Gæði landsins; #1: Hvað er fyrir hvern og hver er fyrir hvað?
Pistill
06.09.2021
Þjóðarbúskapur. – Ísland er fyrir alla Íslendinga
Við Íslendingar stærum okkur af því að reka hér norrænt velferðarsamfélag. Til að slíkur búskapur gangi upp þurfum við að reka heildstæða stefnu, öllum landsmönnum til hagsbóta. Ríkið þarf að skapa aðstæður til framleiðslu og skammta aðgang að auðlindum til að landsframleiðslan sé næg fyrir alla landsmenn til að lifa sómasamlegu lífi. Í dag er staðan þannig að allar aðstæður eru hinar bestu. Það er nóg til.
Á fjögurra ára fresti kjósum við og þegar atkvæðin hafa verið talin er mynduð ríkisstjórn sem hefur það verkefni með höndum að sjá til þess að þessum gæðum, þ.e. arðinum af landsframleiðslunni, sé skipt með sanngjörnum hætti. Öll tæki og tól eru til staðar. Hlutverk ríkisstjórnarinnar á að vera að sækja fjármagn þar sem ofgnótt er og færa til þeirra sem líða skort.
Hvernig hefur þetta gengið undanfarna áratugi?
Þróun skattbyrði undanfarin 25 ár hefur verið með þeim hætti að skattaálögur hafa verið fluttar frá þeim sem mest hafa til þeirra sem berjast í bökkum. Til dæmis hefur skattbyrði á almennt verkafólk hækkað úr 21,3% í 25,2%, eða um 18,3%. Skattbyrði á eldri borgara hefur hækkað úr 9,5% í 21,3%, eða um 124%. Á meðan þetta er skattbyrði á hátekjuhópa lækkuð úr 35% í 26 eða um 34,6% og veiðigjöld hafa lækkað um 65%.
Hvert stefnum við?
Ef við höldum áfram að kjósa sama fólk til að stjórna landinu okkar og gæta okkar hagsmuna hlýtur að vera rökrétt að áætla að áfram verði rekin sama stefna. Við skulum reikna hvað gerist þá næstu 25 árin.
Með sama áframhaldi verður staðan þannig að frá árinu 1995 til ársins 2045 mun skattbyrði á almennt verkafólk hafa hækkað úr 21,3% í 29,1%, eða um 36,6%. Skattbyrði á eldri borgara mun hafa hækkað úr 9,5% í 33,1%, eða um 248,4%. Á meðan þetta hefur gerst mun skattbyrði á hátekjuhópa hafa lækkað úr 35% í 17% eða um 51,43% og veiðigjöld verða væntanlega úr sögunni.
Sé þetta sú framtíð sem fólkið í landinu vill getur það valið sér hana með því að kjósa alveg eins og síðast.
Vilji fólkið í landinu að Ísland sé fyrir fólkið í landinu er bráðnauðsynlegt að á því verði breyting.
Svo einfalt er það.
Stefna sósíalista
Stefna sósíalista er að Ísland verði fyrir alla landsmenn. Með réttri stjórnun getum við útrýmt fátækt og rekið þjóðfélag sem við getum öll verið stolt af. Það er nefnilega feykinóg til. Nú er kominn tími til að skipta kökunni með sanngjarnari hætti.
Setjum X við J og kjósum betra samfélag!