Nokkur orð um heimsvaldastefnu NATO og hvítan femínisma
Pistill
19.08.2021
Á Íslandi heyrum við ekki oft talað um „hvítan femínisma“. Það er í raun undarlegt því að hvítur femínismi er algjörlega miðlægur í hugmyndaheimi íslensku valdastéttarinnar. Hvítur femínismi er afkvæmi þeirrar hvítu yfirburðarhyggju sem mótað hefur hugmyndaheim vestrænnar valdastéttar með hörmulegum afleiðingum fyrir saklaust fólk. Hann, líkt og foreldrið, er heltekinn af „gildum“ Vesturlanda og sér ekkert athugavert við að þessum „gildum“ sé þröngvað upp á fólk, iðulega með einstaklega ofbeldisfullum hætti.
NATO hvílir á hvítri yfirburðarhyggju
NATO (Atlandshafsbandalagið) eru samtök sem hvíla á hvítri yfirburðahyggju og grimmilegri heimsvaldastefnu. Þau byggja á gömlu og sjúku stigveldi sem viðhaldið er með innrásum, árásum, morðum og pyntingum. Þau eru sek um algjört skeytingarleysi gagnvart hagsmunum fólks í löndum sem hafa verið dæmd til að þola árásargirni vestursins. Þau eru sek um yfirgengilegustu hræsni sem hægt er að hugsa sér, eru í raun hræsni-heimsmeistarar samtímans; láta sem að morðin og limlestingarnar sem samtökin og „samstarfsaðilar“ þeirra framkvæma séu í raun ekki morð, heldur göfugt svar við frelsisþrá alls mannkyns.NATO er stórkostlega mikilvægur hluti af og þátttakandi í útbreiðslu heimsvaldahyggju Bandaríkjanna en, eins og við öll hljótum að vera búin að átta okkur á, eru Bandaríkin einn helsti smitberi menningarsjúkdómsins sem hvít yfirburðarhyggju sannarlega er. Hún hefur verið og er ein helsta útflutningsvara Bandaríkjanna.
Bandaríkin hafa frá árinu 1979 farið fram með siðvilltum hroka innblásnum af rasisma gagnvart fólkinu í Mið-Austurlöndum. Bandaríkin hafa notað hvaða aðferðir sem er til að breiða út ófrið í þessum heimshluta. Með því hafa þau grafið undan öllum möguleikum á því að velsæld fólks á þessu svæði geti raungerst.
Forréttindafemínistar studdu innrás í Afganistan
Einn af stóru glæpum Bandaríkjanna er innrásin í Afganistan, en hana fyrirskipaði rasistinn, auðmaðurinn og kristni trúarofstækismaðurinn George W. Bush. Ein af árangursríkustu áróðurs-lygum hans og siðvillinganna sem störfuðu með honum var að vestrið yrði að axla siðferðilega ábyrgð á því að frelsa konur. Undir þetta tóku hvítir forréttindafemínistar á Vesturlöndum.
Þessar konur höfðu ekki áhuga á að skoða og viðurkenna sögu Bandaríkjanna; tryllt ofbeldið gagnvart alþýðu fólks í Austur- og Suðaustur Asíu, tryllt ofbeldið gagnvart alþýðu fólks í Suð- og Mið-Ameríku né tryllt ofbeldið gagnvart svörtum og brúnum íbúum Bandaríkjunum sjálfra. Þær spurðu ekki að því hvort líklegt væri að land með viðlíka sögu væri raunverulega fært um að færa fólkinu í Afganistan frelsi, ef svo ólíklega vildi til að raunverulegur vilji væri til þess. Þess í stað veittu þær ofbeldis-verkefni Bandaríkjanna og NATO lögmæti. Samsekt þeirra er raunveruleg og óumdeilanleg. En á því hefur engin viðurkenning fengist, aðeins forherðing hinnar óbærilegu sjálfsupphafningar „góðu og göfugu“ vestrænu bjargvættanna.
Vegna þess að NATO hvílir á hvítri yfirburðarhyggju er ekki skrítið að þar eigi hvítur femínismi upp á pallborðið. Með honum hefur auðvirðileg tilraun verið gerð til að bleik-þvo heimsvaldastefnu og rasisma NATO og Bandaríkjanna. Þetta er gert með því að útbúa verkefni fyrir vestrænar konur á vettvangi NATO. Þar ljá þessar konur samtökunum lið og taka þátt í útbreiðslu heimsvaldastefnunnar í hersetnum löndum. Þær vinna á vettvangi og undir stjórn innrásaraflanna, í forréttindastöðu. Þær geta komið og farið eins og þeim sýnist, nokkurskonar ferðamenn úr yfirstétt.
