Tillaga Sósíalistaflokks Íslands um aðgerðir til að tryggja að enginn missi heimili sitt
Frétt
13.11.2020
Tillaga þessi verður lögð fram á borgarstjórnarfundi þann 17. nóvember næstkomandi:
Heimilin okkar eiga að vera öruggt skjól frá áreiti hversdagsins en ekki enn einn þátturinn sem við eigum í hættu á að missa. Heimili er eitt af því mikilvægasta í lífi okkar og í þeirri fjárhagskrísu sem mörg hér í borginni standa nú frammi fyrir, verðum við að tryggja að enginn missi heimili sitt. Hlutverk borgarstjórnar snýr að því að mæta grunnþörfum borgarbúa og þar skiptir húsnæði höfuðmáli. Enginn á að þurfa að missa heimili sitt vegna efnahagskreppu. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir því eftirfarandi aðgerðir til að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar: 1) Að veita styrk eða lán til þeirra sem geta ekki greitt leigu eða afborganir af húsnæðislánum. Sé fjárstuðningurinn til lengdar, getur borgin eignast hlut í íbúðum sem fá stuðning vegna afborgana húsnæðislána. Seinna meir geta íbúar keypt sinn hlut tilbaka, kjósi þeir það og eru í stöðu til þess. 2) Að þrýsta á ríkisstjórn að koma á greiðslustöðvun vegna afborgana húsnæðislána til fólks sem missir atvinnu eða verður fyrir tekjutapi. Afborganir af lánum verði frystar þangað til fólkið fær aftur vinnu eða er aftur komið með sambærilegar tekjur og áður. Einnig þarf að þrýsta á ríkisstjórnina að setja á bann við útburði leigjenda. 3) Að styðja kröfur verkalýðshreyfingarinnar er varðar húsnæðisöryggi á tímum kórónuveirunnar.
Greinargerð:
Við eigum öll að geta snúið til heimilis okkar og skynjað þar öryggi og stöðugleika. Heimili er grunnforsenda velferðar, þar hlúum við að okkur og eigum í persónulegum samskiptum við þau sem standa okkur nærri. Þegar við hugsum um heimili þá er það gjarnan sá staður þar sem við höfum komið okkur vel fyrir og þar sem hlutirnir eru eftir okkar höfði. Nú upplifa margir erfiða tíma og það verður að tryggja að ekki verði gengið á húsnæðisöryggi fólks. Friðhelgi heimilisins skiptir öllu máli og það á að tryggja það. Þegar fólk verður fyrir tekjumissi og meðfylgjandi fjárhagsáhyggjum er nauðsynlegt að styðja beint við þau sem lenda í því. Sá stuðningur felst í því að heimili fólks verði áfram heimili þess í gegnum efnahagslegar afleiðingar af völdum kórónuveirunnar.
Borgarstjórn Reykjavíkurborgar samþykkir því að útvíkka reglur um styrki og lán vegna sérstakra erfiðleika. Nú er slíkt veitt þeim sem hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg og uppfylla ákveðin skilyrði. Hægt er að sækja um undanþágu frá þessu en nauðsynlegt er að reglur Reykjavíkurborgar nái utan um öll þau í samfélaginu okkar innan borgarinnar sem gætu þurft á stuðningnum á að halda.
Ljóst er að staðan í samfélaginu mun vara í tiltekinn tíma og því þarf að krefja stjórnvöld um að koma með beinan stuðning sem nýtist heimilum beint. Mörg heimili eru engan veginn í stöðu til þess að greiða af húsnæðislánum vegna tekjumissis og því þarf að koma til greiðslustöðvunar sem nær til þeirra. Á meðan að ýmislegt í samfélaginu hefur verið sett á bið, er ekki hægt að gera þá kröfu að heimilin haldi uppi sömu afborgunum af lánum.
Reykjavíkurborg samþykkir því að þrýsta á ríkisstjórn að koma því á að afborganir lána þess fólks sem missir atvinnu eða verður fyrir tekjutapi vegna afleiðinga kórónuveirunnar, verði frystar, þar til fólkið fær aftur vinnu eða er komið með sambærilegar tekjur og áður. Einnig þarf að gæta að hagsmunum leigjenda sem misst hafa tekjur sínar og mikilvægt er að þrýsta á ríkisstjórnina að setja á tímabundið bann við útburði leigjenda svipað því sem gert var í New York.
Leiðarljós verkalýðshreyfingarinnar er að tryggja hagsmuni fólks framyfir fjármagns á tímum efnahagskreppu. Má þar nefna framtíðarsýn ASÍ sem ber heitið Rétta leiðin – Frá kreppu til lífsgæða og öryggis fyrir okkur öll. Reykjavíkurborg samþykkir að vinna náið með verkalýðshreyfingunni varðandi þann stuðning sem þarf að veita íbúum á þessum tíma.