Framboð sósíalista í borginni – Bjarki Steinn Bragason
Sögur
26.04.2022
„Ég heiti Bjarki Steinn Bragason, 32 ára, fæddur og uppalinn í 101 Reykjavík. Er stoltur hluti af verkastéttinni og hef í raun verið alla tíð, það er minn bakgrunnur. Vinn í dag sem skólaliði í grunnskóla í Reykjavík, auk þess sem ég er í íslenskunámi við Háskóla Íslands.
Ég hef verið sósíalisti síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum og hafa skoðanir á þeim. Ég hef mikla trú á því sem flokkurinn stendur fyrir og langar að taka þátt í baráttunni fyrir jafnara og réttlátara samfélagi, samfélagi sem virkar fyrir allt fólk en ekki bara nokkra útvalda á toppnum.
Ójöfnuður og stéttaskipting eru vandamál sem of margir þjást út af og of margir eru í afneitun yfir. Það er ekki minna vandamál í Reykjavík en annars staðar, þó að Samfylkingin hafi verið í stjórn í rúman áratug. Þar er talað um metnaðarfullar lausnir í húsnæðismálum fyrir hverjar kosningar, sem aldrei verður að neinu. Eins og það er oft talað um “vinstri meirihlutann” í Reykjavík sé ég ekki mikla vinstri stefnu þar. Borgarstjórn er ekki að gera nóg fyrir láglaunafólk og ég vil sjá hana taka skarpa vinstri beygju úr því miðjumoði sem hún hefur verið föst í.
Mér finnst mikilvægt að Sósíalistaflokkurinn hafi sterka rödd í Ráðhúsinu, tel það til hagsbóta fyrir alla borgina, sérstaklega þau lægst settu, sem mestan stuðning þurfa. Í raun sé ég engan annan flokk í boði sem ég myndi flokka sem verkalýðsflokk og því býð ég mig fram fyrir Sósíalistaflokkinn.“
Bjarki Steinn Bragason býður sig fram fyrir Sósíalista í Reykjavík þann 14. maí. #sannaReykjavík