Það sama á ekki við um alþýðufólkið sem þjáist vegna endalauss ófriðar og hernaðarhyggju. Það býr í allt annarri veröld, veröld lokaðra landamæra þar sem rasismi og andúð á múslimum ráða ríkjum, andúð sem stendur í beinu sambandi við Stríðið gegn hryðjuverkum og múslimahatrið sem það hefur nært.
Bjargvættir með kvenfrelsiskyndil og hríðskotabyssu
Ég hef fylgst með stríðinu gegn hryðjuverkum síðan að það hófst fyrir tveimur áratugum með því sem George W. Bush kallaði „krossferð“ til Afganistan. Ég hef á þessum árum séð hvað eftir annað með algjörlega skýrum hætti hversu fært vestrið er um skelfilegt ofbeldi og takmarkalausa grimmd. Ég hef séð hversu yfirgengilega hræsni og geigvænlegar lygar vestræn valdastétt er fær um til að tryggja áframhaldandi kúgun á fólki neðarlega í hinu alþjóðlega stigveldi. Ég hef séð að þar er femínisminn notaður sem mikilvægt vopn í vopnabúrinu, af innblásinni forherðingu þeirra sem einskis svífast.
Í þessari hræsni og forherðingu er NATO einn aðalleikarinn. Þau okkar sem sannarlega hafa fylgst með hörmulegri atburðarás undanfarinna tveggja áratuga hafa lesið ótal fréttir og skýrslur sem fjalla um ábyrgð NATO og Bandaríkjanna á hræðilegum voðaverkum; aftökum án dóms og laga, m.a. á börnum, loftárásum þar sem konur og börn hafa iðulega verið sprengd í óþekkjanlegar tætlur, pyntingum o.fl.
NATO viðurkenndi meira að segja árið 2009 að vissulega bæru samtökin ábyrgð á allt of mörgum dauðsföllum saklausra borgara en það væri hins vegar svo að þessi dauðsföll væru afleiðing hins mikla árangurs sem NATO hefði náð í því að stöðva framgöngu Talibana!
Hin óumdeilanlega staðreynd er sú að NATO og Bandaríkin stunda hryðjuverk gagnvart saklausu fólki og bera ábyrgð á þjáningum sem aldrei verður hægt að bæta fyrir. Það sem kallað hefur verið „lýðræðisuppbygging“ í Afganistan af einni fyrrum íslenskri starfskonu NATO í landinu er þvert á móti risavaxin tilraun í heimsvaldastefnu, framkvæmd af grimmd og glæpsamlegu áhugaleysi um velferð fólksins í Afganistan; kvenna, barna og karla.
Vestrænir „bjargvættir“ með kvenfrelsiskyndilinn í annarri hendi og hríðskotabyssu í hinni eru nú enn einu sinni afhjúpaðir fyrir augum heimsbyggðarinnar sem útsendarar rotinnar heimsvaldastefnu, þátttakendur í einu siðlausasta verkefni mannkynssögunnar.
Ég set fram þær kröfur …
Vegna alls þessa sem ég hef hér upp talið fæ ég því ekki orða bundist:
Ég set hér með fram þá kröfu að Ísland taki á móti flóttafólki af mannúð, og með vinsemd og virðingu að leiðarljósi.
Ég set fram þá kröfu að Ísland gangi úr hryðjuverkasamtökunum NATO.
Ég set fram þá kröfu að Ísland biðjist afsökunar á þátttöku sinni í glæpsamlegum innrásum og stuðningi við heimsvaldasinnað og rasískt ofbeldi NATO og Bandaríkjanna.
Ég set fram þá kröfu að Ísland berjist á alþjóðavettvangi fyrir friðsamlegum lausnum í alþjóðamálum og hætti að taka þátt í að kynda ófriðarbál af forhertri heimsku og yfirborðsmennsku.
Ég set fram þá kröfu að almennum borgurum sem þolað hafa ofbeldi NATO og Bandaríkjanna í Afganistan verði greiddar miskabætur.
Og ég set fram þá kröfu að við segjum skilið við þann hrokafulla, heimsvaldasinnaða og rasíska hvíta femínisma sem ráðið hefur ríkjum í Stjórnarráðinu og við stefnumótun Íslands í utanríkismálum. Slíkur femínismi á heima á ruslahaugum sögunnar. Tími raunverulegrar samstöðu með alþýðu veraldar, konum, börnum og mönnum, er runninn upp.
Sú samstaða er femínismi sem við getum öll stutt og barist fyrir.