Almenningssamgöngur út frá þörfum fjöldans
Tilkynning
17.02.2021
Á rúmlega 300 blaðsíðum um almenningssamgöngur er fjallað um hvernig þær verði betri í framtíðinni. Talað er um hönnun, útfærslu og hvar borgarlínan muni ferðast. Fólkið sem er að bíða eftir betri almenningssamgöngum þarf ekki 305 bls. skýrslu sem útskýrir fyrir þeim hvað á að gera í framtíðinni. Ég hef ekkert á móti því sem kemur þarna fram en ég er á móti því ef að ekkert verður gert til að bæta almenningssamgöngur þangað til.
En þessi lausn ein og sér er ekki að fara að redda þeim vandamálum sem notendur almenningssamgangna standa frammi fyrir núna. Borgarlínan má ekki virka heftandi á núverandi uppbyggingu almenningssamgangna. Hvað ætlum við að gera þangað til að borgarlína verður að veruleika? Mikilvægt er að þessi lausn sé ekki kynnt sem svo að hún ein og sér leysi þann vanda sem þarf að bæta.
Uppbygging stofnleiða tekur sinn tíma. Þó svo að strætó geti nýtt sér þær eftir því sem þær byggjast upp, þá finnst mér mikilvægt að nefna að þessi uppbygging má ekki valda því að við bætum ekki almenningssamgöngur núna.
Varðandi fjármögnun, þá er nauðsynlegt að tryggja að notendur verði varðir fyrir óhóflegri gjaldtöku. Talað er um að 60 milljarða sem á eftir að fjármagna í samgöngusáttmálanum, geti komið frá umferðar- og flýtigjöldum eða öðrum leiðum og að útfærslan sé hjá ríkinu og Betri samgöngum ohf. Þetta má ekki opna á auka gjöld hjá notendum. Almenningnssamgöngur eiga að vera byggðar upp á skattfé en ekki flatri gjaldtöku eins og veggjöldum.
Skattkerfið þarf að bæta, svo að innheimta endurspegli tekjur og þau sem eru aflögufær greiði í samræmi við innkomu. Svo ég snúi mér aftur að gjaldtöku, þá fjallar skýrslan aðeins um fargjöld í borgarlínu og miðasölu. Málið er kannski ekki komið á það stig en í þessu samhengi spurði ég hver muni sjá um tækin og allt sem viðkemur borgarlínu. Það kemur engum á óvart að ég tel að þetta eigi að vera í opinberum rekstri.
Varðandi aðgengismál þá er gott að sjá að vel sé tekið á því og ÖBÍ er þakkað fyrir ábendingar. Í því samhengi spyr ég hvort fleiri hagsmunasamtök hafi verið spurð álitis varðandi frumdrögin? Hvort leitað hafi verið til þeirra út fá fleiri sjónarhornum? Hér er ég t.d. að hugsa um PEPP, samtök fólks í fátækt og aðra sem hafa þurft að reiða sig á almenningssamgöngur í gegnum tíðina. Skiljanlega hafa ekki allir tíma til þess að rýna í 300 bls. skýrslu og koma með athugasemdir.
Vegna loftslagsmála er verið að treysta á að ákveðinn fjöldi muni nýta sér borgarlínu. Hamfarahlýnun blasir við og nauðsynlegt er að bregðast við stöðunni.
Við vitum að fjöldi þeirra sem nýta almenningssamgöngur núna er ekki hár. Þannig að við viljum væntanlega hækka þá tölu. Þess vegna er mikilvægt að ræða hvað við ætlum að gera þangað til borgarlína kemur. Hvað við ætlum að gera núna, í samhengi við þetta framlag.
Hvernig bætum við líf þeirra sem treysta á almenningssamgöngur, núna sem fyrst? Ég er fylgjandi stórri uppbyggingu og að sett sé fram framtíðarsýn. Ef eitthvað er þá tel ég að við eigum að gera meira. Við sósíalistar viljum sjá almenningssamgöngur sem eru byggðar upp út frá þörfum þeirra sem nota þær og sjá það strax. Það er ýmislegt sem hægt er að byrja á núna, eins og betri tengingar á milli hverfa.