðrum endurnýtanlegum efnum.
Setja þarf lög sem hamla stórmörkuðum, stofnunum og fyrirtækjum að urða matvæli sem ganga af og koma upp kerfi sem skilar sér í nýtingu þessara matvæla þar sem þeirra er þörf og komið í veg fyrir offramleiðslu og ofskömmtun. Auðvelda skal allt rekstrarumhverfi í kringum endurnýtingu og viðgerðir svo draga megi úr offramleiðslu á vörum svo sem raftækjum og fatnaði og auka neytendavernd þegar kemur að endingu og gæðum vöru. Þannig skal stuðlað að betri nýtingu og minni urðun.
Almenningssamgöngur þarf að stórbæta og reka þær með því sjónarmiði að þær séu sjálfsögð þjónusta við íbúa alls landsins og lykillinn að því að draga úr mengun en ekki með því markmiði að rekstur þeirra standi undir sér eða skili hagnaði. Olíuframleiðsla er stórt vandamál og framleiðsla rafknúinna ökutækja er einnig mengandi og gengur hratt á auðlindir jarðar. Arðrán og eyðilegging vistkerfa er óhjákvæmilegur fylgifiskur þessarar framleiðslu og erfitt er að skorast undan því að hugsa þessi mál á hnattræna vegu. Það að skipta út orkugjöfum, eða skipta yfir í rafbíla er því ekki heildarlausn, heldur þarf að hugsa heildrænt og gera almenningssamgöngur að betri kosti og einkabílinn óþarfan fyrir flesta en þó má einnig auðvelda fólki að breyta farartækjum sínum og gera þau náttúruvænni svo sem með metani.
Það er mikilvægt markmið að draga úr flugi, enda er hér um mjög mengandi samgöngumáta að ræða. Þó ber að hafa í huga að við búum á eyju í talsverðri fjarlægð frá flestum áfangastöðum og hætt er við að takmörkun á flugferðum í formi kvóta og skatta bitni verst á hinum efnaminni sem þegar eiga erfiðast með að nýta sér flugferðir. Alla takmörkun á flugi þarf að skoða með þetta í huga og beina sjónum að þeim flugfélögum sem hingað fljúga og horfa til nýtingar ferða. Sérstaklega þarf að takmarka umferð herflugvéla, einkaflugvéla, útsýnisflugvéla og flugumferðar sem mengar hlutfallslega mikið miðað við fjölda farþega.
„Svartolía“ er samheiti yfir þungar og seigar olíur sem geta innihaldið hátt hlutfall brennisteins og er svartolía m.a. notuð í skipasiglingum. Hún mengar meira en annað eldsneyti og losarr mikið af sóti út í andrúmsloftið er hún brennur. Flest skemmtiferðaskip brenna svartolíu en við bruna hennar losnar mikið magn sótagna út í andrúmsloftið. Slíkar agnir eru skaðlegar heilsu manna og er loftmengun af þessu tagi talin ábyrg fyrir dauða milljóna manna um allan heim árlega. Hægt er að rækta repju í framleiðslu á lífdísli og nota hann á skipaflotann okkar. Við höfum landsvæðið til þess og kunnáttuna til að vinna lífdísil. Repjan auk þess kolefnisjafnar tvisvar sinnum meira en það sem verður til við brunann á lífdísli.
Arðrán og eyðilegging vistkerfa í „hinu hnattræna suðri“ eru samhangandi hnattvæddum kapítalisma, loftslagsvandanum og umhverfis- og auðlindavandanum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Arðrán fyrri kynslóða hefur aukið velmegun Vesturlandabúa og á meðan verða fátækustu löndin oftast verst úti. Ofræktun og útrýming skóga í þeim tilgangi að skapa ræktarland undir sérstakar tegundir grænmetis fyrir neytendur á Vesturlöndum hefur raskað lífi og fæðuöryggi fólks um allan heim. Útrýming skóganna veldur loftslagsbreytingum sem koma fram i þurrkum, flóðum, mengun og röskun á vistkerfinu sem aftur orsakar fólksflótta frá þeim svæðum sem ekki lengur eru byggileg. Það er því ekki einungis okkar samfélag sem við þurfum að horfa til, heldur þarf að rýna í framleiðslukeðjuna og huga að öllu fólki sem kemur að henni og þann fórnarkostnað sem hún ber með sér. Þessi málefni þurfa alltaf að vera hugsuð í hnattrænu samhengi og okkur ber að átta okkur á forréttindastöðu okkar og sýna fulla samstöðu með fólki í öðrum löndum.