Tillaga um stofnun innflytjendaráðs

Sanna Magdalena Mörtudóttir Frétt

Tillaga sem Sanna Magdalena Mörtudóttir sendi inn á fund borgarráðs rétt áðan.

Í ljósi þess að stjórnvöld, bæði ríki og borg, hafa oft algjörlega hundsað raddir þeirra sem hafa bent á ömurlegan aðbúnað verkafólks af erlendum uppruna og þeirra sem búa við fátækt á vinnumarkaði (e. working poor), er lagt til að Reykjavíkurborg stofni innflytjendaráð. Ráðið verði skipað innflytjendum sjálfum og annarra viðeigandi hópa og samtaka eftir því sem ráðið telur þörf á. Í greinargerð er nánar fjallað um skipun í ráðið. Hlutverk ráðsins verði að koma með tillögur að bættu samfélagi og hugmyndir að úrbótum varðandi aðbúnað innflytjenda sem búa við slæm kjör í samfélaginu. Hópurinn verði skipaður sjö innflytjendum með nýlega reynslu af láglaunastörfum og af því að búa við slæmar aðstæður á húsnæðismarkaði. Innflytjendaráðið starfi með umboðsmanni innflytjenda sem ráðinn verði úr hópi innflytjenda til að gæta hagsmuna þeirra innan borgarkerfisins og tryggja að rödd þeirra heyrist hátt og skýrt í samfélaginu. Þar sem um viðkvæma stöðu fólks í ráðinu getur verið um að ræða, er nauðsynlegt að ráðið starfi eftir þörfum þeirra sem sitja í ráðinu, með tilliti til fundartíma og fleiri þátta.

Greinargerð:

Það er ljóst að það þarf að bæta margt í okkar samfélagi til að tryggja að það sé raunverulega fyrir okkur öll. Þau sem hafa reynslu af því sem þarf að laga eru þau sem ættu að segja til um hvað þurfi að breyta til að stjórnkerfið þjóni þörfum hinna verst settu. Því er lagt til að innflytjendaráð verði stofnað og skipað þeim með nýlega reynslu af þeim málum sem þarf að taka til umfjöllunar. Áhersla verði á þær raddir sem hafa fengið lítið vægi innan borgarkerfisins og samfélagsins, til að tryggja að reynsla þeirra sem búa við slæm kjör og aðbúnað komi milliliðalaust inn í stjórnkerfið og knýji fram breytingar. Þannig má tryggja að ákvarðanataka sé mótuð út frá hagsmunum þeirra sem búa við slæma stöðu sem þarf að bæta. Það hefur sýnt sig í fortíðinni að þrátt fyrir margar ábendingar um slæm kjör og aðbúnað erlends verkafólks á húsnæðis- og vinnumarkaði, hefur slíkt ekki dugað til að knýja fram breytingar.
Einstaklingarnir sem um ræðir geta verið í viðkvæmri stöðu og því er mikilvægt að seta í ráðinu sé aðlögðuð að þörfum þeirra sem munu koma til með að sitja í ráðinu. Hér þarf að skoða þætti líkt og tungumálakröfur sem hafa verið gerðar en opinbert tungumál í stjórnkerfinu er íslenska. Til að ná utan um þá staðreynd að hér eru einstaklingar sem hafa ekki íslensku að móðurmáli og tjá sig betur á öðru tungumáli er nauðsynlegt að koma til móts við það. Lagt er til að sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs verði falið að móta gott starfsumhverfi með ráðinu sem tekur mið af þörfum sem henta fyrir öll í ráðinu. Hér er einnig rétt að nefna að fundartími þarf að taka mið af þörfum þeirra sem munu sitja í ráðinu og að upplýsa þarf um að hér er um launað starf að ræða, eins og á við um aðra fundarsetu á vegum Reykjavíkurborgar.
Lagt er til að auglýst verði eftir áhugasömum til setu í ráðinu, með nýlega reynslu af láglaunastörfum og því að búa við slæmar aðstæður á húsnæðismarkaði. Ef mörg sýna áhuga verði valið handahófskennt en gætt verði að jöfnu kynjahlutfalli eins og kostur er. Þá er lagt til að innflytjendaráðið geti skipað fleiri í ráðið eftir því sem þörf þykir. Tillögum að úrbótum til úrlausna til að bæta samfélagið fyrir þau sem um ræðir, verði ýmist unnar á vettvangi Reykjavíkurborgar eða sendar til sameiginlegs vettvangs sveitarfélaga, ríkisins eða annarra aðila eftir því sem við á.

Byltingin verður ekki án þín!

Taktu þátt og dreifðu erindi sósíalisa sem víðast.

Deila á Facebook

Halda áfram